Snjóblinda komin út í kilju


Siglfirska glæpasagan Snjóblinda eftir Ragnar Jónasson er nú komin út í kilju hjá Veröld, en eins og greint hefur verið frá er bókin auk þess væntanleg á þýsku síðar á árinu og kemst Siglufjörður þá inn á heimili þýskra lesenda.

Bókin gerist að mestu leyti á Siglufirði að vetrarlagi, í snjóþungum janúarmánuði, þegar aldraður rithöfundur deyr á grunsamlegan hátt og ung kona finnst nær dauða en lífi í snjónum. Sagan fékk frábæra dóma gagnrýnenda og sagði Friðrika Benónýsdóttir í Fréttablaðinu til dæmis að bókin væri ?vel byggð, vel stíluð og spennandi sakamálasaga með góðri persónusköpun og lausn sem kemur lesanda algjörlega í opna skjöldu,? og gaf bókinni þrjár stjörnur. Kristjón Kormákur á Pressunni gaf bókinni hálfa fjórðu stjörnu og sagði að fáir glæpasagnahöfundar hefðu átt jafn sterka innkomu á íslenskan bókamarkað og Ragnar og bætti við að því bæri að fagna ?að það eru ekki aðeins turnarnir tveir, Yrsa og Arnaldur, sem kunna listina að semja góða glæpasögu.? Ingibjörg Rögnvaldsdóttir á bókmenntavefnum Bókmenntir.is sagði að sagan væri lipurlega skrifuð og flétta sakamálasögunnar gengi fyllilega upp og Guðríður Haraldsdóttir sagði í Vikunni bókina spennandi, grípandi og halda manni við efnið.

Kápu bókarinnar, sem er í meginatriðum sú sama og þegar bókin kom út innbundin fyrir jólin, hannaði Ragnar Helgi Ólafsson, sem á ættir að rekja til Siglufjarðar, líkt og bókarhöfundur, en þeir eru synir siglfirsku bræðranna Ólafs og Jónasar Ragnarssona.

Svona lítur framhlið kiljunnar út.

Mynd: Veröld bókaútgáfa | verold@verold.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is