Súkkulaðikaffihús Fríðu


Handgerðir bjórkonfektmolar, gráðaostakonfektmolar, rúgbrauðskonfektmolar, sítrónukonfektmolar. Allir úr úrvalssúkkulaði, belgísku. Þetta hljómar dálítið framandi, virðist eiga við eitthvað sem eingöngu mætti rekast á í einhverju útlandinu, en er þó til sölu í nýju kaffihúsi á Siglufirði, í eigu listamannsins Fríðu Bjarkar Gylfadóttur. Það var formlega opnað 25. júní síðastliðinn og ber einfaldlega heitið frida. Viðtökurnar hafa verið frábærar, enda mikið gómgæti hér um að ræða.

Konan sú er ekki bangin við að fara ótroðnar slóðir. Hún er fædd árið 1965. Árið 1979 lék hún aðal kvenhlutverkið, eina af fjórum eiginkonum biskupsins, í sjónvarpsmynd í þremur hlutum sem gerð var eftir sögu Halldórs Laxness, Paradísarheimt. Hún var þá ekki nema 14 ára gömul.

Hún flutti norður í gamla síldarbæinn 1993. Fyrir um áratug setti hún upp vinnustofu í Túngötu 40a, gegnt íbúðarhúsi sínu, og klæddi það Morgunblaðinu að utanverðu. Þar inni vann hún svo að margskonar listsköpun næstu árin, einkum tengda stólum og að mála íslenska hesta. Einhvern daginn fékk hún svo þá mögnuðu hugmynd, að prjóna trefil, sem átti að ná frá miðbæ Siglufjarðar til miðbæjar Ólafsfjarðar, þegar búið væri að opna Héðinsfjarðargöngin, sem gerðist 2. október 2010, og tengja þannig saman byggðakjarnana tvo sem mynda Fjallabyggð. Þetta takmark náðist með hjálp yfir 1400 manns, frá Íslandi og víða annar staðar að úr heiminum. Trefillinn varð 11,5 kílómetra langur.

Fríða var kjörin Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2015.

Eiginmaðurinn átti hugmyndina

„Hugmyndin vaknaði í kjölfar þess að Sparisjóður Siglufjarðar rann inn í Arion banka, í nóvember í fyrra. Ég hafði unnið í sparisjóðnum í um 20 ár, en var nú sagt upp vegna þessara umskipta,“ segir Fríða, spurð um aðdragandann að opnun hins nýja og glæsilega súkkulaðikaffihúss. „Ég fór heim, þegar ég fékk uppsagnarbréfið, tilbúin að gera bara eitthvað fram að áramótum og fara svo að íhuga stöðuna, en eiginmaður minn, Unnar Már Pétursson, var með aðrar hugmyndir. Ég hringdi í hann niður í Ramma um tíuleytið um morguninn og lét hann vita að ég hefði misst vinnuna og hann kom askvaðandi heim í hádeginu og var alveg búinn að leggja þetta niður, ég skyldi einfaldlega opna kaffihús, vinnustofunni yrði breytt og ég færi að gera það sem ég hefði gaman af, mála og búa til konfekt. Hann átti sumsé hugmyndina. Ég sá strax að þetta var eitthvað sem gæti orðið ákaflega spennandi, hann hafði alveg rétt fyrir sér, ég hafði ákaflega gaman af hvoru tveggja, ég meina, ef maður nær að hafa atvinnu af því sem manni þykir skemmtilegt að gera, þá er maður aldrei að mæta í vinnuna, heldur alltaf að leika sér. Ég gat ekki beðið eftir að atvinnutækifærin streymdu inn, komin á þennan aldur, svo af hverju ekki að slá til? Við fórum þess vegna mjög fljótlega að rífa hérna inni og gera allt tilbúið fyrir uppbyggingu,“ segir Fríða.

Súkkulaðiskóli í Belgíu

Hún ákvað fljótlega að þema kaffihússins ætti að vera súkkulaði.

