Styrktarfélagið Göngum saman veitir rannsóknarstyrki að upphæð kr. 10,3 milljónir


Fimmtudaginn 16. október síðastliðinn veitti styrktarfélagið Göngum saman rannsóknarstyrki að upphæð kr. 10,3 milljónir til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 50 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins fyrir sjö árum. Styrkveitingin fór fram í Hannesarholti, Grundarstíg 9 í Reykjavík að viðstöddu fjölmenni.

Styrkurinn skiptist á milli sex aðila. Þeir eru:

·        Anna Marzellíusardóttir: Leit að áhrifabreytingum í erfðaefni fjölskyldna með háa tíðni brjóstakrabbameins; 1,8 milljón króna.
·        Borgþór Pétursson: Áhrif sviperfða á lyfjanæmi í brjósta- og eggjastokkakrabbameinum; 2 milljónir króna.
·        Helga Þráinsdóttir: Samspil TGFbeta og Thrombospondin-1 í æðaþeli og brjóstakrabbameini; 1,5 milljónir króna.
·        Jón Þór Bergþórsson: Vefjastofnfrumur og krabbameinsfrumur í brjóstkirtli: eiginleikar þeirra og lyfjanæmi; 1 milljón króna.
·        Ólafur Andri Stefánsson: Vægi sviperfða sem forspárþættir í  brjóstakrabbameinum; 1,5 milljónir króna.
·        Þorkell Guðjónsson: Áhrif USPL1 á eðlilega virkni BRCA1 og hugsanlegt hlutverk í þróun  brjóstakrabbameins; 2,5 milljónir króna.

Göngum saman byggir starf sitt á þátttöku almennings. Styrkveitingin í ár byggir að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í styrktargöngu félagsins, Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið.

Upplýsingar um félagið er að finna á  www.gongumsaman.is.

Minningargangan 30. ágúst síðastliðinn.

Minningargangan 30. ágúst síðastliðinn.

Sigurlaug Haraldsdóttir, móðir Kittýar heitinnar, á styrkveitingu Göngum saman.

Styrkþegar Göngum saman 2014 ásamt Gunnhildi Óskarsdóttur, formanni Göngum saman, og Töru og Marteini, börnum Kittýar.

Fjölskylda Kristbjargar Marteinsdóttur, Kittýar, sem var formaður fjáröflunarnefndar Göngum saman þegar hún lést árið 2009, aðeins tæplega 45 ára gömul, afhenti félaginu 2,5 milljónir í styrktarsjóðinn. Styrkurinn er afrakstur minningargöngu um Kristbjörgu 30. ágúst síðastliðinn og kvöldskemmtunar í Allanum á Siglufirði sama kvöld. Móðir Kittýar, Sigurlaug Haraldsdóttir, skipulagði gönguna en fjölmargir lögðu málefninu lið.

Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman,
frá Styrktarfélaginu Göngum saman.

 Myndir og texti: Aðsent.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is