Stóra upplestrarkeppnin


Stóra upplestrarkeppnin var haldin í húsnæði MTR í Ólafsfirði í gærkvöldi, frá kl. 18.00-19.00. Þar lásu nemendur 7. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar textabrot og fluttu ljóð. Foreldrum og öfum og ömmum hafði verið boðið að hlýða á og þau sem komu sáu ekki eftir því, enda upplesturinn og öll framkoma nemenda þeim og íslenskukennara þeirra, Guðrúnu Unnsteinsdóttur, til mikils sóma. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af hnignun móðurmálsins ef þessu er svona háttað annars staðar í grunnskólum landsins. Það er nokkuð ljóst.

Í dómnefnd sátu Hrönn Hafþórsdóttir, forstöðumaður Bóka- og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, íslenskukennari og aðstoðarskólameistari MTR og Þórarinn Hannesson, íslenskukennari og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands. Þau voru ekki öfundsverð af hlutskipti sínu því afar jafnt var með þessum flotta hópi. En svo fór að lokum að Embla Þóra Þorvaldsdóttir og Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir voru valdar til að halda áfram og taka þátt fyrir hönd Grunnskóla Fjallabyggðar á lokahátíð í héraði, nánar tiltekið í húsnæði Menntaskólans á Akureyri, fimmtudaginn 21. mars, og Margrét Sigurðardóttir var valin varamaður þeirra.

Á heimasíðu Stóru upplestrarkeppninnar segir:

„Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996-1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Upplestrarkeppnin er ekki „keppni“ í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af. Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Þátttaka í upplestrarkeppninni stendur öllum 7. bekkjum landsins til boða. Keppnin hefst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember,  ár hvert og lýkur í mars.“

Sjá líka hér.

Til hamingju, Grunnskóli Fjallabyggðar.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson │ sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is