Snjóblinda og Náttblinda seldar til Bretlands


Kápumynd NáttblinduBreska bókaforlagið Orenda Books hefur tryggt sér útgáfuréttinn á tveimur Siglufjarðarkrimmum eftir Ragnar Jónasson, Snjóblindu og Náttblindu, en sú síðarnefnda er enn óútkomin á Íslandi. Gert er ráð fyrir að Snjóblinda komi út á ensku strax á næsta ári og Náttblinda í kjölfarið. Náttblinda er væntanleg á íslensku 23. október næstkomandi hjá Veröld og gerist, líkt og Snjóblinda, alfarið á Siglufirði.

„Það er frábært að glæpasögur Ragnars komi nú út í enskri þýðingu, en það er sá markaður í heiminum sem hvað erfiðast er fyrir erlenda höfunda að komast inn á. Ekki síður er það afar fátítt að breskt forlag kaupi réttinn að óútgefinni skáldsögu frá Íslandi,” segir Pétur Már Ólafsson hjá Veröld, útgefanda bókanna á Íslandi í fréttatilkynningu.

„Ég er afskaplega ánægður með þetta,” segir Ragnar í samtali við Siglfirðing.is, „ekki síst þá staðreynd að þeir völdu þær tvær bækur í seríunni sem gerast nánast að öllu leyti á Siglufirði, og vonandi getur þetta því orðið til þess að koma bænum enn frekar á kortið sem áfangastað fyrir erlenda ferðamenn.”

Gengið var frá sölunni á bókamessunni í Frankfurt, sem hófst í vikunni, en bækur úr Siglufjarðarsyrpu Ragnars hafa áður komið út í þýskri þýðingu.

 

Mynd: Aðsend.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is