„Stoltust er ég af börnunum”


„Gummi Skarp bauð mér far um daginn, þegar ég ætlaði í bankann. Hann stoppaði fyrir framan Kaupfélagið, og ég uppgötva þegar ég kem inn í bankann að mig vantar annan svarta fingravettlinginn minn. Ég sé út um gluggann að hann er á götunni, hafði dottið þegar ég fór út úr bílnum. „Gréta, vettlingurinn þinn er á götunni,” segir þá Erla, dóttir Ingimars Láka, við mig. „Já, það vill þetta enginn, ég er búin að stoppa í hann,” segi ég. Þá verður henni að orði: „Það veit nú enginn í dag hvað það er.”” Og Gréta er hjartanlega sammála.
Við sitjum inni í stofu á Laugarvegi 35 á Siglufirði, þar sem hin síunga kona hefur búið í 50 ár, þar af ein síðastliðin 12 ár, eftir að maður hennar dó. Hún er eldhress, bæði andlega og líkamlega, og erfitt að trúa því að hún sé 81 árs. En það er hún raunar, og kann frá ýmsu að segja af tímanum fyrir og um miðja 20. öld, þegar önnur hugsun þurfti að vera í gangi, sökum allsleysisins.
„Yngsti strákurinn minn er nú orðinn 36 ára og hann var orðinn a.m.k. 7 ára gamall þegar ég keypti efni í buxur á hann. Ég saumaði þetta allt upp úr gömlum pilsum af mér, það nægði síddin á hann svona lítinn, og buxum af strákunum. Það telst nú ekki til dyggða í dag að sauma upp úr gömlu, segi ég. En svona var þetta. Maður saumaði upp úr gömlu á börnin og ég get alveg sagt þér það að börnin mín litu ekkert verr út klæðalega séð en önnur börn þótt ég saumaði þetta upp úr gömlu, þetta gat litið vel út fyrir því. Svo man ég eftir því þegar útvíðu buxurnar voru að koma, þegar Jónas, yngsti sonur minn, er ekki nema tveggja ára gamall. Við höfðum keypt jólafötin á eldri strákana í JMJ á Akureyri og það voru brúnar smáköflóttar buxur og jakkarnir voru öðruvísi. Ég saumaði svo upp úr þessu útvíðar buxur á Jónas, ég vissi svo sem ekkert hvernig ég átti að fara að því, ég hafði ekkert til að fara eftir en ég byrjaði svona rétt neðan við hnéð að víkka út og þegar Maddý, yngsta dóttir mín, kom svo með hann í bæinn í nýjum útvíðum buxum alveg eins og nýr herramaður, þá ætluðu þær alveg að gleypa hann, stelpurnar, þeim fannst hann svo flottur. Svona getur maður gert og ég saumaði meira að segja kápur á stelpurnar meðan þær voru litlar.”

Ytra-Garðshorn í Svarfaðardal

Margrét Arnheiður er ættuð innan úr Svarfaðardal, fædd á Ytra-Garðshorni 10. febrúar árið 1923. Foreldrar hennar voru Árni Valdemarsson, sem alinn var upp í Dæli í Skíðadal, og kona hans Steinunn Jóhannesdóttir frá Hæringsstöðum í Svarfaðardal.
„Þetta er í miðsveitinni, eins og við kölluðum það,” segir Gréta. „Ytra-Garðshorn er þar og þar bjó systir hennar mömmu og maðurinn hennar og annaðhvort hafa þau verið þar í húsmennsku, eins og það var kallað, eða bara hún fæddi mig þar. Ég á eina systur sem er eldri en ég, Aðalheiði, annars erum við sjö systkinin og öll á lífi. Hún er fædd 1921 og núna komin á Dalbæ á Dalvík. Næst mér er Jónína, svo Valrós, mamma Árna Steinars, fyrrverandi þingmanns. Stefán býr í Reykjavík, Halla á Dalvík og Heiðar í Reykjavík; hann er yngstur. Ég man eftir okkur á Ytri-Másstöðum í Skíðadal, það var svona smákot. Svo fluttum við yfir að Hnjúki, sem er framar í Skíðadalnum og hinum megin við ána.”

Þegar Gréta var 12 ára var flust út til Dalvíkur og þar fermdist hún.