„Ég hafði í 10 ár gert konfekt fyrir jól og páska og tekið það út á vinum og ættingjum, fór þá eftir uppskriftum sem ég fann hér og þar, og var svo byrjuð að þróa út frá því, finna eitthvað sem mér fannst betra, og ég gat ekki hætt. Svo þegar þetta kom til skellti ég mér í súkkulaðiskóla í Belgíu og það var algjört ævintýri, þá opnaðist ennþá stærri heimur. Ég sá græjurnar, lærði betri aðferðir, komst að því hvar væri best að kaupa tæki og tól og allt þetta sem til þarf. Mér reyndar leist eiginlega ekkert á þetta í fyrstu, því ég fann enga umsögn um skólann á Netinu og vissi ekkert hvað ég var að fara út í, þetta hefði allt eins getað verið eitthvert bakherbergi í einhverju slömmi í Brüssel, en svo kom á daginn að þetta var stærsta súkkulaðiverksmiðja heims og þvílíkt flott. Ég var sótt á flugvöllinn í stífbónuðum svörtum Audi og skutlað á hótelið og það var eins á hverjum morgni. Mér var skutlað í skólann og ég sótt í skólann og heim aftur. Og heitur matur og drykkir voru í boði allan daginn, frá hálf níu til sex. Þetta var bara virkilega gaman. Mig langar að fara aftur.“

Mogginn klæðir loft og veggi

Áður en Fríða tók að klæða húsið að utan á sínum tíma var hún byrjuð að vinna með Morgunblaðið, t.d. á húsgögnum og myndum. Og nú langaði hana að gera eins á vinnustofunni innanverðri. Mest fór í loftið en eitthvað líka á veggi og súlu.

„Ég ólst upp við Moggann, fannst hann með fallegasta letrið. Þetta var einhver nostalgía. Það réði þessu,“ segir hún.

Fríða hafði samband við prentsmiðju Morgunblaðsins til að athuga hvort hægt væri að fá gefins blöð til verksins og var tekið þar opnum örmum af þeim sem þar var til svara, Guðbrandi Magnússyni. Litlu síðar fékk hún sendingu á bretti með um nokkrum lengdarmetrum af blaðinu góða.

Nafnspjöldin og lógóið, sem er handskrift Fríðu, er hannað af Brynju Baldursdóttir, myndlistarmanni og hönnuði á Siglufirði, en annað í kaffihúsinu er úr smiðju Fríðu.

Stólarnir á kaffihúsinu eru líka til sölu, sumir með hluta úr Héðinsfjarðartreflinum sem sessu eða annarsstaðar. Engir tveir stólar sem Fríða hefur gert eru eins. Myndir á veggjum eru sömuleiðis verk hennar.

„Ég vil helst ekki gera neitt sem aðrir eru búnir að gera, því mér leiðast endurtekningar. En ef eitthvað er gott er auðvitað ástæðulaust að vera að breyta því. En ég er mikið í því að prófa mig áfram með nýja hluti,“ segir Fríða.

Upplifunin skiptir miklu

Súkkulaðið kemur allt frá hinum þekkta framleiðanda Callebaut í Belgíu. Í bjórmolana er notaður siglfirski bjórinn Segull 67. Í dökku molunum er blandað saman 54% og 60% súkkulaði og bætt í möndlum og vestfirsku sjávarsalti frá Saltverki á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Í boði er líka karamellusúkkulaði með trönuberjum og sjávarsalti, að fátt eitt sé nefnt. Einnig er hægt að fá keyptar öskjur með handgerðum súkkulaðimolum í.

En Fríða er með annað og meira þarna, því hægt er að fá þar súkkulaðite, ýmsar súkkulaðishúðvörur og hvaðeina, kaffi- og tebolla, samskonar og eru í notkun á kaffihúsinu, og svo aðra tegund, handgerða, úr Ólafsfirði, frá Hólmfríði Vídalín Arngrímsdóttur keramiker, sem í verkum sínum reynir að fanga hljómfall náttúrunnar í litum, formi og áferð.

Þetta er kallað að taka þemað alla leið.

Og kaffihúsið er að sjálfsögðu með vínveitingaleyfi.

„Útgangspunkturinn er súkkulaði og til þess að geta notið þess er ég með gott kaffi, svo er ég með siglfirska bjórinn, freyðivín, koníak, gos og heitt súkkulaði. Ég legg mikið upp úr upplifuninni, að heimsókn til mín á kaffihúsið skilji eitthvað eftir í hugum fólksins. Ég set ekkert hér fram nema mér finnist það sjálfri gott. Þú þarft að vera sáttur við það sem þú ert að bjóða,“ segir Fríða að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir sem teknar voru fyrir og eftir breytingar.

sukkuladihus_fridu

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Úrklippa: Greinin í styttri útgáfi á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]