Steinunn María Sveinsdóttir: Aðventuhugleiðing


Aðventuhátíð í Siglufjarðarkirkju í gær var fjölsótt eins og jafnan áður; þar voru a.m.k. 200 manns. Á dagskánni var talað orð í bland við mikinn söng, þar sem m.a. mátti líta og heyra kvennakvartett, Karlakórinn í Fjallabyggð og Kirkjukór Siglufjarðar. Aðventuhugleiðingu að þessu sinni flutti Steinunn María Sveinsdóttir, sagnfræðingur, fædd árið 1985, en hún er fagstjóri Síldarminjasafns Íslands. Er ræðan birt hér með góðfúslegu leyfi hennar.

Hún sagði:

Aðventan er gengin í garð, kveikt hefur verið á öðru aðventukertinu, Betlehemskertinu, og undirbúningur fyrir jólin er að fullu hafinn. Tilhlökkunin í augum barnanna leynir sér ekki eftir því að stóra stundin renni upp; á hverjum degi er einn gluggi opnaður á jóladagatalinu og beðið er í ofvæni eftir því að fá að opna glugga nr. 24. Tilhlökkunin breytist þó óneitanlega eftir því sem maður eldist og áherslurnar verða aðrar. Í minningunni fannst mér pabbi og Bjössi bróðir vera heila eilífð að vaska upp eftir jólamatinn og satt best að segja var ég ekki helsti aðdáandi kirkjukórsins sem barn en Bjössi söng í kórnum og því var ekki hægt að byrja að borða fyrr en klukkan sjö á aðfangadag. Ég stóð því við stofugluggann á Hvanneyrarbrautinni og fylgdist með því hvenær messunni lyki og lét síðan pabba vita að honum væri óhætt að setja matinn á borðið – messan væri loksins búin. Í dag brosi ég að þessum minningum og nýt aðventunnar, nýt þess að borða góðan mat og nýt samvistanna með fjölskyldunni. Pakkarnir verða að hálfgerðu aukaatriði en þeir eru samt sem áður órjúfanlegur hluti af jólunum. Það er svo sannarlega sælla að gefa en þiggja.

Við njótum þess að gera vel við okkur á þessum árstíma og brjótum upp hversdagsleikann líkt og kristnir menn hafa gert í gegnum aldirnar. Í ævisögu Sæmundar Sæmundssonar skipstjóra, sem ber heitið Virkir dagar og er skrifuð af Guðmundi G. Hagalín, lýsir Sæmundur, sem fæddist árið 1869, fyrstu jólunum sínum að Látrum á Látraströnd en þangað var hann sendur 9 ára gamall til þess að vinna sem smali. Faðir hans lést þegar Sæmundur var aðeins 3 ára gamall og mikil fátækt var á heimili hans. Sæmundur lýsir undirbúningi jólanna og jólahaldinu á eftirfarandi hátt:

„Róðrum var hætt hálfum mánuði fyrir jól. Var þá farið í kaupstað að sækja ýmislegt til hátíðanna. […] Fjórum fimm dögum fyrir jól hættu stúlkurnar tóvinnu, og nú byrjaði margs konar umstang. Herbergin í báðum endum baðstofunnar voru þvegin hátt og lágt og strokið af rykið í miðbaðstofunni. […] Á Þorláksmessu var soðið hangikjöt og magálar, bringur, síður og sperðlar. […] Klukkan sex á aðfangadagskvöld byrjaði helgihaldið. Þá var fólkið komið í sínar beztu flíkur og bærinn alljósaður. Var nú borið á borð inni í herbergi hjónanna, og mötuðust þar allir við sama borðið í eina skiptið á árinu – nema bóndi. Hann sat í rúmi sínu með diskinn á hnjánum. Þetta kvöld voru notuð hnífapör, og var ekki meira en svo, að allir kynnu að fara með þess háttar nýmóðins tæki. […] Þegar búið var að borða, var lesturinn lesinn. Var sérstaklega lagt að fólkinu að syngja þetta kvöld, og sungu ungir og gamlir, bæði þeir, sem það gátu, og eins hinir, sem voru ólagvísir og höfðu litla söngröddina. Eftir lesturinn var fólkinu gefið sætt kaffi með lummum, jólabrauði og kleinum. Var brennivín látið út í kaffið, og var hert að kvenfólki og krökkum að vera með, því bindindi fyrir unga eða gamla heyrðist ekki nefnt. Þegar svo kaffidrykkjunni var lokið, var borið inn rommpúns, og var það drukkið úr stórum glösum. Einnig var hverjum karlmanni gefinn vindill. Annars sáust vindlar ekki á heimilinu en sumir karlmennirnir reyktu pípu. […] Margir kveiktu nú á kertunum, settu þau í ljósastjaka, sem hver maður átti, og létu þau standa við rúm sín. Fannst öllum, að það þyrfti að að vera sérlega bjart í bænum þetta kvöld.“ (Guðmundur G. Hagalín, 1958, 53-55).

