Stuð að hætti Heldrimanna

Einn er vörubílstjóri, annar gamall togarajaxl og verkstjóri, sá þriðji fyrrverandi bóndi, sá fjórði endurskoðandi og sá fimmti tónlistarkennari og sjoppueigandi. Samanlagður aldur þeirra er 326 ár, meðalaldur 65,2 ár. Saman mynda þeir eina bílskúrsbandið á Siglufirði og eru nýbúnir að gefa út disk. Þetta eru Heldrimenn og þeir eru flottir.

„Upphafið að þessu öllu var það, að ég var í Lionsklúbbnum hér í bænum og þar tróðum við upp, ég og annar félagi, Júlíus Hraunberg, til að skemmta, sungum raddað, og það tókst svo vel að menn voru að biðja okkur um að syngja helst á hverjum fundi eftir það; þetta var veturinn 2006-2007,” segir forsprakkinn og aðaldriffjöðrin í hópnum, Sveinn Björnsson, að verða 77 ára, þegar blaðamaður spyr um tildrög að stofnun þessarar merkilegu og vinsælu hljómsveitar. „Við förum svo að æfa okkur saman, bara til að hafa gaman af því, hann var undirleikarinn, spilaði á gítar. Litlu síðar bættist okkur liðsauki í Vorboðakórinn, kór aldraðra, þegar Hjálmar Jónsson, fyrrverandi bóndi að Stóru-Brekku í Fljótum, gekk þar inn, og ég frétti að hann spilaði á harmonikku. Við Júlíus ákváðum að reyna að fá hann til liðs við okkur og það var auðsótt. Þannig varð Bátsmannstríóið til.”

Vorið 2009 gáfu þremenningarnir út geisladisk. Sá nefndist Hvað er lífið? og innihélt 14 lög og texta eftir ýmsa höfunda. Þar á meðal voru Þórður, Hún hring minn ber, Undir dalanna sól, og Siglufjarðardraumur.

Mottó Sveins er þetta, stutt og laggott: Ef menn ætla sér að gera hlutina, þá er það hægt.

Bætist í kompaníið

„Ég var formaður eldriborgarafélagsins og þegar voru skemmtanir var svo erfitt að fá hljóðfæraleikara, ég tala nú ekki um ef það átti að vera dansleikur, svo ég hugsa með mér, að ég stofni bara hljómsveit, bæti bara við tríóið,” heldur Sveinn áfram frásögninni. „Og ég talaði við Sigurjón Steinsson, vörubílstjóra og harmonikkuleikara, og fékk hann í gengið, og líka Ingimar Þorláksson, sem var 9 árum eldri en ég, og spurði hvort hann væri til í slaginn, því ég vissi að hann hefði spilað á trommur þegar hann var bakari í Ólafsfirði. „Ég get svosem prófað það,” sagði hann, „en sennilega er ég búin að gleyma öllu.” Og það gekk allt upp.

Og svo þegar ég er búinn að safna þessu saman og við erum orðnir þarna fimm, þá fer ég í sparisjóðsstjórann, Ólaf Jónsson, og spyr hann hvort hann geti ekki styrkt okkur og gefið okkur fyrir trommusetti. Það var eitt til notað hérna í bænum og kostaði 40 þúsund. „Ekki málið,” sagði hann. Og við kaupum trommusettið af strák hér í Siglufirði og byrjum á því að æfa uppi í Skálarhlíð, á dvalarheimili aldraðra, þar sem fundir eldriborgarafélagsins voru og eru haldnir, og hugsuðum okkur að fá að geyma hljóðfærin í geymslum þar, en það einhvern veginn gekk ekki upp; þetta tók of mikið pláss. Þá samdi ég við konu mína um að fá æfingaraðstöðu í bílskúr heimilisins, þar sem tríóið hafði æft. Sigurjón var helvíti flinkur á nikkuna og Ingimar á trommurnar, þannig að þetta hægt og rólega fór að verða hljómsveit. Kúnstin var þessi, að maður gaf sig ekki, heldur tók þessa gutta á sálfræðinni, eins og maður gerði til sjós áður fyrr, lokkaði fram það sem maður vissi að var innan í þeim.
Svo förum við að spila fyrir dansi uppi í Skálarhlíð og eftir það á Síldarævintýrinu, bæði tríóið sér og hljómsveitin, þetta fór svona eftir því um hvað var beðið. Jafnframt þessu æfðum við tvisvar í viku í tríóinu, á þriðjudögum og fimmtudögum, og svo var hljómsveitaræfing á laugardögum. Og við tókum Bátsmannstríódiskinn upp hérna í skúrnum.”

Mannaskipti

Svo gerist það að Ingimar veikist og treystir sér ekki lengur í þetta. Sæti hans tekur Þorsteinn Sveinsson, nú 46 ára, og jafnframt yngsti maðurinn í grúppunni. Og svo þegar Júlíus gítarleikari hættir gengur Ómar Hauksson, endurskoðandi og bassaleikari, til liðs við þá, en engan fundu þeir sem spilaði á gítar og var tilkippilegur.

