Snjóflóðin miklu 1919


Þ. Ragnar Jónasson: Snjóflóðin miklu 1919

Á snjóþungum vetrum eru víða stórhættur af snjóflóðum þar sem snarbratt fjöll eru. Safnast oft hengjur framan í fjallsbrúnir eða í gil og gjár, og hengjurnar bresta svo þegar þungi þeirra er orðinn of mikill, með nýrri viðbót eða veðrabreytingum. Þannig er þetta víða í byggðum Siglufjarðarhéraðs. Mestu snjóflóðin sem kunnugt er um á þessum slóðum hafa fallið úr Staðarhólsfjalli.

Í Annál nítjándu aldar segir að 23. desember 1839 hafi hlaupið snjóflóð fyrir framan Staðarhól í Siglufirði ofan í sjó og yfir fjörðinn, „sem er hér um bil 400 faðmar á breidd og 20 faðma djúpur, og ruddi sjónum undan sér upp á land fyrir framan kaupstaðarhúsin, losaði um 7 skip á hvolfum, stór og smá, og skemmdi eða braut þau meira og minna.“

Árið 1911 tók til starfa stór síldarbræðsluverksmiðja á sjávarbökkunum sunnan og neðan Staðarhóls. Þarna var áður búið að setja upp síldarútgerð og síldarsöltun. Að þessum framkvæmdum stóðu aðallega tveir norskir bræður, Gustav og Olaf Evanger. Meðeigandi var fyrirtækið Thomas Morgan & Sohn í Hamborg og mynduðu þeir hlutafélag um verksmiðjuna. Félag þetta hét Siglufjords Sildeolie & Guanofabrik A.S. Með verksmiðju þessari hófst stórrekstur í síldariðnaði á Íslandi. Í daglegu tali var verksmiðjan nefnd Evangersverksmiðjan. Starfsmannahús voru byggð þarna í norskum stíl. Myndaðist lítið þorp austan fjarðarins og blasti þessi byggð við kauptúninu á Eyrinni. Fyrstu átta árin sem síldarverksmiðjan starfaði tók hún við mjög miklu af síld til bræðslu og skapaði mikil verðmæti.

En svo gerðust óvæntir atburðir í snjóþyngslum síðari hluta vetrar árið 1919, en sá vetur var einn mesti snjóflóðavetur á þessari öld. Þann 12. apríl féll mikið snjóflóð úr Staðarhólshnjúk og Skollaskál og olli það gífurlegu tjóni á mönnum og mannvirkjum. Flóð þetta sópaði með sér öllum verksmiðjuhúsunum, geymsluhúsum og íbúðarhúsum, ásamt birgðum af tómum síldartunnum og áfylltum lýsisfötum. Snjóflóðið náði allt suður að Neðri-Skútu en þar björguðust sjö manns við illan leik undan húsarústum. Alls fórust í flóði þessu níu manns. Á sama tíma fórust sjö manns á Engidal við Siglufjörð og tveir menn í Héðinsfirði.

Fáir höfðu augljóslega gert sér grein fyrir því að yfir þessum glæsilegu mannvirkjum við Staðarhól vofði stórhætta af þessu tagi. Aðeins voru þó liðin 80 ár frá því að snjóflóð hafði fallið á sömu slóðum, árið 1839, og hljóta að hafa verið einhverjir í Siglufirði sem höfðu spurnir af þeim hamförum. „Þar er skriðunnar von, er hún hefur fyrr fallið,“ segir máltækið.

Enda þótt nokkuð hafi verið skrifað um þessa hörmulegu atburði hefur, að því er næst verður komist, ekki verið vitnað í einu skráðu og prentuðu samtímaheimildina, vikublaðið Fram sem gefið var út á Siglufirði á þessum árum. Hér verður gluggað í það.

Dagurinn örlagaríki

Blaðið Fram kom út þennan örlagaríka laugardag, 12. apríl 1919, eins og aðra laugardaga. Svo virðist sem búið hafi verið að prenta forsíðu blaðsins þegar fréttir bárust af flóðinu en frásögn komst inn á aðra síðu. Aðalfyrirsögnin er „Ógurlegt snjóflóð” og síðan stendur með heldur minna letri „féll hér austan fjarðar í nótt. Tók yfir um 1000 faðma svæði. Sópaði sjö húsum út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri-Skútu. 16 manns lentu í flóðinu. 7 náðust lifandi eftir 10 tíma. 9 manns ófundið ennþá og talið af. Flóðbylgjan æddi hér yfir á eyri og gerði stórskaða. Tjónið um 1 1/2 milljón kr.“ Á eftir fylgdi ítarleg frétt, svohljóðandi:

