Stóraukin aðsókn að siglfirsku söfnunum


Á sama tíma og forystumenn safna á Akureyri og við innanverðan Eyjafjörð kvarta undan minni aðsókn en áður og kenna um slæmu veðri og háu bensínverði (sjá hér) hafa Siglfirðingar allt aðra sögu að segja.

Rósa Margrét Húnadóttir hjá Síldarminjasafninu segir að gestirnir í ár séu orðnir um 19.500, sem er metaðsókn, en eldra met var frá árinu 2004, þegar norski krónprinsinn vígði Bátahúsið. Það ár náði gestafjöldinn 14.000. Í fyrra voru gestirnir um 11.800. Í vetur er safnið opið eftir samkomulagi og opnað ?hvort sem er fyrir tvo eða tuttugu,? segir Rósa. Hún segir að margir hópar hafi komið það sem af er vetri en ráðgert er að hafa safnið opið á aðventunni, þegar farið verður að bjóða upp á jólahlaðborð á veitingastöðunum í bænum.

Aðsókn að Úra- og silfursmíðaverkstæðinu við Eyrargötu er svipuð og áður, en tölur liggja ekki fyrir.

Gunnsteinn Ólafsson hjá Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar segir að gestirnir í ár hafi verið um 3.000, eða helmingi fleiri en í fyrra.

Ljóðasetur Íslands var opnað í júlí. ?Gestir það sem af er ári eru um 1.200 en þeim á eftir að fjölga,? segir Þórarinn Hannesson forstöðumaður safnsins. ?Það verða ljóðakvöld í nóvember, von er á bekkjum úr grunnskólanum í heimsókn á næstunni og svo verður eitthvað opið um jólin.?

Aðsóknin að söfnunum er aðeins eitt dæmi um hin jákvæðu áhrif sem Héðinsfjarðargöngin hafa haft, enda er mun auðveldara en áður fyrir ferðamenn að leggja leið sína til Siglufjarðar og njóta þess sem þar er í boði.

Síldarminjasafn Íslands.

Úra- og silfursmíðaverkstæðið.

Þjóðlagasetrið.

Spjallað í Ljóðasetri Íslands.

Myndir: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.


image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is