Snjóblinda slær í gegn í Bretlandi


Um mánaðamótin kom út ensk útgáfa af spennusögunni Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson. Bókin nefnist Snowblind og er innbundin en aðeins gefin út í 500 tölusettum eintökum, sem langflest eru seld. Kiljuútgáfa fer í dreifingu í júní. Rithöfundurinn Quentin Bates þýddi, en hann var búsettur hér á landi í nokkur ár. Á næsta ári er önnur Siglufjarðarsaga Ragnars væntanleg á ensku, Náttblinda.

Snjóblinda hefur fengið einstaklega góða dóma í Bretlandi, m.a. frá mjög virtum rithöfundum. Siglufjörður virðist jafnframt hafa vakið mikinn áhuga lesenda. Í einum af fyrstu dómunum sagði til dæmis: „Sögusviðinu er svo fagurlega lýst að nú er Ísland sannarlega komið á lista yfir staði sem mig langar að heimsækja, og bærinn Siglufjörður er jafnframt á þeim lista.“

Nokkrar umsagnir um Snjóblindu:

„Ragnar Jónasson skrifar af ískaldri, skáldlegri fegurð – viðbót við hina stækkandi íslensku glæpaflóru sem lesendur mega ekki láta framhjá sér fara.“ Metsöluhöfundurinn Peter James.

„Heillandi … gamaldags morðgáta með sterkri aðalpersónu og hrífandi bakgrunni, litlum íslenskum bæ sem lokast af vegna snjókomu. Ragnar lýsir innilokunarkennd fagurlega.“ Ann Cleeves, höfundur metsölubókanna um lögreglukonuna Veru.

„Flóknar sögupersónur og grípandi flétta gera Snjóblindu eftirminnilega. Sögusviðið – Siglufjörður, lítið sjávarþorp, einangrað í íslenska vetrinum, gerir söguna ógleymanlega.“ Bandaríski rithöfundurinn Sandra Balzo.

„Jónasson nær með klókindum að þrengja að þessum litla, einangraða bæ á norðurhluta Íslands þar til maður nær varla andanum, innilokunarkenndin í sögusviðinu er eins og í lokuðu herbergi. Ef maður kallar bókina sína Snjóblindu er eins gott að hún gefi lesandanum kuldahroll, og það tekst.“ Skoski glæpasagnahöfundurinn Craig Robertson.

„Ef Arnaldur er konungur og Yrsa drottning íslenskra glæpasagna þá er Ragnar sannarlega krónprinsinn … meira takk!“ Karen Meek hjá EuroCrime.

Sjá má þessar umsagnir og fleiri hér: http://orendabooks.co.uk/book/snow-blind/

 

Ragnar hafði mikið að gera við að árita hina ensku útgáfu af Snjóblindu.

Frá útgáfuhófinu í London, Quentin Bates þýðandi, Karen Sullivan útgefandi og Ragnar.

Auglýsing fyrir bókina með nokkrum umsögnum.

Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Myndir: Af Facebook.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]