Við getum brosað yfir þessum lýsingum og hneykslast jafnvel á sumu sem þarna kemur fram en þó svo að matarhefðirnar og aðrar hefðir hafi breyst og aðlagast breyttum aðstæðum í gegnum tíðina þá getum við samsamað okkur mörgu því sem lýst er í bókinni. Jólaþrifin, góður matur og góðar kökur, og ekki síst ljósin sem eru okkur svo mikilvæg á þessum árstíma sem og samveran á jólunum – allt hljómar þetta kunnuglega. Hefðir skipa óneitanlega stóran sess við jólahaldið. Jólabaksturinn, jólatónleikar, tendrun ljósanna á jólatrénu á torginu, aftansöngurinn á aðfangadagskvöld og svo mætti lengi áfram telja. Oft heyrum við sagt og segjum sjálf: „að jólin komi ekki nema…“ og svo eru ákveðnir þættir taldir upp. Margar hefðir tengjum við jafnframt ákveðnum manneskjum í okkar lífi enda eru jólin tíminn þar sem að fjölskyldan á yfirleitt góðar stundir saman og ófá fjölskylduboðin eru haldin.

Aðventa og jól í skugga ástvinamissis eða annarra erfiðra aðstæðna geta verið afskaplega erfið en mörgum sem þær upplifa reynist ekki síst erfitt að finna tilfinningum sínum rými í allri tilhlökkuninni sem ríkir í samfélaginu. Sú sem hér stendur hefur því miður upplifað þetta sjálf en eldri dóttir mín lést fyrir rúmum fjórum árum. Fyrstu jólin eftir andlát hennar voru mér afar þungbær. Í fyrsta skipti á ævinni hlakkaði ég ekki til jólanna og sú tilfinning var mér bæði framandi og sársaukafull. Öll jólalögin sem ómuðu í útvarpinu, og þá sérstaklega lagið „Ég hlakka svo til“ sem Svala Björgvinsdóttir syngur, fóru mikið í taugarnar á mér og allar bleiku leikfangaauglýsingarnar reyndust mér nánast um megn. Í stað þess að njóta jólanna með henni fór ég að leiði hennar, kveikti þar á kerti og óskaði henni gleðilegra jóla í huganum. Tíminn læknar engin sár en hægt er læra að lifa með slíkum missi. Minn helsti lærdómur var sá að ég þurfti að gefa sorginni rými við hliðina á gleðinni og eftirvæntingunni og nýjar ljúfsárar hefðir sköpuðust. Í dag hlakka ég til jólanna – hvort það er jafnmikið og Svala Björgvins hlakkar til jólanna skal ósagt látið – en það er mér afar dýrmætt að hafa náð á þann stað aftur. Eftirvæntingunni og gleðinni má ekki taka sem sjálfsögðum hlut og það er okkur sem samfélagi mikilvægt að gera okkur grein fyrir því að á þessum tíma árs eiga margir um sárt að binda af ýmsum ástæðum. Tökum tillit til þess, sýnum því skilning og reynum að rétta fram hjálparhönd eins og okkur frekast er unnt.

Það er ekki skylda að hlakka til jólanna en þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð er ekki síst mikilvægt að finna friðinn innra með sjálfum sér og halda upp á jólin á sínum eigin forsendum.

Það er einlæg von mín að þið njótið aðventunnar og jólanna og ég óska ykkur að endingu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

[Heimild: Guðmundur G. Hagalín. (1958). Virkir dagar: Saga Sæmundar Sæmundssonar skipstjóra, skráð eftir sögn hans sjálfs. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri.]

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Steinunn María Sveinsdóttir / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is