„Þegar hér er komið sögu fórum við að spila meira opinberlega, reglulega á Síldarævintýrinu, í Ólafsfirði, í Lónkoti í Skagafirði, Ljósheimum innan við Sauðárkrók, Hótel Örk í Hveragerði og víðar,” segir Sveinn. „Um þetta leyti hugsa ég með mér að það væri gaman að koma Heldrimönnum á plötu, eins og við gerðum með tríóið, þó ekki væri nema fyrir vini og kunningja og til að eiga sem heimildir. Ég ræddi þetta við Magnús G. Ólafsson, skólastjóra Tónskóla Fjallabyggðar, og hann var mjög jákvæður og svo var bara að finna réttu stundina og við fengum hana sumarið 2011 og diskurinn var tekinn upp í hljóðverinu í tónskólanum á Siglufirði. Magnús var hljóðupptökumaður og sá um gítarundirleik og annar góður, Elías Þorvaldsson, fyrrverandi skólastjóri þar og einn af liðsmönnum hinna landsfrægu Gauta, var okkur til aðstoðar í salnum. Þetta var með öðrum orðum allt tekið upp í Fjallabyggð, frá a-ö.”

Tjútt, valsar og tangóar

Þegar Sveinn er spurður að því hvernig tónlist þetta sé, svarar hann: „Þegar við gáfum út tríódiskinn vorum við aðallega að syngja falleg lög, ballöður og jafnvel sálma, við vorum eiginlega að syngja bara fyrir sjálfa okkur og aðra sem nenntu að hlusta; þannig settum við það upp, að syngja falleg lög. En nú ætluðum við að gefa út danslög, það var alveg á hreinu. Þess vegna setti ég upp annað prógram, þá valdi ég lög sem fólk hafði gaman af að syngja og dansa um leið. Flest lögin eru valsar, því þegar fólk er orðið svona fullorðið þá er valsinn langbesti dansinn. Því við tókum eftir því þegar við vorum að spila hvort sem var hér eða fyrir utan Siglufjörð, að um leið og tekinn var einn ræll eða skottís, þá var ekki kjaftur á gólfinu, kannski einn karl, og hann lá þá úti í horni á eftir, þannig að við lögðum ekki í að slátra liðinu. Það er blóðþrýstingsaukandi og hjartsláttarkrefjandi að spila þannig lög. Þannig að á diskinn fóru fallegar melódíur, en við blönduðum reyndar aðeins saman tjútti og völsum og tangóum og leyfum einstaka fjöri að vera með líka. Þetta eru lög fyrir fólk sem lærði að dansa þegar maður fékk að halda utan um konuna.”

Geisladiskurinn, sem nefnist Boðið upp í dans, hefur nánar tiltekið að geyma mörg þekktustu lög fyrri ára sem og önnur aðeins nær í tíma. Þar á meðal eru Dansið þið, sveinar (öðru nafni Húrra, nú ætti að vera ball), Háskaför, Saumakonuvalsinn, Hlín Rósalín, Marina, Lóa á Brú, Síldarstúlkan, Hafið bláa, Vínarkrus (Laus og liðugur), Þú ert mitt sólskin og Lífið á Sigló. Í heildina 20, hvert öðru betra.

Sveinn segist kenna í brjósti um unga fólkið nú til dags sem dansi án þess að halda utan um hvort annað, því að það sé tjáningarform og þannig hafi orðið til kynni, oftar en ekki hjónabönd, hafi orðið til á dansgólfinu. „Mér finnst unga fólkið fara svo mikils á mis við að missa þetta. Þetta er nefnilega hluti af tilverunni, sko. En í dag gæti þetta kannski vel verið flokkað undir kynferðislega áretini, ef þú allt í einu færir að vanga stúlku sem ekki væri viðbúin, eins og var nú gert í gamla daga, því stundum varð maðurinn að eiga frumkvæðið, að þetta sem þótti bara sjálfsagt í gamla daga gæti verið talið áreitni nú á tímum. Og það kom fyrir, ef stúlkurnar, þessar elskur, voru í hvítum, flottum blússum, og menn höfðu ekki þvegið sér vel um hendurnar áður en þeir fóru á ballið, og komu beint úr slorinu eða netavinnu eða öðru og svitnuðu á höndunum, að lófafarið var aftan á bakinu á þeim eftir dansinn. Og margar blússurnar ónýtar á eftir. En hvað, þetta var bara svona.”

Einn disk í viðbót

Svein langar að gera einn disk í viðbót og koma honum út eftir 2-3 ár, „en fara að taka upp lag og lag fljótlega til að eiga, því við erum orðnir það fullorðnir, ég og Sigurjón, að við gætum dottið út af hvenær sem er, og náttúrulega veit enginn sína ævina fyrr en öll er, eins og þar segir, hvort sem menn eru fimmtugir eða áttræðir. Þetta er eina hljómsveitin í bænum, í þeim skilningi sem ég legg í orðið, við erum þeir einu hér á Siglufirði sem geta komið með 5 eða 6 manna band og troðið upp með litlum fyrirvara. Svo er ég svo heppinn að Steini trommuleikari er mjög góður söngvari og það hvílir mig, ég get þá raddað á móti honum og svo öfugt. Þannig að þetta lítur allt ljómandi út.
Maður átti ekki von á því að maður yrði söngvari og plötuútgefandi þegar maður hætti streðinu, en tónlistin er geysilegur kraftur, allra meina bót, maður finnur hvað er gaman að eiga við þetta. Maður er allur annar. Þetta er svipað og að fara í gufubað þegar maður er þreyttur. Það er bara verst að við skyldum ekki byrja á þessu miklu fyrr.”

Myndir: Sveinn Þorsteinsson | [email protected] og Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]