Steingrímur 85 ára í dag


Steingrímur okkar Kristinsson, ljósmyndari nr. 1, 2 og 3 í Fjallabyggð, er 85 ára í dag. Aldurinn ber hann vel, lætur hvergi á sjá, er kvikur sem unglamb og ern og sístarfandi.

Í Morgunblaðinu í dag er afmælisins minnst og þar segir um kappann:

„Steingrímur Kristinsson fæddist á Siglufirði 21.2. 1934 og ólst þar upp. Siglufjörður var á þeim tíma iðandi af mannlífi og síld og síldveiðar í aðalhlutverki auk þess sem viðvera breskra hermanna á uppvaxtarárunum kryddaði daglegt líf. Þessi tími var viðburðaríkur og bresku hermennirnir settu mikinn svip á daglegt líf heimamanna á þessum tíma.

Að loknu hefðbundnu grunnskólanámi tóku við ýmis verkamannastörf, aðallega tengd síldinni og sjómennsku. Steingrímur starfaði einnig lengi við smíðar hjá trésmíðaverkstæði og vélaverkstæði Síldarverksmiðja ríkisins en umsvif verksmiðjanna voru mikil, ekki bara á Siglufirði heldur einnig á Raufarhöfn, Reyðarfirði og Seyðisfirði og voru starfsmenn verkstæðisins sendir mikið til starfa austur. Þá var Steingrímur timburmaður á Haferninum, síldarflutningaskipi sem gert var út frá Siglufirði í um fjögur ár. Einnig starfaði hann frá 14 ára aldri sem afleysingamaður við kvikmyndasýningar í Nýja bíói á Siglufirði og starfaði við það á 50 ára tímabili, frá árinu 1980 sem sýningarstjóri.

Steingrímur hefur alla tíð verið afkastamikill ljósmyndari en fyrstu alvöru myndavélina eignaðist hann 1959. Hann tók gríðarlegan fjölda ljósmynda í tengslum við atvinnu- og mannlífið á Siglufirði í áratugi frá 1959. Einnig myndaði hann sem starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins mikið um borð í síldarflutningaskipinu Haferninum og einnig á Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Áhugamál Steingríms í dag er að taka ljósmyndir af fuglum. Mikið filmusafn hans og ljósmyndir eru nú varðveitt á Ljósmyndasafni Síldarminjasafnsins: http://myndasafn.siglo.is/. Myndir frá síldarárunum má sjá t.d. í flokkunum atvinnulífið og sjávarútvegur. Á Síldarminjasafninu eru til sýnis möppur með myndum hans. Steingrímur var einnig í um 13 ár fréttaritari og blaðaljósmyndari Morgunblaðsins og birtust á síðum þess blaðs fjölmargar fréttir og ljósmyndir frá honum.

Steingrímur var lengi ritstjóri Siglfirðings, málgagns sjálfstæðismanna á Siglufirði, en hann var lengi virkur í starfi flokksins á Siglufirði. Þá var Steingrímur einnig virkur í ýmsum félögum og félagasamtökum, s.s. verkalýðsfélaginu Þrótti og Vöku, Kiwanis og Lions, Björgunarsveitinni Strákum o.fl. Á árunum 1974 til 1980 rak Steingrímur ásamt fleirum kranabílaþjónustu og steypufyrirtæki á Siglufirði. Á árinu 1982 keypti hann ásamt fjölskyldunni Nýja bíó á Siglufirði og rak hann fyrirtækið til ársins 1991 en fyrirtækið var áfram í eigu fjölskyldumeðlima allt til ársins 1999. Frá árinu 1991 til starfsloka starfaði Steingrímur á lager SR á Siglufirði, fyrst sem aðstoðarmaður og síðustu árin sem lagerinn starfaði var hann lagerstjóri en á þessum tíma og fram á þennan dag hefur Steingrímur haldið úti mörgum heimasíðum þar sem er að finna fréttir og fróðleik um Siglufjörð á ýmsum tímum og sennilega er þekktasta síðan fréttavefurinn Lífið á Sigló í dag: www.sk21.is og www.sk2102.com.

Fjölskylda

Eiginkona Steingríms var Guðný Friðriksdóttir, f. 6. júní 1932, d. 26. september 2015, verkakona. Þau gengu í hjónaband 6. júní 1954 og voru því gift í 61 ár. Foreldrar Guðnýjar voru Friðrik Ingvar Stefánsson, f. 13. september 1897, d. 16. nóvember 1976, verkamaður á Siglufirði, og Margrét Marsibil Eggertsdóttir, f. 23. apríl 1903, d. 9. júlí 1985, húsmóðir á Siglufirði. Þau voru í sambúð.

Börn: 1) Valbjörn, f. 13. desember 1953, fjármálastjóri og er búsettur í Kópavogi, maki: Álfhildur Ragna Halldórsdóttir, f. 13. apríl 1959, starfar við aðhlynningu. Börn þeirra eru Lárey, Valbjörn Ingvar og Hermann Valdi. Barnabörn þeirra eru níu; 2) Margrét, f. 11. febrúar 1955, stuðningsfulltrúi, búsett á Akureyri. Börn hennar eru Steingrímur Örn, Steindór, Guðný Ósk og Konráð. Barnabörnin eru átta og hún á eitt barnabarnabarn; 3) Kristinn, f. 5. september 1960, vélaverkfræðingur, búsettur í Reykjavík, maki: Elínborg Ágústsdóttir, f. 28. desember 1963, leiðbeinandi. Börn þeirra eru: Ágúst Már, Silja Sif og Arnór. Barnabörnin eru tvö.

Systur Steingríms eru Jóhanna, 10. apríl 1937, búsett í Kópavogi og Hulda Guðbjörg, f. 8. janúar 1945, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Steingríms voru hjónin Kristinn Guðmundsson, f. 24. desember 1914, d. 5. október 1980, sýningarmaður og útvarpsvirki á Siglufirði, og Valborg Steingrímsdóttir, f. 1. febrúar 1914, d. 10. nóvember 1973, verkakona á Siglufirði.“

Af hverju er ekki fyrir löngu búið að gera þennan mann að heiðursborgara Siglufjarðar fyrir ómetanlegan skerf hans til menningarsögu bæjarins og landsins? Eða veita honum fálkaorðina?

Siglfirðingur.is leggur til að hvort tveggja verði gert fyrr en síðar og óskar honum innilega til hamingju með daginn.

Mynd (úr safni): Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Morgunblaðið / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]