Sólardeginum fagnað


Á Siglufirði hefur ekki sést til sólar í rúmar 10 vikur eða nánar tiltekið í 74 daga. Samkvæmt almanakinu á hún að birtast yfir fjöllunum í dag, 28. janúar, en verði ekki svo er þó ljóst að ekki verður aftur snúið í bráð og að nú er stefnan í átt til vors og sumars.

Þessu fagna að sjálfsögðu vinkonurnar á meðfylgjandi ljósmynd, Isabella Ósk og Margrét, enda allt annað en gaman að sjá ekki þá gulu brosa á himni í þetta langan tíma.

Leikskóla- og grunnaskólabörn munu í hádeginu syngja í kirkjutröppunum og víðar, og Sjálfsbjargarkonur voru að í allan gærdag við pönnukökubakstur og aukinheldur komnar á fætur eldsnemma í morgun til að hafa undan pöntunum, enda þessi kringlótta og táknræna, sykri og rjóma prýdda afurð þeirra með eindæmum gómsæt.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is