„Það var Stefán á Völlum sem fermdi mig. Hann var Kristinsson og prestur þarna frá 1901-1941. Ég man vel eftir deginum. Systir vinkonu minnar, sem dó í fyrra, hafði verið á Kristneshæli og var svona æðislega flink að greiða; hún var með gamalt krullujárn og hún greiddi okkur báðum. Við þurftum að fara snemma því hún var dálítið lengi að þessu. Við vorum svo fínar, ég man vel eftir því. En það var nú engin veisla, svo ég muni. Eitthvað fékk ég nú samt í fermingargjöf, en man ekki hvað. Villa frænka, föðursystir Bjarna geimfara, og Bjarki Elíasar, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, við vorum fermd saman. Ég veit um eina enn, Doddu, hún er orðin sjúklingur held ég. Hitt er allt farið, ég held við höfum verið 9-10. Svo fór maður í skólann á Dalvík, en svo ekki meira eftir að hann var búinn.”
Eftir það tók alvara lífsins við, eins og títt var hjá mörgu ungu fólki á þeim árum. Gréta var í sjávarplássi og því fátt annað í boði en störf því tengd.
„Nú fór maður að vinna, bæði að vaska saltfisk og vera á línunni, beita og stokka upp. Þá var ekki farið að beita úr haug, eins og er gert nú. Við beittum á tré, sem kallað var. Það voru 135 krókar á trénu á einum stokk, svo komu lóðirnar og það voru ekki nema 100 í þeim og ég fékk 20 aura fyrir að beita stokkinn og 25 aura fyrir að stokka upp.
En ég get ómögulega munað hvað við fengum á tunnuna, fyrst þegar við fórum að salta síld. Ég byrjaði að salta á Dalvík, um 17 ára gömul. Við vorum tvær saman með tunnu. Frænka mín, sem er árinu eldri en ég, var með mér og mér líkaði það ekki þegar hún var glápandi eitthvað út á sjó, þegar hún átti að vera að skera og ég var að leggja niður, svo ég skar miklu oftar og hún lagði niður. Ég var alltaf miklu fljótari að salta en leggja niður, þegar maður fór að salta fyrir alvöru einn. En ég var nú samt fljót með hitt, komst fljótt upp á lagið með það. Ég var líka metnaðarfull, vildi ekki vera seinust.”

