Styrkur til rannsókna á Siglunesi


Stjórn fornleifasjóðs hefur lokið úthlutun styrkja úr sjóðnum fyrir árið 2011. Sjóðurinn var stofnaður skv. 24. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001. Fjárveiting til hans í ár var 17.2 milljónir króna. Samtals bárust 45 umsóknir að upphæð 73.249.840 króna. Samþykktir voru styrkir til 16 aðila að upphæð 18 milljónir. Þar á meðal var einn til verkefnisins Eyfirsk verstöð á barmi eyðileggingar, Siglunes, sem hlaut 1.500.000 kr. sem Birna Lárusdóttir o.fl. eru í forsvari fyrir.

Hér er rétt að útskýra í nokkrum orðum hvað um er að ræða.

Meðan landsmenn sóttu til veiða á opnum bátum var aðstaðan til þess einkum með þrennu móti: heimver, útver og viðleguver. Um heimver þarf ekki að fjölyrða; nafnið er gegnsætt. Útver, hins vegar, kallaðist það er menn fóru með báta sína og áhafnir að heiman og þangað sem heppilegt var að sitja fyrir göngum á vissum tímum árs og stutt var á miðin. Voru áhafnir bátanna svo um kyrrt í þessum útverum meðan á veiðum stóð og gistu þá ýmist í tjöldum eða verbúðum. Slíkir menn voru kallaðir vermenn, útversmenn eða útróðrarmenn. Frá árinu 1367 er til skilgreining um þetta er segir, að þeir menn leggist í útver sem ekki fari heim að kvöldi. Í sumum verstöðvum risu aldrei búðir fyrir sjómennina þótt aðkomubátum væri haldið þaðan til fiskjar heldur gistu þeir á bæjum í nánd, lögbýlum, hjáleigum eða þurrabúðum. Bátar sem uppsátur höfðu með þessum kostum voru stundum nefndir aðtökubátar, inntökubátar eða viðlegubátar. Og aðstaðan kölluð viðleguver.

Á Siglunesi mátti öldum saman finna eitt stærsta útverið í Eyjafjarðarsýslu og einnig samtímis heimaver og viðleguver. Eftir því sem búðsetan jókst og umtalsverð sjópláss fóru að myndast urðu slík verform algengari. Af frásögn Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að dæma, frá 1712, hefur á nesinu við mynni Siglufjarðar verið risið þurrabúðahverfi á síðmiðöldum (1264?1550). Allt frá því að hreppaskipan komst á, sem talið er að hafi gerst snemma á þjóðveldisöld, 930?1262, var byggðarlagið enda kallað Sigluneshreppur og löngum vitað að hjartað sló þar úti í 700 ár og jafnvel lengur. Þar var aðalkirkjan, sennilega frá upphafi, og þingstaðurinn. Það var ekki fyrr en á sautjándu og átjándu öld að Hvanneyri í Siglufirði tók við þeirri forystu, varð miðstöð hreppsins í trúarlegum efnum árið 1614 og í kringum árið 1700 fylgdi veraldlegi hlutinn eftir sömu leið er þingstaðurinn var færður. Var hann þá kallaður Siglufjarðarhreppur allt til ársins 1807 en síðan Hvanneyrarhreppur til 1918.

Hér má sjá nánar hver fengu styrki og til hvers:

Áframhaldandi fornleifarannsókn að Skriðuklaustri.

3.000.000.

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, Skriðuklaustursrannsóknir.

Fornleifauppgröftur í kirkjugarðinum á Hofsstöðum í Mývatnssveit.

2.500.000.

Hildur Gestsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses.

Eyfirsk verstöð á barmi eyðileggingar, Siglunes.

1.500.000.

Birna Lárusdóttir o.fl., Fornleifastofnun Íslands ses.

Úrvinnsla fornleifarannsókna á miðaldakaupstaðnum á Gásum 2001-2006.

1.200.000.

Haraldur Þór Egilsson, Minjasafnið á Akureyri.Skagfirska kirkjurannsóknin, rannsókn á kirkjustöðum 1000-1500.

1.000.000.

Guðný Zoëga, Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga.

Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp. Þverrfaglegar rannsóknir á höfuðbóli.

1.000.000.

Garðar Guðmundsson o.fl., Fornleifastofnun Íslands ses.

Kuml í uppsveitum Borgarfjarðar.

1.000.000.

Adolf Friðriksson, Fornleifastofnun Íslands ses.

Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi.

1.000.000.

Sindri Ellertsson Csillag, Fornleifafræðistofan.

Kolkuóshöfn í Skagafirði.

1.000.000.

Ragnheiður Traustadóttir, Hólarannsóknin, Háskólinn á Hólum.

Jaðarbyggðir á Suðurlandi.

800.000.

Kristján Mímisson, Fornleifafræðistofan.

Kínamúrar Íslands? Rannsóknir á Íslenskum forngörðum II.

800.000.

Árni Ólafsson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Stefán Ólafsson.

Kirkjur Reykholts.

800.000.

Guðrún Sveinbjarnardóttir.

Úrvinnsla Sveigakotsrannsókna.

800.000.

Orri Vésteinsson.

Þróun og eyðing byggðar við Heklurætur.

600.000.

Ragnheiður Gló Gylfadóttir og Kristborg Þórsdóttir.

Teikning gripa frá Sveigakoti og Hrísheimum.

500.000.

Stefán Ólafsson.

Póstskipið Phønix.

500.000.

Ragnar Edvardsson, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Horft af nesinu inn Siglufjörð.

Áhugavert verður að fylgjast með rannsókninni sem þar er fyrirhuguð.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is