„Eftir því sem vér best vitum enn þá verða menn fyrst varir þessa voða viðburðar þannig að um kl. 4 í nótt verður vökumaður á m.b. „Æskan“, sem lá við Lýsisbryggju svokallaða, sjónarvottur þess að flóðbylgja ógurleg kemur æðandi austan yfir fjörðinn. Sá hann um leið að fjörðurinn var snjóhvítur og hyggur í svipinn að hafís sé þar kominn. Flóðbylgjan æðir á land upp með afskaplegum aðgangi og tók t.d. skip þetta sjó inn að lúkugötum um leið og bylgjan reið yfir. Afleiðingar flóðbylgjunnar urðu hroðalegar. Utan frá Bakkevig og alla leið suður til Roalds eyðilögðust allar bryggjur meira og minna og svo var afl bylgjunnar mikið að tvö fiskiskip Sam. verslananna, sem á landi stóðu, fluttust úr stað en mótorbátar og smærri bátar lágu sem hráviði hér og þar um eyraroddann, m.b. „Georg“ spónmölvaðist og mótorbátur sem lá upp við Roaldsbryggju hentist á hvolf.

Er menn sáu þessar aðfarir hér varð mönnum ljóst að snjóflóð mundi hafa hlaupið úr fjallinu austan fjarðarins og þaðan stafaði flóðbylgja þessi, en ekkert mátti sjá vegna hríðarsorta og myrkurs. Þegar birta tók af degi rofaði snöggvast svo að sást austur yfir fjörðinn brá mönnum þá mjög í brún því að af sjö húsum sem stóðu hér beint á móti eyraroddanum var aðeins eitt eftir. Eigi gátu menn séð bæinn Neðri-Skútu eða íbúðarhús er þar stóð fyrir neðan á sjávarbakkanum. Var þá brugið við svo fljótt sem unnt var. Fjöldi manna fór austur yfir ef ske kynni að eitthvað mætti aðhafast þrátt fyrir illviðrið, því þar höfðu sjáanlega gerst hörmuleg tíðindi.

Þegar menn komu yfir um sáu menn að afarmikil snjóskriða hafði fallið úr fjallinu fyrir ofan Staðarhól, klofnað á hól nokkrum fyrir ofan bæinn og aðalflóðið hlaupið að sunnanverðu og Neðri-Skúta lent alveg í suðurjaðri þess, var allt þetta svæði ein auðn, þar stóð ekki steinn yfir steini og eyðileggingin afskapleg. Síldarbræðsluverksmiðja Evangers og 5 önnur hús þeim tilheyrandi, hús Benedikts Gabríels Jónssonar og bærinn Neðri-Skúta var allt sópað burtu og engin lífsmerki sjáanleg á öllu þessu svæði. Í húsum Evangers bjuggu: Knut Sæther umsjónarmaður og kona hans og Friðbjörn Jónsson húsmaður með konu og barni og varð leit að þeim árangurslaus, enda stóðu húsin rétt við sjóinn og hafa sópast út í fjörð í einni svipan. Í húsi Benedikts Gabríels bjó hann með konu og 2 börnum og var sjáanlegt að þar mundi hafa farið á sömu leið.

Í Neðri-Skútu bjó Einar bóndi Hermannsson með konu sinni, þrem börnum sínum, fósturbarni og gamalli konu. Menn sáu þegar að hér var sá staðurinn er sennilegast væri að líf leyndist, þó ýmislegt benti til hins gagnstæða þar eð búshlutir og innanstokksmunir höfðu fundist víðsvegar í flóðinu og mikill hluti bæjarins hafði farið langar leiðir og tætst sundur. Var þá farið að grafa til þess að leita bæjarleifanna og urðu menn þess varir áður en langt um leið að eitthvað af gamalli baðstoðu mundi vera þar undir og kunnugir vissu að þar hafði fólkið sofið. Um kl. 2 var búið að grafa upp baðstofuna og ná öllu fólkinu lifandi. Þar lá það í rúmum sínum skorðað milli rúma og súðarinnar, sem fallið hafði niður, og hvíldi nú á rúmstokkum og gólfi. Var það mikið þjakað og nokkuð meitt, sem von var eftir 10 tíma dvöl í slíkum heljargreipum, en var þó með ráði og rænu, nema sonur hjónanna Hermann, hann var meðvitundarlaus, lá hann og allur í fönn, var svo fólkið allt flutt að Árbakka, er stendur þar litlu sunnar. Vaknaði Hermann þar skjótt til meðvitundar og gera menn sér nú vonir um að allt fólkið muni komast til heilsu. Sjálfsagt verður leitinni haldið áfram, en því er miður að hún er að sögn þeirra er komið hafa á vettvang, vonarlítil.

