Stjörnuskoðun í Héðinsfirði


Siglfirðingi.is var að berast tölvubréf frá Þorsteini
Jóhannessyni verkfræðingi, sem ritað var eftir að fréttin ?Aðeins
náttúruparadís að sumri til? fór í loftið í dag. Gaf hann jafnframt leyfi
fyrir birtingu þess hér á vefnum.

Það er svofellt.

15-12-10

Sæll, Sigurður.

Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir
mjög góða grein um stjörnuskoðun og ljósmengun, og hvernig það mál
tengist Héðinsfirði. Allt sem þú segir um upplifun af stjörnuhimninum,
og hvernig lýsingarárátta okkar mannanna dregur úr möguleikum á að njóta
fegurðar himinsins, eru eins og orð af mínum munni. Við sem höfum
upplifað nætur í Héðinsfirði við albjartan himin, áttum okkur á því hvað
flestir Íslendingar, sem eru baðaðir ljósi fara á mis við.

Umræðan um hvort setja eigi lýsingu
milli gangamunnanna í Héðinsfirði er ekki ný. Fyrir um tveim árum spurði
Vegagerðin okkur landeigendur álits á hvort setja ætti upp lýsingu. Eftir talsverðar umræður meðal landeigenda varð sú skoðun almennt ofan á
að ekki ætti að lýsa vegkaflann. Það álit hefur komið fram, og nú
síðast hjá lögreglumönnum á Tröllaskaga, að það muni auka umferðaröryggi
að lýsa veginn, og er sérstaklega bent á að skafrenningur getur verið á
vegkaflanum.

Það eru til rannsóknir á áhrifum
lýsingar á umferðaröryggi á vegum utan þéttbýlis, og hefur komið í ljós í
þessum rannsóknum að lýsing eykur ekki martækt umferðaröryggi. Niðurstaða rannsóknanna kemur nokkuð á óvart, en skýrist af því að
slysahættan vegna ákeyrslu á ljósastaurana vegur upp jákvæð áhrif af
lýsingunni. Skafrenningur í Héðinsfirði er ekki meiri en víða á vegum,
og lýsing frá ljósastaurum bætir litlu við útsýni ökumanna. Það sem
skiptir mestu máli er að ökumaður nái að sjá glitauga á stikum beggja
vegna vegarins. Endurkastið frá bílljósunum skiptir þá mestu máli auk
fjarlægðar milli stikanna.

Afstaða landeigenda byggðist á þessum atriðum:

  • Lýsing eykur ekki umferðaröryggi.
  • Ljósastaurar á veginum milli gangamunnanna valda sjónmengun.
  • Með lýsingu hverfur möguleiki til að njóta stjörnuskoðunar.
Mér lýst vel á hugmyndina um að
tryggja góð bílastæði fyrir stjörnuskoðendur, hvort sem það er gert með
auknum snjómokstri eða t.d. breytingu á útsýnisstað.

Stjörnufræði er heillandi
vísindagrein, og stöðugt eru vísindamenn að öðlast betri þekkingu á
undrum alheimsins. Almennur stjörnuskoðandi þarf ekki að hafa þekkingu á
fræðigreininni, en það eykur ánægjuna að þekkja einstakar stjörnur og
stjörnumerki. Á vefnum er hægt að nálgast stjörnukort og mikinn fróðleik
um fyrirbrigði, sem einungis sjást í sterkum sjónaukum. Skoðun
himinsins með berum augum eða litlum sjónaukum er hins vegar
náttúruupplifun fyrir alla. Fyrir þá sem vilja fara í Héðinsfjörð til að
skoða stjörnurnar er bent á að gott er að hafa með sér stjörnukort
fyrir desember 2010, en það er hægt að nálgast á netinu á slóðinni:
http://www.stjornuskodun.is/media/stjornuskodun-2010/Stjornuskodun-desember-2010.pdf.

                           

Með bestu kveðju,

Þorsteinn Jóhannesson

Siglfirðingur.is þakkar kærlega fyrir sendinguna, með þessum áhugaverðu upplýsingum og pælingum.

Stjörnuhiminninn er fallegur á að líta.

Inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Mynd: Fengin af Netinu.

Megintexti: Þorsteinn Jóhannesson | thorjoh@centrum.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is