Strandmenningarhátíðin sett


Norræna strandmenningarhátíðin NORDISK KUSTKULTUR var formlega sett hér í bæ kl. 17.00 í dag og mun hún standa fram á sunnudag, 8. júlí. Á sama tíma fer Þjóðlagahátíðin fram.

Norræna strandmenningarhátíðin er sú sjöunda í röðinni og ber yfirskriftina Tónlist við haf og strönd. Hún hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 og hafa Norðurlöndin skipt með sér hlutverki gestgjafa. Húsavík reið á vaðið árið 2011 undir heitinu Sail Húsavík og síðan þá hefur hátíðin verið haldin í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, á Álandseyjum og í Færeyjum.

Það var Örlygur Kristfinnsson, fyrrum safnstjóri Síldarminjasafns Íslands, sem fyrir hönd safnsins óskaði í byrjun árs 2015 eftir stuðningi Fjallabyggðar til að hægt yrði að halda umrædda hátíð á Siglufirði árið 2018. Ástæðan var sú að þá blasti við að umrætt ár yrðu liðin 100 ár frá því að Siglufjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi og 200 ár síðan hann varð löggiltur verslunarstaður auk þess sem þjóðin myndi fagna aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á strandmenningu þjóðarinnar sem einum merkasta hornsteini í menningararfi hennar og sögu. Þetta er gert með því að gefa sérfræðingum og almenningi tækifæri á að hittast, læra, miðla og skapa tengsl. Markmiðið er einnig að styðja strandmenninguna í allri sinni fjölbreytni og kynna hana fyrir almenningi.

Á það er bent á heimasíðu Síldarminjasafns Íslands að það sem geri þessa strandmenningarhátíð svo sérstaka núna séu hin sterku norrænu tengsl við Siglufjörð, en fullyrða megi að Siglufjörður sé eini staðurinn á landinu þar sem allar norrænu þjóðirnar eigi sín spor og tengist sögulega. Hér hafi verið Norðmenn, Danir, Finnar, Svíar og Færeyingar við síldveiðar og tekið þátt í uppbyggingu staðarins og síldariðnaðarins.

Margt verður í boði. Eldsmiðir munu leika listir sínar, handverksfólk vinna með ull, roð og æðardún, riða net og fleira, bátar verða smíðaðir og sýndir og boðið upp á kvikmyndasýningar, tónlist, myndlist, leiklist og dans og börn munu geta sótt vinnusmiðjur.

Færeyingar eru mættir með grindabáta til að kynna þá fyrir hátíðargestum, Grænlendingar hafa sent tónlistarfólk og trommudansara og Norðmenn komu siglandi á fleyi yfir hafið með nokkra smærri báta innanborðs. Í samstarfi við Bohuslän Museum í Uddevalla í Svíþjóð hefur verið sett upp sögusýning á Síldarminjasafninu um síldveiðar Svía við Íslandsstrendur og sér í lagi við Siglufjörð. Þá er á dagskrá að bjóða hátíðargestum að bragða á ýmis konar síld á opnu hlaðborði. Danir miðla sögu freigátunnar Jylland sem færði Íslendingum stjórnarskrána og Álendingar segja frá viðhaldi og varðveislu Pommern. Þá munu síldarstúlkur salta síld á planinu við Róaldsbrakka og stranda þannig vörð um gömlu verkþekkinguna.

Dagskrá norrænu strandmenningarhátíðarinnar má nálgast hér.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is