Til Siglufjarðar

Nokkrum árum síðar kemur Gréta til Siglufjarðar, ræður sig á vetrarvertíð á bát, sem er að róa þaðan; hún var í landi að beita. Umræddur bátur hét Nói og var frá Dalvík. Þær voru tvær upp á einn hlut.
„Við gerðum allt sem karlarnir gerðu, nema að taka á móti bátnum, og við gátum náttúrlega gert það, og fórum ekki með balana fram. Mér fannst það nú alltaf svolítið ósanngjarnt. Við fórum tvisvar hingað, vorum í Hinriksbrakkanum í annað skiptið, bjuggum uppi á lofti, og svo var pláss fyrir beitinguna niðri. Ég var um tvítugt.
Svo vorum við aftur í Rotterdam, eins og þeir kölluðu það, rétt hjá þar sem Shell-bryggjan var þarna niður frá; þetta var lítið hús og við beittum í smáskúr á bakvið. Þarna kynntist ég Þórði. Þá var hann í Hrímni, vélstjóri, það var næsta hús við.”
Og hér er komin skýringin á viðurnefni Grétu; hún var sumsé og er alla jafna kennd við eiginmann sinn, Þórð Þórðarson, sem fæddur var á Siglunesi 14. desember 1921, sonur hjónanna Þórðar Þórðarsonar vitavarðar, Brandssonar húsmanns á Kálfsstöðum í Landeyjum, og Margrétar Jónsdóttur, Þorlákssonar bónda á Siglunesi.
Gréta settist að í þessum nyrsta kaupstað á Íslandi og hefur búið þar alla tíð síðan og er ekki á förum, segir hvergi betra að vera en á Siglufirði. Þau hjón eignuðust sjö börn, sem öll komust upp. Elst er Sigríður Anna, fædd 1946, næst Árdís, fædd 1948, þá Þórunn, fædd 1950, svo Árni Valdimar, fæddur 1954, síðan Þórður, fæddur 1955, næstyngst Margrét Steinunn, fædd 1959, og yngstur er Jónas, fæddur 1967.
„Ég var 23 þegar ég átti Siggu og þá fórum við að búa,” segir Gréta. „Fyrst þar sem er nú Túngata 26, í risinu, það var eldhús og eitt herbergi. Þarna áttum við heima þar til við fluttum suður á Laugarveginn, 12. apríl 1954, þannig að ég er búin að vera í þessu húsi í 50 ár. Við fluttum þegar Árni var á 1. ári. Við vorum einu sinni með kindur í kjallaranum og íslenskar hænur. Það var býsna algengt að fólk væri með kindur hjá sér á þessum árum.
Það var allt í lagi, við komumst ágætlega af; vorum ekki upp á aðra komin. Ég vann ekkert úti á þessum árum, þegar ég var að eiga krakkana skrapp stundum í síld á næturnar en fór annars ekki að vinna fyrr en þau voru orðin fullorðin. Þó þetta væri erfitt áttu þeir Hrímni, Jón og Þórður, bóndi minn, þar var saltað og fryst síld fyrir bátana sem lögðu upp frá þeim og þeir fóru með það heim á haustin. Þórður átti alltaf bíl, þar til síðustu árin. Dætur mínar sáu einhvern tímann föt sem þær vildu láta skrifa hjá mér, en ég sagði nei, það kemur að skuldadögunum. Við hvöttum þau öll til að læra og öllum gekk vel í skóla.
Nú, Sigga fór í MA, og í íslensku og grísku í háskólanum eftir það. Dísa fór suður, fyrst í Kennaraskólann, svo á Laugarvatn og er íþróttakennari og rekstrarhagfræðingur í dag. Hún var skíðadrottning í mörg ár. Þeir hafa nú aldrei kunnað að meta það Siglfirðingar. Mér er alveg ósárt um það að þeir skuli ekki eiga marga afreksmenn núna, þeir kunna aldrei að meta það. Tóta lauk fiskvinnsluskólanum á Dalvík og er gæðastjóri hjá Granda. Árni er skipstjóri á Baldvini Þorsteinssyni á Akureyri, Þórður yfirvélstjóri á Mánaberginu frá Ólafsfirði, Maddý býr í Danmörku og er þar kennari og Jónas er húsasmiður, kláraði Tækniháskólann um áramótin og er í framhaldsnámi í Danmörku. Barnabörnin mín eru átján talsins og barnabarnabörnin sjö.”

Þá og nú

Eins og kom fram hér í upphafi finnst Grétu dálítið stór munur á gamla tímanum og þeim nýja, og ekki allt hinum síðarnefnda í vil.
„Mér finnst það alveg skelfilegt í dag eins og með fjármál og allt það. Það sem krakkar eiga, dótið sem sonarsynir mínir eiga, báðir níu ára, þetta eru full herbergi af dóti. Ég er ekki að segja að þeir leiki sér aldrei að þessu, en svo verður þessu bara hent. Maður reyndi að gefa börnunum hluti ef þau langaði í eitthvað. En þetta er nú fullmikið. Það er allt látið eftir krökkunum nú til dags, þau þurfa ekki nema að rétta út höndina, þá fá þau það sem þau vilja.
Í dag er svo margt sem glepur sem var ekki þegar ég var að ala upp mín börn. Ég var rosalega ströng við þau, þegar ég var að ala þau upp. Það var hjallur þar sem húsið hans Sverris Jóns stendur, fiskihjallur sem þeir áttu, og börnin voru þar oft á kvöldin þegar gott var veður yfir sumartímann og ég kallaði alltaf í þau kl. níu og ég er að hugsa um það núna að þetta hefur verið mjög ósanngjarnt; það var enginn farinn að kalla á krakkana sína nema ég. En þau komu alltaf fyrir því. Ég sagði þeim að ef þau gegndu mér ekki fengju þau ekki að fara út næsta kvöld. Og þau komu inn. En þau hafa ekki haft neitt illt af því. Mér finnst alveg hræðilegt að sjá þessa krakka veltandi um dauðadrukkna fjórtán ára gamla og jafnvel yngri en það. En það er ekkert að marka mig, ég hef alltaf verið á móti áfengi, hef aldrei drukkið sjálf og aldrei reykt.”

Skyldi Gréta vita einhver ráð til að breyta ástandinu? Hvað væri best að gera?

