Sunnudagskaffi í Alþýðuhúsinu


Á hvítasunnudag, 4. júní, kl. 14.30-15.30, verður haldið „Sunnudagskaffi með skapandi fólki“ í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Sunnudagskaffið er röð fyrirlestra, tónleika, upplestra, gjörninga eða hvers þess sem byggist á skapandi hugsun. Áhugaverðum einstaklingum er boðið til þátttöku, þar sem þeir gefa gestum innsýn í skapandi ferli. Viðburðirnir eru haldnir fyrsta sunnudag hvers mánaðar.

Að þessu sinni mun rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson segja frá sjálfum sér og bókunum sínum og lesa valda kafla úr þeim. Að loknu erindi er boðið upp á spjall og kaffiveitingar. Allir velkomnir.

Guðmundur Andri Thorsson er fæddur árið 1957 í Reykjavík, yngri sonur hjónanna Thors Vilhjálmssonar og Margrétar Indriðadóttur. Hann er íslenskufræðingur að mennt og hefur starfað við yfirlestur um árabil hjá bókaforlögum, nú síðast hjá Forlaginu. Árið 1988 kom út fyrsta skáldsaga hans, Mín káta angist, og hefur hann síðan sent frá sér tíu bækur, skáldsögur, ljóð og greinasafn. Guðmundur Andri hefur árum saman skrifað vikulega pistla í blöð, síðast í Fréttablaðið nánast frá stofnun þess blaðs.

Fjallabyggð, Uppbyggingarsjóður/Eyþing, Egilssíld og Eyrarrósin styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is