Tjónið af öllu þessu er stórkostlegt, fyrir utan mannslífin. Auk allra þessara húsa sem upp hafa verið talin hefur fjöldi annarra mannvirkja austan fjarðarins eyðilagst, bæði bryggjur og uppfyllingar. Húsin voru flest full af tómum tunnum og þar lágu einnig um 1000 föt af lýsi og fjölda margir snurpinótabátar, sem allt hefur meira og minna eyðilagst, og mun óhætt vera að fullyrða að tjónið sé ekki minna austan fjarðarins og vestan en 1 til 1 1/2 milljón krónur.

Fólkið í Skútu hefur misst aleigu sína, að undanteknum fáeinum kindum sem voru í húsi lítið eitt sunnan við bæinn og slapp, 2 kýr bóndans voru dregnar dauðar upp úr fönninni í dag. Góðir menn og konur! Ef nokkurntíma hefur verið ástæða til skjótrar hjálpar þá er það nú. Fólkið er matarlaust, klæðlaust, allslaust og allt kemur sér vel. „Fram“ er fús að veita móttöku gjöfum og koma þeim áleiðis.“

Það er athyglisvert hve frásögn þessi er nákvæm, þegar tekið er tillit til þess að hún er skráð og birt sama dag og snjóflóðið féll.

Fleiri snjóflóð féllu

Eins og hér mátti lesa var einungis vitað um snjóflóð austan Siglufjarðar þegar Fram kom út 12. apríl. En viku síðar, 19. apríl, voru sagðar fréttir af snjóflóðum á Engidal og í Héðinsfirði. Fyrirsögnin var: „Voðasnjóflóð enn, 9 manns ferst.“ Síðan segir:

„Þriðjudag 15. þ. m. komu menn úr Héðinsfirði hingað og sögðu þau hryggilegu tíðindi að í Héðinsfirði hefðu fallið mörg snjóflóð um síðustu helgi, og tvö þeirra orðið mannsbanar. Hið fyrra þeirra snjóðflóða féll laugardaginn 12. þ.m. um kl. 3 síðdegis úr svokallaðri Víkurbyrðu og fórst þar bóndi frá Vík, Páll Þorsteinsson að nafni, maður á besta aldri, frá konu og 1 barni, var hann á heimleið frá beitarhúsunum í Vík. Allir bændurnir þrír voru á beitarhúsunum þennan dag en Páll heitinn varð þeirra fyrstur til heimferðar – og skildi það. Lík hans var ófundið er síðast fréttist.

Snjóflóð hafa oft fallið á þessum stað og orðið mönnum að bana; árið 1841 fórust í snjóflóði á sama stað 2 giftir bændur frá Vík, Jón Jónasson og Jón Jónsson, voru þeir einnig á heimleið frá beitarhúsunum.

Síðara flóðið féll um kl. tvö á sunnudaginn úr fjallinu fyrir ofan Ámá, fremsta bæ í Héðinsfirði; hljóp það á fjárhús í túninu á Ámá og fórst þar Ásgrímur sonur Erlends bónda, 24 ára gamall. Í flóðinu lentu einnig 37 ær og fórust flestar. Annar maður var nýgenginn frá fjárhúsinu til annars fjárhúss skammt frá, það hús slapp hjá flóðinu. Héðan fóru menn til Héðinsfjarðar á þriðjudaginn, ef hugsanlegt væri að einhverju yrði bjargað, fundu þeir eftir nokkra leit Ásgrím örendan í heytóft áfastri fjárhúsinu og 8 ær lifandi.