„Ég veit það ekki,” svarar hún. „Ég er rosalega mikið á móti þessu uppeldi eins og það er í dag. Agaleysið er of mikið, unglingarnir gera bara það sem þeim dettur í hug og foreldrarnir skipta sér ekki af því. Svo eru kröfurnar í samfélaginu orðnar svo miklu meiri en var. Og sárast finnst mér þegar börnin eru kornung farin að drekka og náttúrlega reykja líka. Þetta drepur fólk í stórum stíl.”

Gaman að syngja

Gréta var einn af stofnendum Vorboðakórsins, sem er kór aldraðra á Siglufirði, en hann var stofnaður árið 1995. Áður söng hún í kirkjukórum, blönduðum kór hjá Sigursveini Kristinssyni og svo líka kvennakór.
„Ég skil ekki hvenær ég hafði tíma fyrir þetta allt, en ég hafði bara svo gaman af því að syngja. var örugglega 30-40 ár í kirkjukórnum. Ég var stofnandi gamla Kvennakórsins, ég hef aldrei farið í þennan nýja. Ég söng í kirkjukórnum heima og þau voru búin að gera mér boð hérna í kirkjunni en þá fannst mér ég ekki hafa tíma til þess að vera að fara þegar stelpurnar voru litlar. Þetta krefst náttúrulega dálítið mikillar vinnu. Fyrst fór ég í Slysavarnarfélagskórinn hjá Páli heitnum Erlendssyni organista, en upp úr því í kirkjukórinn. Við æfðum alltaf einu sinni í viku. Ég saknaði þess í mörg ár eftir að ég hætti í kórnum að fara á æfingar en ég fer nú oftast nær í messur þegar ég er heima. Ég syng bara fyrir mig. En ég hafði rosalega gaman af þessu og svo þurftum við að vera við allar jarðarfarir og allt. Við fórum nú stundum í ferðalög, einu sinni fórum við austur í Mývatnssveit og messuðum á Hólum á leiðinni heim. Ég söng hjá Kristjáni Róbertssyni, Ragnari Fjalari Lárussyni og Rögnvaldi Finnbogasyni, en ekki hjá Óskari J. Þorlákssyni, því hann var á undan þeim, kom 1935 og fór héðan 1951. Svo söng ég hjá Birgi Ásgeirssyni og Vigfúsi Þór Árnasyni, en ekki hjá Braga J. Ingibergssyni; þá var ég orðin svo gömul. Ég hætti áður en ég yrði rekin. Ég var sópran. Í fyrra gáfum við út annan disk með Vorboðakórnum. Mér finnst gaman að þessu. Bara félagsskapurinn og allt. Það var og er alltaf gaman að syngja, nema við jarðarfarir.”
Þess má geta, að sr. Kristján Róbertsson þjónaði tvisvar á Siglufirði, 1951-1954 og 1968-1971, sr. Ragnar Fjalar Lárusson á árunum 1955-1967, sr. Rögnvaldur Finnbogason 1971-1973, sr. Birgir Ásgeirsson 1973-1976, sr. Vigfús Þór Árnason 1976-1989 og sr. Bragi J. Ingibergsson 1989-2001.

Pólitíkin

Talið berst nú að stjórnmálum. Frumburður Grétu og Þórðar er Sigríður Anna, 6. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og verðandi umhverfisráðherra. Hvernig skyldi Grétu finnast pólitíkin í landinu núna?
„Æi, ég veit það ekki,” svarar hún, „mér finnst þetta svona og svona. Svo held ég að þetta sé einhver lenska hjá þeim að reyna að troða niður skóinn hver hjá öðrum. Ég hef aldrei getað þolað þegar menn tala illa um aðra og nafngreina mennina og allt það. En þeir mega alveg hafa skoðanir fyrir því. Ég sagði nú við Árna frænda, sem er í Vinstri grænum, að það færi alveg með hann Ögmund hvað hann væri alltaf reiður; það er alveg sama hvenær hann kemur í sjónvarp eða útvarp að tala, hann er alltaf reiður. Ég er svo sem ekki að segja að þeir hafi alltaf rétt yfir sér þessir forkólfar. Mér finnst þetta oft dónalegt hvernig látið er með mennina. Ég horfi nú aldrei á þá á daginn í sjónvarpinu, geri heldur eitthvað í höndunum.”

Hvernig heldurðu að dóttir þín spjari sig í haust og áfram?

