Stefán Bjarnason 100 ára


Stefán Bjarnason á Akranesi er hundrað ára í dag, fæddur á Sauðárkróki 18. janúar 1917. Kona hans var Vilborg Sigursteinsdóttir en hún dó fyrir níu árum. Börn þeirra eru þrjú.

Stefán ólst upp á Siglufirði og var sumarstarfsmaður í lögreglunni þar 1937-1940 og lögreglumaður á Akranesi frá 1941, þegar hann var 24 ára, og yfirlögregluþjónn frá 1958. Á yngri árum stundaði hann fimleika og kenndi þá um skeið, bæði á Siglufirði og Akranesi. Í rúman áratug var hann formaður karlakórsins Svana á Akranesi. Síðustu ár hefur Stefán verið á dvalarheimilinu Höfða. Ekki er vitað um lögreglumann sem hefur náð hærri aldri.

Skessuhorn segir frá afmælinu í dag (leikfimikennarinn sem þar er nefndur er örugglega Bergur Guðmundsson frá Þrasastöðum í Stíflu, síðar tollvörður). Fyrir þremur árum var langt viðtal í blaðinu við Stefán. Þá tók Bjarki Sveinbjörnsson hjá Ísmús langt myndbandsviðtal við Stefán fyrir nokkrum árum. Framarlega á því myndbandi segir Stefán meðal annars frá séra Bjarna Þorsteinssyni, starfi karlakórsins Vísis og lífinu í síldinni á Siglufirði um 1940.

Mynd: Úr Skessuhorni.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is