Spáð í veturinn


Þá er veturinn formlega byrjaður. Fyrsta dag hans ber nú á tímum upp á laugardag á bilinu 21.?27. október, nema í rímspillisárum, þá 28. október. Frá því um 1500 og fram yfir 1800 hófst vetur hinsvegar á föstudegi og í gamla stíl (júlíanska tímatalinu) lenti það þá á bilinu 10.-17. október. Samkvæmt forna norræna tímatalinu er upphafsmánuður vetrar nefndur Gormánuður, og vísar það nafn til sláturtíðar.

Á þessum tímamótum er fróðlegt að líta aðeins í bók Árna Björnssonar, Saga daganna (1993), og athuga hvaða augum fólk leit þessi umskipti í eina tíð og freistaði þess jafnframt að lesa ókomna tíma með ýmsum ráðum. Hann segir m.a. í kaflanum Vetrarkoma:

Algengustu minni tengd vetrarkomu eru
sem vonlegt er ýmsar spár fyrir vetrarveðri. Langflestir heimildamenn
nefndu atferli dýra í því sambandi og einkum hegðun hagamúsa.
Það var samdóma álit um land allt að það boðaði harðan vetur ef mýs
græfu snemma holur, drægju að sér forða eða leituðu heim til bæja.
Almennt var talið að þær sneru holuopinu undan ríkjandi vindátt á næsta
vetri. Sumir Árnesingar töldu því góðs vita ef holuopið vissi í norður
en bjuggust við hörkum ef það sneri til suðurs. Snæfellingur bætti því
við að aldrei mætti kasta dauðri mús í norður, það ylli hörkubeljanda,
en vænta mætti þíðu væri henni kastað í suðurátt.

Allmargir vissu líka tekið mark á
atferli fugla og útliti, og er ekki hægt að merkja mun eftir
landshlutum. Það boðaði harðan vetur ef snjótittlingar eða aðrir spörfuglar hópuðust snemma heim að bæjum. Sama gilti ef farfuglar fóru fyrr en vanalega, rjúpan
skipti snemma lit eða mikill forði var í sarpi hennar. Hinsvegar var
von á góðum vetri ef lóan dvaldist lengi fram eftir hausti. Mikill
vargagangur í hröfnum á hausti vísaði á vetrarhörkur. Fáeinir nefndu hegðun húsdýra, einkum forystufjár og hesta, en gáfu enga einhlíta skýringu.

Miklu færri virtust gefa gaum að jurtaríkinu en þar var þó helst tekið mark á þrennu. Mikil berjaspretta þótti vita á snjóavetur, og starartegund sú sem kallast öðru nafni vetrarkvíði
(Carex chordorrhiza) spáði jafndjúpum snjó og hún varð há uppreist.
Sama nafn var á glitrandi köngulóarþráðum á grasi sem þóttu boða
harðindi. Mikil fífa benti einnig til snjóþyngsla.

Töluvert margir víða um land könnuðust við að spáð væri í vetrarbrautina,
en flestir voru á einu mál um að það hefði þótt hin virðulegasta
dulspeki sem fáir einir kunnu og vildu enn síður kenna öðrum. Einn lýsti
þessu svo:

Til voru
gamlir menn sem þóttust geta lesið úr vetrarbrautinni, fóru út
stjörnubjört kvöld, helst eftir veturnætur, horfðu upp í himin
dularfullir og spekingslegir, en sögðu fátt, svo menn voru jafnfáfróðir
eftir sem áður.

Mörgum bar þó saman um nokkur atriði.
Best þótti að spá í brautina í október eða milli Mikjálsmessu og
allraheilagramessu. Lesa átti hana frá austri til vesturs. Bjartir
kaflar í henni merktu harðindi eða snjóþyngsli en daufir eða dökkir
blettir þíðu og góðviðri. Samt voru þeir til sem hafa heyrt hið
gagnstæða um dökka og ljósa bletti.

Veðurspá með milta eða milti er nefnd í kafla um kreddur hjá Jóni Árnasyni:

Til þess
að vita hvernig viðrar á vetrum er gott að taka nýtt kindarmilti, skera
í það átta samsíða þverskurði og leggja það svo einhverstaðar þar sem
enginn nær í það. Þannig skal það liggja heilan dag. Þegar menn svo
skoða það eftir daginn skal nákvæmlega gæta að hvort skurðirnir hafi
glennst í sundur eða ekki. Ef þeir hafa glennst í sundur verður góð
veðurátta næsta vetur, en sé skurðirnir fast saman eins og þegar þeir
voru skornir í miltið þá mun illa viðra.

