Söluturninn á Ráðhústorgi


Myndarlegur söluturn á Ráðhústorgi vakti áhuga fréttamanns um miðjan dag
og ákvað hann að komast að því hvað væri þar í gangi. Í ljós kom að
inni fyrir var Kolbrún Gunnarsdóttir úr Reykjavík, sem aðspurð kvaðst
hafa flutt hingað til Siglufjarðar í endaðan janúar með eiginmanni
sínum, ?burt úr stressinu? eins og hún orðaði það. Þeim líkar mjög vel að búa
hér og vildu óska að þau hefðu látið verða af þessu fyrir löngu.

Eiga þau kannski ættir að rekja til Siglufjarðar?

?Nei, nei. Við vorum bara á ferðalagi fyrir nokkrum árum og komum hingað og hrifumst einfaldlega af staðnum, fréttum svo af húsi til sölu og keyptum það og notuðum þegar við áttum lengri frí.?

En hvað er hún að selja?

?Ég er aðallega að selja lopahúfur, vettlinga og annað þvíumlíkt, sem ég bý til sjálf. Ég hef verið að prófa þetta í sumar, hef þá verið sunnanmegin við Bátahúsið þegar hefur viðrað, en er núna sumsé hérna og verð kannski á þessum slóðum áfram meðan Síldardagar standa yfir og Síldarævintýrið.?

En hvað með þennan fína söluturn?

?Síldarminjasafnið á hann en leyfir fólki að nota hann. Þetta verður hér í sumar til prufu. Þeir eru að athuga svona hvernig gangi og vonandi koma fleiri hingað með varning til að selja, það er pláss fyrir alla vega þrjá aðila hérna inni í einu.?

Og hverjir kaupa?

?Það hafa nú aðallega verið útlendingarnir; þeir kaupa þetta til gjafa og svoleiðis. Íslendingar prjóna þetta nú bara sjálfir, held ég.?

Hún ætlar að vera með borð á Hippamarkaðnum á morgun, sem verður á Rauðkutorgi frá kl. 13.00 til 17.00.

Og þegar undirritaður er hættur þessu spurningaflóði, þakkar fyrir sig og er að kveðja, segir hún brosandi: ?Vantar þig kannski bol??

Það mátti reyna.

Kolbrún Gunnarsdóttir í söluturninum nýja á Ráðhústorgi fyrr í dag.

Mynd og texti:
Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is