Sunnudagskaffi með skapandi fólki


Sunnudaginn 2. apríl kl. 14.30-15.30 mun Arnfinna Björnsdóttir, bæjarlistamaður Fjallabyggðar, vera með erindi um list sína og handverk í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, undir dagskrárliðnum „Sunnudagskaffi með skapandi fólki.“

Arnfinna, eða Abbý eins og hún er ávallt kölluð, er fædd á Siglufirði 1942. Hún stundaði nám við Verslunarskólann í Reykjavík og vann síðan í 37 ár sem launafulltrúi og hafnargjaldkeri hjá Siglufjarðarkaupstað. Samhliða vinnunni lagði hún stund á myndlist og handverk og var við listnám hjá Örlygi Kristfinnssyni á Siglufirði veturna 1989–1991. Einnig tók hún stutt námskeið hjá Aðalheiði S. Eysteinsdóttur 1996 og 1997.

Abbý hefur rekið vinnustofu og sýningarrými á Siglufirði til fjölda ára og opnar árlega dyr sínar 20. maí með eigin sýningu sem stendur til 20. september. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir klippimyndir sínar, þar sem síldarárin á Siglufirði eru umfjöllunarefnið.

Einnig hefur hún tekið þátt í samsýningum á Akureyri, Hjalteyri og Ólafsfirði, og sett upp einkasýningu á Akureyri. Í ár mun Abbý setja upp fjórar sýningar í tilefni af bæjarlistamannstitlinum og 75 ára afmæli sínu.

Í sunnudagskaffinu ræðir Abbý um feril sinn og þau verk sem hún hefur unnið í gegnum tíðina, allar götur frá 1956. Sýndar verða myndir af verkum og gestum boðið til samsætis og kaffiveitinga. Allir velkomnir.

Fjallabyggð, Egilssíld, Fiskkompaníið og Uppbyggingarsjóður/Menningarráð Eyþings styðja við menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is