Stígvélaði klerkurinn


Á fjórða tímanum í dag voru Örlygur Kristfinnson og Guðný Róbertsdóttir gefin saman í hjónaband. Mikil leynd hvíldi yfir þessari athöfn og vissu ekki nema örfá hvað til stóð.

Höfðu þau Örlygur og Guðný boðið fjölskyldu og nánustu vinum til garðveislu fyrir handan í tilefni norðlenska blíðviðrisins og var prestur beðinn um að mæta í vaðstígvélum, líkt og hjónaefnin, og að auki með fuglabók í hönd og mjög svo óformlega klæddur, til að enn síður vöknuðu grunsemdir, og þannig marseraði þrenningin yfir að fuglaskoðunarhúsinu og þar inn, hvar ráðahagurinn var svo innsiglaður með tilheyrandi regluverki og seremóníum.

Verður þessi gjörningur seint toppaður.

Að því loknu var gengið yfir til fólksins og þar tilkynnti klerkur formlega hin góðu tíðindi.

Siglfirðingur.is óskar hinum nývígðu innilega til hamingju með daginn.

Að athöfn lokinni.

Hin nývígðu og gestir þeirra í miðri veislunni.

Örlygur og Guðný með svaramönnunum, hjónunum Jóhönnu Eiríksdóttur og Páli Helgasyni.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is