Mótorbátur frá Hofsós hafði verið veðurteftur hér í Siglufirði alllengi. Þriðjudaginn, síðdegis, hélt hann heimleiðis og morguninn eftir bárust þau skeyti hingað frá honum að hann hefði eigi séð bæinn Engidal er hann sigldi þar hjá og enga mannaferð þar, en þóttist aftur á móti hafa séð að snjóflóð mundi hafa fallið upp undan bænum. Var þá þegar brugðið við héðan og sendur vel mannaður mótorbátur vestureftir. Gerðu menn sér þó vonir um að hér hefði eigi fallið snjóflóð sem að grandi hefði orðið því í manna minnum hafði ekki snjóflóð hlaupið á þessum stað, hugðu menn fremur að bæinn hefði fennt í kaf, því eigi sést af sjó utan. Önnur varð þó raunin á því þaðan átti maður eftir að frétta máske hroðalegustu viðburðina. Hafði afarmikið snjóflóð fallið um þveran dalinn og síðan ofan eftir honum, hlaupið á bæjarhúsin og grafið þau en eigi náð peningahúsum er stóðu nær sjónum.

Sást þar ekkert líf heima við, þar er bærinn hafði staðið, nema hundur einn sem var þar á vakki. Sáu menn hvar héppi hafði grafið sig upp úr flóðinu og að hann var blóðugur og rifinn á löppunum. Haus á dauðu hrossi sást upp úr fönninni og kofarústum rétt fyrir neðan bæinn. Var þegar farið að moka upp bæjarrústirnar og er þar skemmst af að segja að heimilisfólkið allt 7 manns fannst þar örent í bæjarbrotunum undir 4 til 5 álna þykku flóði. Var fólkið allt í rúmunum svo snjóflóðið hefur fallið að náttarþeli, og miklar líkur til að verið hafi sömu nóttina og voðaflóðið féll hér í Siglufirði, því líkin voru mikið farin að rotna. Seint um kvöldið var búið að ná öllum líkunum og voru þau flutt hingað til Siglufjarðar á fimmtudagsmorguninn.

Af skepnum fórust þarna: 2 kýr, 1 hross, 6 kindur, 2 hundar og köttur. Fjárhúsin stóðu utar og neðar í túninu og hafði þau ekki sakað. Fullorðna féð og hross höfðu legið við opið og því farið út þegar veður batnaði, enda virtist því líða nokkurnveginn vel. Í öðru húsi voru lömb og eitt hross, hafði það eigi komist út því húsið var birgt, og voru lömbin svo hungruð að þau höfðu étið ull hvert af öðru, mold úr görðum og veggjum og taglið af hrossinu, en virtust vel lifandi …“

Höfnin hroðaleg

Í því tölublaði af Fram sem út kom 19. apríl eru einnig fluttar nánari fréttir af snjóflóðinu við Siglufjörð:

„Þegar birti upp var hafin leit eftir líkum þeirra sem fórust hér í Siglufirði hefur víða verið leitað alla daga og nætur með hverri fjöru og eru nú 6 lík fundin …“ Síðar í fréttinni segir: „Alla dagana hafa mótorbátar og smábátar verið á ferð fram og aftur um fjörðinn að tína saman síldartunnur og timburrekald, munu hafa náðst um 1500 tómar síldartunnur og allmikið af timbri mjög brotið og sundurtætt, mikið af því aðeins eldsmatur. Höfnin hefur verið hroðaleg útlits þessa daga, full af óhreinni krapstellu, spýtnarusli og tunnum. Innan til mun hún og alls ekki vera trygg til umferðar stærri skipum eins og stendur. Menn vita alls ekki hve langt vélar og járnbitar hafa henst út á fjörðinn …“

Þá er greint frá því að um sömu helgi hafi fallið snjóflóð í Ólafsfirði og Þorgeirsfirði (austan Eyjafjarðar). Sagt er í blaðinu að Einar Hermannsson og fjölskylda hans „voru orðin svo hress að þau urðu flutt hingað út á eyrina í gær.“ Þá segir: „Staðarhólsfólkið og fólkið úr Efri-Skútu flutti allt hingað yfir á eyri nú í vikunni, af ótta við snjóflóð, hafa menn búist við að ný flóð hlypu alla vikuna því snjór var aftur kominn mjög mikill í Staðarhólsfjall, en ekki hefur það þó orðið enn sem komið er.“

Þess má geta að aðrar heimildir frá sama tíma segja að snjóþyngsli hafi verið svo mikil „að heita má að bærinn sé kominn á kaf.“

Konungleg kveðja

Í sama tölublaði af Fram, 19. apríl, er birt „Kveðjusending konungsins og drottningarinnar til Siglufjarðar.“ Þar segir: „Hans hátign konungur vor hefur sent forsætisráðherranum svohljóðandi símskeyti: Dronningen og jeg udtaler vor hjertelige deltagelse i anledning af den ved sneskredet i Siglufjord foraarsagede store ulykke. Á íslensku: Drottningin og ég vottum vora innilegu hluttekningu í hinni miklu óhamingju sem snjóflóðin hafa orsakað í Siglufirði.