„Hún segir að sér líki þetta vel. En ég hefði látið hana fara í menntamálaráðherrastarfið. Hún er búin að vera formaður menntamálanefndar í mörg ár og er búin að vera kennari; það er nefnilega dálítil reynsla í því. Ég held að hún hefði getað orðið góður menntamálaráðherra. En þá var nú Davíð búinn að viðurkenna mistök sín, þegar hann tók hann Tómas Inga. Hann gat ekki afturkallað það, gat ekki kannast við að hafa gert mistök. Ég er ekkert að vantreysta henni Þorgerði Katrínu, ég er ekki að segja það, alls ekki, en mér finnst þó að Sigga hefði átt betur heima þarna.
Þetta á að gerast í haust, já. Það var alltaf verið að tala um það við mig að hún myndi fá ráðherrastól. Ég sagði nú að ég yrði ekki skinnlaus í lófunum af því að verið væri að óska mér til hamingju með ráðherrastarfið handa henni. Enda finnst mér það svo sem ekki skipta öllu máli. Annars fer hún nú örugglega að hætta þessu, hún er búin að vera svo lengi að. Nei, ég segi svona. Það var smáviðtal við hana í Fréttablaðinu 2003, af því að hún á sama afmælisdag og Ólafur Ragnar, 14. maí.”
Gréta var í Slysavarnafélaginu, þar af meðstjórnandi um árabil, og einnig í Sjálfstæðiskvennafélaginu. Einhver önnur félög sem heilluðu?
„Nei, og ég var steinhætt að opna munninn, því þá var ég alltaf kosin í eitthvað. Ég held að Slysavarnarfélagið okkar sé nú dautt, ég heyri aldrei neitt um fundi eða neitt, en það var mikil starfsemi hjá okkur á árum áður, við vorum með fatabasar og kökubasar og alls konar peningasafnanir og það gekk ljómandi vel. Nú er bara ekkert, bara rukkað árgjald sem kemur inn um lúguna.”

Dugleg að hreyfa sig

Þeir sem eru á ferð innst í Siglufirði, við Leirutjörnina eða þar fyrir ofan, hafa eflaust einhvern tíma rekist þar á Grétu, því hún fer út að ganga hvern einasta dag á þeim slóðum, allan ársins hring, nema veður og færð hamli. Og er alltaf ein. Þetta eru nokkrir kílómetrar. Þó er hún með gervilið í mjöðm. En það aftrar henni ekki, og mættu ýmsir taka hana sér þar til fyrirmyndar. Hún kveðst vera farin að gæla við þá hugmynd að útvega sér farsíma svo hún geti látið vita af sér ef eitthvað kæmi upp á, sérstaklega á veturna.
En Gréta hefur farið lengra og víðar en þennan hring í firðinum, m.a. til Flórída og Kanaríeyja, með eiginmanni sínum, Þórði, og mörgum árum seinna í bændaferð, þá orðin ekkja, en Þórður dó 22. nóvember 1992, í kjölfar hjartaaðgerðar.
„Við flugum til Lúxemborgar, gistum í Svartaskógi, svo Austurríki og Feneyjum. Fórum síðan upp að Arnarhreiðri í Þýskalandi, aðsetri eða virki Hitlers um tíma. Sérþjálfaðir bílstjórar tóku við og keyrðu upp hlíðina og svo var farið í lyftu síðustu metrana. Vinkona mín á Snæfellsnesi bauð mér með sér í bændaferðina, hún var líka búin að missa sinn mann. Þetta var mjög góð ferð, einhver skemmtilegasta sem ég hef farið í, en samt leiðinlegt að vera alltaf að skipta um hótel, þurfa alltaf að draga þessar töskur með sér. Maður er alltaf með of mikinn farangur. Svo er ég búin að fara til Halifax með eldri borgurum. Kórinn sjálfur hefur þó ekkert farið utan; en við fórum á kóramót á Húsavík í hitteðfyrra. Þar voru Skagfirðingar, Húsvíkingar, Dalvíkingar, Akureyringar og við. Mér leist ekkert á þegar Akureyringar byrjuðu, ég held þeir hafi verið allt að fimmtíu, en við ekki nema fjórtán eða sextán. En við fengum langmesta klappið því við vorum með skemmtilegustu lögin. Það er það sem gildir. Ég hef ekkert á móti gömlu þjóðlögunum okkar, en þau eru bara miklu þyngri. Það verður að vera eitthvað sem lyftir fólki upp. Það er nógu mikið af drunganum fyrir því. Svo héldum við kóramótið þetta árið hér á Siglufirði. Það var mjög gaman.”

