Svarta þernan


Hinn 4. júlí síðastliðinn fóru Örlygur Kristfinnsson og undirritaður yfir í Saurbæjarmýri hér inni í firði í þeim erindagjörðum að staðsetja flórgoðahreiður, en tvö pör verptu á þessu svæði í vor, og hefur sú tegund aldrei verpt í Siglufirði áður, að talið er. Að syðra hreiðrinu þurfti ekki að leita, en hitt, það sem norðar var og til komið nokkuð á eftir hinu, var ófundið.

Þetta var um kl. 20.00 á sunnudagskvöldi. Örlygur gekk austan megin kílanna sem þarna eru en undirritaður var á flugbrautinni vestan megin, gegnt honum. Markmiðið var að reyna þannig að sjá hvaðan fuglarnir myndu læðast í burtu.

Allt í einu hringir Örlygur í mig og er í töluverðu uppnámi, kveðst hafa séð dálítið undarlegt, kolsvartan fugl sem minnti á kríuunga að vera að fljúga í fyrsta sinn, eða jafnvel leðurblöku; þetta hafi verið reikult og óburðugt flug, og fyrirbærið hafi komið úr brekkunni þar austan við og lent í háu grasinu hjá sér. Örlygur tók drjúga stund í að leita en allt kom fyrir ekki, engu var líkara en þetta hefði gufað upp. Eiginlega var Örlygur farinn að trúa því að hann hafi séð ofsjónir. Svo héldum við áfram því sem við höfðum upphaflega ætlað að gera og fundum hreiðrið.

Nokkrum dögum seinna, 9. eða 10. júlí, sér Örlygur fuglinn aftur í sömu brekku og núna er fullorðin kría hjá honum, og það er verið að stinga saman nefjum. Þegar Örlygur bregður sér frá til að sækja myndavél lætur sá svarti sig hverfa. Ég var staddur í Ólafsfirði þá.

Hinn 13. júlí taldi Steingrímur Kristinsson ljósmyndari hér í bæ sig sjá fuglinn, en náði ekki á mynd. Þá var fuglinn mun norðar, úti við gömlu flugbrautina.

Daginn eftir komumst við loksins í færi, þegar svarta þernan sýndi sig, og enn á svipuðum slóðum og í fyrstu tvö skiptin. Þá voru breskir fuglafræðingar staddir þar og urðu vitni að þessu með okkur. Einhverjir í þeirra röðum vildu meina að þetta væri amerísk kolþerna. Aðrir stóðu á gati. Litlu síðar sendi ég myndir á Yann Kolbeinsson lífeðlisfræðing og honum fannst trúlegast eftir að hafa grandskoðað þær að þetta væri frekar melanískur kríuungi frá í sumar heldur en afbrigðileg kolþerna. Albínóar eru ekki svo óalgengir hjá fuglum, en þetta fyrirbæri er mun sjaldgæfara; þar tekur efnið, sem gerir fuglinn dökkan, algjörlega yfirhöndina. Yann hafði t.d. aldrei heyrt um þetta hjá kríum, og er hann þó einhver öflugasti fuglaskoðari landsins og ákaflega vel að sér í fræðunum. Og ekkert fann hann um þetta á Netinu.

Þegar við sáum svörtu þernuna átti hún undir högg að sækja, í bókstaflegri merkingu, því kríurnar létu hana ekki í friði, hvort sem hún settist eða flaug. Þess vegna var erfitt að komast að henni til ljósmyndunar. Hún var á stöðugum flótta undan hvössum goggunum og hefur ekki sést á svæðinu síðan. Og ekki að undra. Yann varpaði líka fram þeirri spurningu hvers vegna fuglinn, ef hann
væri kolþerna eða eitthvað álíka, væri ekki farinn af staðnum fyrir löngu fyrst hann hefði orðið fyrir svona miklu áreiti. Ef hann hins vegar væri kríuungi og ætti foreldri þarna yrði vera hans á svæðinu skiljanlegri. En svo hefur stundin runnið upp, hann verið orðinn nógu sjálfbjarga til að yfirgefa heimkynnin eða fjölskyldan öll.

Ég er búinn að senda myndir á þröngan hóp sérfræðinga, m.a. í Svíþjóð, og veit að jafnframt er verið að skoða þetta í Bretlandi og e.t.v. víðar, en engin viðbrögð eru komin þaðan enn, kannski af því að enginn veit fyrir víst hvað þetta er.

En ljóst er að þetta er æði merkilegur fugl.

Hér koma nokkrar myndir.

Hér er Örlygur Kristfinnsson að leita að svörtu þernunni 4. júlí um kl. 20.00.

Hún kom úr brekkunni þarna fyrir ofan hann og lenti í háu grasinu en fannst svo ekki.

Hér er samanburður við fullorðna kríu.

Séð undir og yfir.

Að ofanverðu.

Aðeins betur.

Undir.

Annað sjónarhorn.


Aftur samanburður.


Og enn.


Myndir og texti:
Sigurður Ægisson
sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is