Hreppstj.[óri] sendi forsætsráðherranum svohlj.[óðandi] svarskeyti: Siglfirðingar biðja yður hæstvirti herra forsætisráðherra að flytja hans hátign konungi og hennar hátign drottningu hugheilar þakkir fyrir samúðarskeyti þeirra. Hluttekning hinna göfugu konungshjóna vorra mýkir sár þeirra sem fyrir harmi hafa orðið og eykur oss dug til að bæta úr tjóninu.“

Á þessum tíma var Jón Magnússon forsætisráðherra, Kristján X. konungur og Alexandrina drottning. Konungshjónin komu til Siglufjarðar sjö árum síðar, fimmtudaginn 17. júní 1926, í fylgd Jóns Magnússonar. Þau voru þá á leið frá Reykjavík til Akureyrar en ekki hafði verið gert ráð fyrir að þau kæmu við á Siglufirði. Hugsanlegt er að snjóflóðin hafi átt þátt í þeirri ákvörðun.

Sárir sorgardagar

Þrem vikum eftir að snjóflóðin féllu, 3. maí 1919, skrifaði séra Bjarni Þorsteinsson „Fáein minningarorð“ í Fram:

„Jafnvel þótt ekki geti komið til tals að skrifa æviminningu hvers einstaks af þeim hóp, 18 talsins, sem fórst í snjóflóðunum um daginn, þykir rétt að minnast þeirra ofurlítið nánar en enn hefur verið gjört.

  1. Fólkið á Engidal. Er það fyrst að telja húsmóðurina Margréti Pétursdóttur, ekkju Garibalda Einarssonar sem andaðist þar 1. ágúst í sumar sem leið. Hún var tæplega fimmtug að aldri, mesta sæmdarkona á alla lund, starfsöm og stjórnsöm, hreinlynd, góð og guðrækin kona og sérlega umhyggjusöm móðir. Með henni fórust 3 börn hennar, öll fullorðin, Pétur Garibaldason, Sigríður Pálína og Málfríður Anna, öll sérlega mannvænleg og vel upp alin börn, og gáfu þessi 3 börn, eins og öll börn þessara hjóna, hinar bestu vonir um starfsama, farsæla og fagra framtíð. Yngri dóttirin, sem nefnd var, var fyrir 5 mánuðum síðan gift Gísla Gottskálkssyni, var hann mesti dugnaðarmaður, ráðdeildarsamur, glaðlyndur og góðlyndur. Fósturbarn var á heimilinu, móðurlaus stúlka, 6 ára gömul, sem var þar eins og í bestu foreldrahúsum. Þar var og gömul ekkja, stjúpa húsmóðurinnar, Halldóra Guðmundsdóttir, 76 ára, mjög trú og dygg, vönduð og guðrækin kona. Allt þetta fólk, 7 að tölu, fórst á einu augabragði, þegar snjóflóðið kom um miðja nótt, tók af bæinn og deyddi allt er það náði til, menn og málleysingja. Þetta fólk var allt jarðsungið föstud. 25. apríl og allt látið í sömu gröfina, við hlið Garibalda sáluga. Sýndi fólk hina mestu og einlægustu hluttekningu og var líkfylgdin hin langfjölmennasta er hér hefur nokkru sinni verið, miklu fleira fólk en kirkjan tók. Fimm börn hjónanna á Engidal eru á lífi, þrír fullorðnir synir, tveir á hákarlaskipi fyrir vestan land og einn búsettur á Ísafirði; en tvö yngstu börnin, sem voru ekki heima, stúlka 14 ára og piltur 10 ára, voru viðstödd jarðarförina og urðu að horfa á foreldra sína og systkinin sín þrjú lögð til hvílu í hinni einu og sömu gröf; og var hér sannarlega þung byrði lögð á hinar ungu og þreklitlu herðar barnanna.
  2. Á bakkanum austan Siglufjarðar bjó fátæk fjölskylda í tómthúsmennsku, Benedikt Gabríel Jónsson, ættaður frá Breiðafirði, dugnaðarmaður til lands og sjávar og kona hans Guðrún Guðmundsdóttur, ættuð úr Fljótum, bæði á besta aldri, rúmlega þrítug. Þar voru og tvö börn þeirra, tvær efnilegar og laglegar dætur, Hrefna Svanhvít 6 ára og Brynhildur 4 ára. Alla þessa fjölskyldu og bæinn þeirra tók snjóflóðið og fórust þau öll. Öll hafa líkin fundist og öll voru þau samferða til grafar, og þar voru þau öll, foreldrarnir og börnin, lögð hvert við annars hlið í sömu gröfina, rétt við endann á gröf Engidalsfólksins.
  3. Önnur fjölskylda bjó utar á sama bakkanum, Friðbjörn Jónsson áður bóndi í Skútu og kona hans Guðrún, dóttir Jóns sáluga Dagssonar, mesta myndarkona. Nutu þessi hjón hylli, vináttu og virðingar allra þeirra sem kynntust þeim nokkuð að mun. Hjá þeim var fóstursonur þeirra 8 ára gamall, er þau tóku munaðarlausan á 1. ári og gengu honum í foreldrastað. Þessi hjón og drengurinn fórust öll í snjóflóðinu. Lík mannsins og drengsins hafa enn ekki fundist, þrátt fyrir mikla og margendurtekna leit margra manna; en lík konunnar fannst. Var hún lögð ein í sína gröf að þessu sinni, en við hlið hennar er manni hennar og fóstursyni ætlaður staður ef lík þeirra kynnu að finnast síðar.
  4. Unglingsmaður frá Ámá í Héðinsfirði, Ásgrímur að nafni, yngsti sonur hjónanna þar, fórst í snjóflóði sem þar féll um miðjan dag á pálmasunnudag. Var hann í fjárhúsi að gegna fé föður síns þegar flóðið kom, deyddi manninn og meiri hluta fjárins og sópaði burtu húsi og heyi. Piltur þessi var efnilegur, uppvaxandi, ungur maður, 24 ára, og er öldruðum foreldrum hans og öllum systkinum hans mikill harmur að höndum borinn við hið sviplega fráfall hans.
  5. Um sama leyti hljóp snjóflóð skammt frá Vík í Héðinsfirði og varð einum manni að bana; var það einn bóndinn í Vík, Páll Þorsteinsson, 37 ára að aldri, ættaður úr Ólafsfirði. Er að honum mannskaði mikill, og mestur fyrir hans nánustu. Hann var tvígiftur og lætur hann nú eftir sig unga konu og eina dóttur tveggja ára. Þessi kona missti þannig í einu mann sinn og bróður, því hún er systir piltsins frá Ámá sem fórst í snjóflóðinu þar. Þeir mágarnir úr Héðinsfirði voru báðir látnir í sömu gröf.