Er vel búið að öldruðum á Íslandi?

„Ekki nóg peningalega séð. Ég er nú ansi hrædd um að einhver ræki upp óp ef hann ætti að lifa af 70.000 kr. á mánuði. Hinir öldruðu eru bestu borgararnir, með mesta reynslu og vita alveg hvað þeir eru að gera.”
Gréta kveðst ekki lesa mikið, heldur vera meira fyrir handavinnu. „Á sumrin fer ég síðan mikið út úr bænum, t.d. á Dalvík. Ég seldi nú bílinn okkar svo ég kemst minna. Ég seldi hann þegar Þórður dó.”

Hér er ævistarf mitt

Töluverð breyting hefur orðið á Siglufirði frá því sem var um miðja síðustu öld, þegar allt iðaði af lífi í bænum vegna síldarsöltunar. Rúmlega 3.000 manns höfðu þar fasta búsetu þegar mest var og sú tala margfaldaðist á sumrin, yfir háannatímann. Hvernig upplifir Gréta þetta?
„Maður vissi ekki mikið af þessum mannfjölda,” svarar hún. „Ég var ekki komin þegar Norðmennirnir voru mest hér. Mér finnst bara hræðilegt hvað það er orðið fátt á staðnum, nú er þetta bara um 1.500. Mér finnst það rosalegt. Hér standa fínustu hús auð í stórum stíl. Það er alveg grátlegt. Þeir seldu íbúðirnar í félagslega kerfinu á 5 milljónir og það fór algjörlega með markaðinn; þetta voru fjögurra herbergja íbúðir. Bara til að losna við þær. Ég veit ekki hvað ég myndi fá fyrir húsið mitt, það er enginn stórpeningur. Þetta er of stórt fyrir mig, en ég gef þetta ekki. Þetta er ævistarf mitt og ég flyt ekki suður meðan ég hef góða heilsu. Mér líður illa í Reykjavík, þótt ég eigi börnin mín þar, hraðinn og allt þetta alveg skelfilegt.”

En hefur Siglufjörður þá einhverja möguleika í framtíðinni?

„Já, ég held það, ef Héðinsfjarðargöngin koma. En ég er samt og hef alltaf verið efins um að þau komi nokkurn tímann, þótt þeir segi annað. Sverrir Sveins þakkar sér þessa tillögu um göngin, en hann Þórður minn átti nú hugmyndina og ég er vitni að því að hérna inni í stofunni minni var hann að tala um að gera ætti göng úr Skútudal í Héðinsfjörð og yfir í Ólafsfjörð. Þótt Sverrir hafi komið þessu inn á þing þarf hann ekki að þakka sér það, hann átti ekki þessa uppástungu,” segir Gréta.

Sátt við lífið

En er hún sátt þegar litið er til baka, horft yfir farinn veg?

„Já, ég get ekki annað. Það sem hefur hjálpað mér í gegnum lífið er mitt skap og mín létta lund. Það þýðir ekkert að leggjast í dvala og grenja ofan í klofið á sér ef eitthvað er að. Það skánar ekkert við það. Ég er búin að komast að því í gegnum tíðina að það er um að gera að vera nógu léttlyndur. Það er það sem ræður öllu. Ég þarf ekkert að vera að neinu kvarti. Meðan ég get hugsað um mig er allt í lagi. Svo koma börnin annað slagið í heimsókn. Ættaróðalið er á Siglunesi, Þórður var þaðan og krakkarnir mínir og krakkar Siggu eiga húsið, og þar er allt, m.a.s. heitt vatn. Þau verða alveg ómöguleg ef þau komast ekki út á nes. Þórður er búinn að planta trjám þarna og þau virðast lifa.
Stoltust er ég af börnunum mínum, hvað þau hafa náð langt á eigin verðleikum, þótt ég hafi áður fyrr, meðan þau voru að alast upp hér fyrir norðan, haldið þeim saman á frekjunni,” segir Gréta Þórðar að lokum og fer að búa sig í gönguferðina.

[Fyrst birt í Morgunblaðinu, 18. júlí 2004, bls. 16-17.]

Mynd af Grétu 2004 og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is
Aðrar myndir eru úr fjölskyldualbúmi hennar.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is