Spánarsnigill finnst á Siglufirði


Spánarsnigill fannst á laugardaginn var, 26. þessa mánaðar, á Siglufirði. Íbúar við Hverfisgötu 5a urðu hans varir handan götunnar þar, mynduðu hann og fönguðu síðan.

Spánarsnigillinn telst vera ágeng framandi tegund á Íslandi og gæti valdið miklum skaða í ræktun, líkt og gerst hefur í mörgum löndum Evrópu, ef hann nær fótfestu hér. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar er almenningur því hvattur til að fylgjast vel með í garðinum hjá sér og uppræta snigilinn um leið og hans verður vart en til þess má beita ýmsum aðferðum. Mikilvægt er að tilkynna fundinn til Náttúrufræðistofnunar Íslands með upplýsingum um fundarstað, aðstæður þar og dagsetningu ásamt ljósmyndum.

Spánarsnigillinn er auðþekktur af stærð sinni og rauðbrúnum lit, en hann getur orðið allt að 15 cm að lengd. Hann er mikið átvagl, étur flest sem hann kemst í, s.s. plöntur, plöntuleifar, ýmsan lífrænan úrgang, t.d. hundaskít, og líka dauða og lifandi snigla. Efst á óskalistanum eru þó lyktsterkar plöntur.

Spánarsnigillinn er upprunninn á Íberíuskaga og barst þaðan til annarra svæða í Mið- og Vestur-Evrópu upp úr 1960, líklega af mannavöldum. Hans varð vart í Suður-Svíþjóð árið 1975, fannst í Noregi 1988, í Danmörku 1991, í Færeyjum 1996 og á Íslandi árið 2003; það var í Kópavogi og Reykjavík. Hefur snigillinn, einkum egg eða ungviði, átt greiða leið hingað til lands með innfluttum plöntum og jarðvegi í blómapottum, eins og annars staðar.

Síðan þá hefur tegundin fundist hér árlega og eftirfarandi staðir bæst við: Akranes, Akureyri, Dalvík, Garðabær, Hafnarfjörður, Hnífsdalur, Hofsós, Húsavík, Hveragerði, Höfn í Hornafirði, Mosfellsbær, Neskaupstaður, Ólafsfjörður, Patreksfjörður, Sauðárkrókur og Vestmannaeyjar. Og núna Siglufjörður.

Sá sem hér fannst var um 9 cm langur samandreginn og um 2,5 cm í þvermál. Hann verður sendur til Náttúrufræðistofnunar Íslands í dag.

Sjá nánar hér.

Forsíðumynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Aðrar myndir, teknar 26. maí 2018: Heimir Birgisson.
Fylgja: Fréttin í Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is