Sumarsamba


Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem Siglufirði tengist að lagið Sumarsamba hefur gengið í endurnýjun lífdaga að tilhlutan Birgis Ingimarssonar prentara og félaga syðra, sem fyrr í þessum mánuði röltu inn í Hljóðrita í Hafnarfirði og tóku það upp. Í framhaldi var gert myndband, unnið af Óskari Braga Stefánssyni, hálfum Siglfirðingi, og því svo komið á Youtube, Facebook og víðar. Aðrir sem málinu tengjast eru Siglfirðingarnir Jón Ómar Erlingsson, Magnús Guðbrandsson, Helgi Svavar Helgason og Gylfi Ægisson, auk Sigurðar Guðmundssonar, Guðmundar Péturssonar, Ingimars Andersen og Eyjólfs Kristjánssonar. Stjórn upptöku var í höndum Kristins Jónssonar.

Lagið kom fyrst út árið 1995 á hljómplötu Gautanna sem nefndist Í Vetrarbrautinni. Í hljómsveitinni voru þá Elías Þorvaldsson, Guðbrandur Gústafsson, Stefán Friðriksson, Sigurður Jóhannesson og Sverrir Elefsen.

?Ég samdi lagið seinni part árs 1994, og kveikjan að því var Síldarævintýrið,? segir Elías, aðspurður um söguna á bak við það. ?Og það er gaman að segja frá því að þegar Helgi Svavar var að læra hjá okkur í tónskólanum hér á sínum tíma man ég að hann bjó til þessa hljómborðstrommulúppu sem var svo notuð í laginu þegar platan var gefin út fyrir 15 árum. Og nú sér hann um trommuleikinn sjálfur á trommusetti.?

En hvernig skyldi textinn hafa orðið til?

?Jú, þegar Elías kom með lagið til mín var hann með hugmynd um að í viðlaginu yrði: ?Sumar á Sigló?, og það var eiginlega útgangspunkturinn hjá mér, ég spann svo út frá því í báðar áttir,? segir Sigurður. En hann var þá að byrja fyrir alvöru að fást við að semja texta við dægurlög og átti 9 af 15 textum geisladisksins.

Eins og áður kom fram heitir lagið upphaflega Sumarsamba en hefur að undanförnu jafnframt gengið undir nafninu Siglufjarðarsamba (á Youtube  ber það yfirskriftina Siglufjarðar Samban og á Siglo.is Sigló-Samban). Áður var það gjarnan manna á meðal kallað bara ?Sumar á Sigló?.

Nú væri ráð að einhver tæki sig til og léti, í samráði við höfunda, samræma þetta, til að skapa ekki óþarfa rugling. Slíkt myndi líka auðvelda fólki að finna það á Netinu.

Elías og Sigurður eru ánægðir með nýju útgáfuna, sem hefur líka fengið glymrandi undirtektir. Í morgun voru t.d. 1600 manns búnir að hlusta á lagið og sjá á Youtube.

Hér fyrir neðan má skoða þennan líka flotta texta Sigurðar Jóhannessonar (í núverandi gerð, en Eyjólfur Kristjánsson breytir honum lítillega á einum stað) við hið grípandi lag Elíasar Þorvaldssonar. Myndbandið er á vinstri spalta á Forsíðu.

Sumarsamba

Við torgið sitja vil í sólarinnar yl

og safna á mig dökkum, fagurbrúnum lit.

Dömurnar spóka sig, spássera, heilla mig.

Ég spái í þær glaður þaðan sem ég sit.

Já, fjörugt mannlífið, mannverur hlið við hlið,

á milli þeirra gneistar eldheit ástarglóð.

Og þegar kvölda fer, kveikt upp í grillum er

og hvaðanæva heyrast söng- og gleðihljóð.

Sumar á Sigló.

Alltaf þar vil dvelja.

Sumar á Sigló.

Ef ég mætti velja.

Sumar á Sigló.

Og allt mitt þyrfti? að selja.

Sumar á Sigló.

Líkist ekta paradís.

Sumar á Sigló.

Ekkert frekar kýs.

Sóló.

Sumar á Sigló ...

Og þegar kvölda fer, kveikt upp í grillum er

og hvaðanæva heyrist söngur, trall og önnur gleðihljóð.

Svo tekur dansinn við, duga þá engin grið.

Er dagar aftur skríðum upp í, heit og rjóð.

[Gjallarhorn: Æ, láttu punginn á mér í friði, kerling, sérðu ekki að ég er að grilla …]

Sumar á Sigló ...

 

Hér eru kapparnir tveir, Elías Þorvaldsson og Sigurður Jóhannesson, í blíðunni seinnipartinn í dag.

Siglufjörður í baksýn. Að sjálfsögðu.


Mynd og texti:
Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is