Nokkuð margir heilmildamenn
þjóðháttadeildar voru kunnugir spám í milta, en oftast með nokkuð öðrum
hætti. Einkum gátu þeir um heitt stórgripsmilta sem í voru gerðir
nokkrir skurðir. Ýmist var bundið fyrir augu þess sem skar eða skorið
fyrir aftan bak og miltað ýmist skorið á jörðinni eða fjöl.

Á Vesturlandi virtist algengast að
skera miltað í þrjá eða fjóra parta, sem merktu jafnmarga hluta
vetrarins, og skoða síðan stærð þeirra. Því stærri sem parturinn varð
þeim mun erfiðari yrði veturinn.

Um miðbik Norðurlands sýndust menn
huga meira að því hvernig partarnir höguðu sér. Ef einn bólgnaði upp
vissi það á umhleypinga í þeim parti vetrar.

Í Þingeyjarsýslum og á Austurlandi
gerðu menn fleiri skurði og skiptu miltanu í sex parta eða jafnmarga
vetrarmánuðum. Reyndar gerðu sumir sex skurði og aðgættu hvernig þeir
hefðust við þegar miltað kólnaði. Opnir skurðir vissu á gott en lokaðir á
illt.

Aðrir hugðu að litnum í sárinu og
þótti rauður góðs viti. Enn aðrir þukluðu miltað og vissi þá linur
partur á vægt veður en harður á hörkur. Spár í milta eru dæmi um
gjörnýtingu bænda  á húsdýrum því miltað var einn örfárra hluta af
skepnunni sem ekki var nýttur til matar. Athyglisvert er að svipaðar
spár í milta þekktust líka á Hjaltlandi og í Orkneyjum.

Loks höfðu nokkrir tugir heimildamanna hvaðanæva heyrt um þann leik að spá fyrir vetri í kindagarnir
en fæstir þekktu það af eigin reynslu. Eftir sögn þeirra sem ítarlegast
lýstu átti að miða við fyrstu kind sem slátrað var heima. Rakið var frá
endagörn sem merkti upphaf vetrar og aðgætt hvar auðir blettir væru í
görnunum. Á sama bili vetrar mátti búast við harðindum en þíðviðri þar
sem garnir voru fullar.

Enn skulu nefndar tvennar spár þótt ekki nefndu þær margir heimildamenn. Á Suðurlandi tóku að minnsta kosti sumir eftir lit haustkálfa og gátu hvítleitir kálfar vitað á snjóatíð en rauðleitir á snjóléttan vetur. Vestfirðingur kannaðist á hinn bóginn við að rauð ský á myrkum himni um veturnætur boðuðu eitthvað illt. Þau súst meðal annars veturinn fyrir seinni heimsstyrjöldina.

Önnur alþýðutrú í tengslum við
vetrarkomu er naumast merkjanleg. Í ævintýri einu, sögunni af Sigurði og
Skógarhvít, kemur þó fram að skessur tali mikið upp úr svefni síðustu
og fyrstu nótt hvers misseris og þá sé reynandi að komast að
leyndarmálum þeirra, en söguhetjan á að segja skessu nafn hennar fyrsta
vetrardag.

Ýmis ráð voru notuð hér á landi áður fyrr

til að reyna að komast að því hvað í vetrinum beið.

?Það var samdóma álit um land allt að það boðaði harðan vetur

ef mýs
græfu snemma holur, drægju að sér forða eða leituðu heim til bæja.

Almennt var talið að þær sneru holuopinu undan ríkjandi vindátt á næsta
vetri.?

Það boðaði harðan vetur ef snjótittlingar komu snemma heim að bæjum.

Illt þótti ef rjúpan fór of snemma í vetrarbúning eða mikill forði var í sarpi hennar.

?Mikill vargagangur í hröfnum á hausti vísaði á vetrarhörkur.?

Mikil berjaspretta þótti vita á snjóavetur.

 

Vetrarkvíðastör, öðru nafni snjónál, gulnefja eða snjógras,

?spáði jafndjúpum snjó og hún varð há uppreist?.

Og mikil fífa benti einnig til snjóþyngsla á komandi vetri.


Mynd af snjókornum: Fengin af Netinu.

Mynd af vetrarkvíðastör: Fengin af Netinu.

Aðrar myndir og inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Árni Björnsson, Saga Daganna. Mál og Menning, Reykjavík, 1993. Bls. 265-268.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is