Þetta fólk, 7 að tölu, var jarðsungið daginn eftir, laugardaginn 26. apríl og fór jarðarförin að öllu leyti eins fram og hin fyrri, og mannfjöldinn litlu minni.

  1. Þá eru enn ótalin norsku hjónin, verkstjóri Knud Sether og kona hans, er fórust í snjóflóðinu, og bjuggu þau tvö ein í íbúðarhúsi því er tilheyrði verksmiðjunni. Þau höfðu búið hér ein 8 ár; og þótt útlend væru voru þau orðin mörgum af oss svo samrýmd og svo kær að vér söknum þeirra eins mikið og þau hefðu verið hér fædd og uppalin. Þau voru mestu sæmdarhjón, gestrisin og glaðlynd, góð við bágstadda og dýravinir miklir. Heimili þeirra bar ótvíræðan vott um hreinlæti, reglusemi og fegurðartilfinningu. Jarðarför þeirra var frestað um stund. En er það fréttist að skip eitt frá Noregi, sem von var á og beðið var eftir, hefði orðið að snúa aftur til Noregs sökum illviðra, voru hjón þessi jarðsungin þriðjudaginn 29. apríl. Við allar jarðarfarirnar var kirkjan mjög vel tjölduð svörtum dúkum, rafljósin notuð í kirkjunni og fáni í hálfa stöng borinn á undan líkfylgdinni. Munu Siglfirðingar lengi minnast þessara sáru sorgardaga og þessara átakanlegu jarðarfara.“

Það hefur reynst rétt sem séra Bjarni spáði. Siglfirðingar hafa lengi minnst þessara sorgardaga og þegar þeir eru nú rifjaðir upp á þessum síðum eru nær áttatíu ár frá því að þessi mannskæðu snjóflóð féllu. Minning þeirra sem létu lífið með þessum sviplega hætti mun áfram lifa.

Úr bókinni Siglfirskir söguþættir. Birt með leyfi.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]