Stórborg og heimsborg


Íbúar Siglufjarðar urðu flestir 3.100, skömmu fyrir miðja síðustu öld. En það voru mun fleiri í bænum á sumrin meðan síldarævintýrið stóð sem hæst, aðkomufólk sem var að vinna á síldarplönum og í verksmiðjunum og sjómenn sem komu í land þegar ekki viðraði til veiða – í svokölluðum landlegum. Erlendir sjómenn voru hluti þess hóps.

Ýmsar tölur hafa verið nefndar um heildarfjöldann. Stundum var talað um tvöföldun en hæsta talan sem finna má á prenti birtist í Einherja haustið 1940 þar sem nefnt var að verkefni lögregluþjónanna sjö á Siglufirði væru mjög mikil „enda ekki óeðlilegt því þar hafa meiri og minni aðsetur 12-14 þús. manns“. Hafa má í huga að Reykvíkingar voru þá 38 þúsund, Akureyringar rúmlega 5 þúsund og Hafnfirðingar tæplega 4 þúsund.

Það er ekki að undra að Siglufirði hafi verið líkt við stórborg eða heimsborg. Sumir töluðu um minnstu stórborg í heimi. Hér verða nefnd nokkur dæmi.

Stórborgin Siglufjörður

Nils Brohlin, blaðamaður frá Göteborgs-Tidningen, kom til Siglufjarðar sumarið 1932 með sænsku flutningaskipi til að sjá með eigin augum þennan höfuðstað síldarinnar. „Það var nótt þegar ég sá Siglufjörð í fyrsta sinn. Ég stóð á stjórnpalli Ilse. Ljósin í bænum tindruðu í kolsvörtu myrkrinu og spegluðust í lognsléttum firðinum. Þessi sjón var hvort tveggja í senn fögur og óvænt … Hvernig gat þetta verið Siglufjörður – svolítil síldarsöltunarstöð norður undir heimskautsbaug? Hérna uppi á ströndinni framundan okkur var allt á þá lund að það minnti á stórborg.“ Hann sagði að áhrifa Siglufjarðar gætti „víða um heim og eigi síst í mínu eigin föðurlandi, Svíþjóð“. En honum skildist að „Siglufjörður hafi ekki ennþá haft tíma til að þvo sér og hafa fataskipti“.

Gunnar Flóvenz, formaður Síldarútvegsnefndar, sagði í grein í Morgunblaðinu 1982 að Siglufjörður hefði verið „að sumrinu eins konar stórborg á íslenskan mælikvarða þar sem stundum hundruð eða jafnvel þúsundir manna af ýmsu þjóðerni spásseruðu um göturnar“.

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra var sextán ára þegar hann kom fyrst til Siglufjarðar til að vinna í síld og í minningunni var alltaf sólskin og sumarblíða. „Siglufjörður var alþýðleg stórborg, mannlífið iðandi kös eins og síldin í tunnunni,“ sagði hann í grein í Neista 1984.

„Síldarstemmningin er manni minnisstæð,“ sagði Guðmundur Guðmundsson skipstjóri og síðar framkvæmdastjóri á Ísafirði þegar hann rifjaði upp síldarárin á Siglufirði í viðtali 1993. „Bærinn minnti á stórborg og mikið um að vera.“

„Íbúafjöldinn margfaldaðist yfir hávertíðina og Siglufjörður breyttist í hálfgerða stórborg,“ sagði Theodór Júlíusson leikari í blaðaviðtali 1994, en þá var verið að undirbúa söltunarsýningu á þjóðhátíð á Þingvöllum.

„Siglufjörður varð stórborg á sumrin,“ sagði Indriði Pálsson forstjóri frá Siglufirði í viðtali 1996. „Við kynntumst fólki frá mörgum þjóðlöndum. Siglfirðingar voru opnir og fljótir að kynnast fólki.“

Heimsborgin Siglufjörður

Siglfirðingurinn Ólafur Haukur Árnason skólastjóri sagði í grein um séra Bjarna Þorsteinsson síðla árs 1980: „Við nutum öryggis í þessum smáheimi en höfðum þó nánari kynni af fjarlægum þjóðum en flestir aðrir landar okkar á þeim tíma. Siglufjörður var nefnilega til skiptis heimsborg og smáþorp meðan Norðurlandssíldin var og hét.“

Sterkar minningar

Því verður ekki neitað að þegar síldarævintýrið stóð sem hæst var lífið á Siglufirði ekki líkt neinu sem þá þekktist hér á landi. Þess vegna er ekkert undarlegt að mönnum hafi þótt ástæða til að bera bæinn saman við stórborgir eða heimsborgir. Athygli vekur að umræða á þessum nótum er að mestu leyti síðan eftir að síldarævintýrinu lauk, 1968.

Mynd: Siglufjörður um 1928, á póstkorti.
Texti: Jónas Ragnarsson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]