Sumardagar í Siglufirði


Á Youtube.com má nú skoða gullfallegt myndband frá sumrinu 2015, þar sem dróna var flogið yfir Siglufjörð. Eigandi þess er Tom Brechet.

Hann er svissneskur tölvunarsérfræðingur og vinnur fyrir Hewlett-Packard í Sviss. Hann býr í þorpinu Pfyn í Thurgau skammt frá Bodenvatninu, á þýsku landamærunum. Hann er mikill áhugamaður um Ísland og hefur komið hingað nær árlega í fjölda ára. Oftast kemur hann með bifreið sína með Norrænu og hefur einhverra vikna viðdvöl.

Hann var í Siglufirði upp úr miðjum ágústmánuði í fyrra, í fylgd með góðvinum sínum Jóni Baldri Hlíðberg myndlistarmanni og eiginkonu, sem hafa þekkt hann í áratug eða svo, en Jón Baldur var að skoða gróður í firðinum, m.a. í Siglufjarðarskarði, vegna bókar sem hann vinnur að með Herði Kristinssyni grasafræðingi.

Umsjónarmaður Siglfirðings.is fékk góðfúslegt leyfi til að vísa á myndbandið, sem er um fjórar mínútur í spilun. Og annað er hér, um 19 mínútna langt, þar sem víðar er farið um landið. Svipmyndir héðan eru þar innan um annað.

Mynd: Skjáskot út téðu myndbandi.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is