Snjóflóðin hrúguðust upp á Ríplana


Gestur Hansson, snjóaeftirlitsmaður Veðurstofu Íslands á Siglufirði, sendi fréttavefnum í dag myndir af snjóflóðum sem féllu um helgina og enduðu á Ríplunum, snjóflóðavarnagörðunum fyrir ofan bæinn. Umfang þeirra og fjöldi kom honum verulega á óvart.

„Það var upp úr 20. febrúar sem snjóflóðin tóku að falla úr hlíðunum fyrir ofan Siglufjörð eftir mikla en staðbundna úrkomu sem mældist í úrkomustöðvum. Þetta er mjög óvanalegt ástand sem skapaðist, flóðin voru ekki að falla á hefðbundnum snjóflóðafarvegum heldur úr hlíðum undan klettum og stöðum sem ég hef ekki séð áður koma úr,“ segir Gestur. „Það hafa að vísu komið flóð á garðana áður, en ekkert í líkingu við það sem nú kom á garða 3, 4 og 5, þ.e.a.s. Skriðurípil, Skálarrípil og Bakkarípil. Þessi  snjór sem kom er mjög loftkenndur og léttur og það er mjög erfitt að finna brotstál til að skoða kristalla og renslisflöt. Flóðin eru á.a.g. 20-40 cm þykk og hrúgast upp á garðana.“

Myndirnar hér fyrir neðan tala sínu máli.

Myndir: Gestur Hansson.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is