Sögufrægt hús að hverfa


Unnið hefur verið að því á Siglufirði síðustu daga að rífa sögufrægt hús í hjarta bæjarins, en það hýsti í áratugi starfsemi Egilssíldar. Húsið stendur við Gránugötu 27-29 og var byggt árið 1936, tæplega þúsund fermetrar að stærð.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar samþykkti nýlega niðurrif hússins, en eigandi þess er Selvík ehf. Aðaleigandi Selvíkur er Róbert Guðfinnsson athafnamaður og er Selvík systurfélag Rauðku ehf., sem unnið hefur að uppbyggingu ferðaþjónustu við höfnina á Siglufirði.

Ekki verður byggt á lóðinni því samkvæmt nýlegu deiliskipulagi fyrir miðbæinn á Siglufirði er gert ráð fyrir að Gránugata, sem liggur á milli Egilssíldar og Ráðhússins, verði færð til suðurs. Erfið krossgatnamót hverfa og tvenn T-gatnamót koma í staðinn. Þessar framkvæmdir eiga að auka öryggi um leið og almenningssvæðið í miðbænum verður opnara og stærra.

Blómaskeið Siglufjarðar

Nafnið Egilssíld má rekja til þess að Egill Stefánsson hóf að reykja síld á Siglufirði árið 1921 eða fyrir tæplega 100 árum. Þá var blómaskeið Siglufjarðar hafið með uppgangi í síldveiðum fyrir Norðurlandi. Uppsveiflan í síldinni og bæjarbragnum á Siglufirði varði allt fram yfir miðja öldina þegar að því kom að síldin hvarf en á gullaldarárum síldveiðanna óx Siglufjörður úr fámennu þorpi í yfir 3000 manna bæ, eins og segir í grein í Ægi 2015.

Egill byggði á þessum tíma upp fyrirtæki sitt og vann við það allt til dauðadags árið 1978. Þá tók sonur hans, Jóhannes Egilsson, við rekstrinum og stýrði fyrirtækinu þar til hann féll frá árið 2011. Nýir eigendur komu þá að fyrirtækinu og fékk það nafnið Egils-sjávarafurðir ehf. og er Gústaf Daníelsson framkvæmdastjóri og aðaleigandi. Áfram er haldið á sömu braut í rekstrinum, þ.e. í framleiðslu á afurðum úr laxi og síld, að stærstum hluta reyktum afurðum.

Egils sjávarafurðir færðu sig fyrir tveimur árum norðar í bænum og starfa nú í gömlu rækjuverksmiðju Ramma hf.

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar 12. og 13. desember.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti og fylgja: Morgunblaðið / Ágúst Ingi Jónsson | aij@mbl.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is