Smíðakompan


Hagleikskonan Kristín R. Trampe hefur í þrjú ár verið með opna vinnustofu í Ólafsfirði, Smíðakompuna, á gamla vinnustaðnum sínum, apótekinu við Aðalgötu, þar sem hún jafnframt býður til sölu einstaklega falleg verk sín, sem ýmist eru skorin út í tré eða söguð út í þessu efninu eða hinu. Grammófónplötur eru þar engin undantekning.

Hefur alltaf liðið vel í Ólafsfirði

„Ég flutti hingað aftur árið 2012, í maí, og var að leita mér að húsnæði fyrir hobbýið mitt, þegar apótekið hætti skyndilega. Og þegar ég var búin að ganga úr skugga um að hér yrðu ekki aðrir rekstraraðilar með apótek þá sótti ég um þetta. Það skondna er að ég er lyfjatæknir og ég vann hérna á árum áður sem slíkur,“ segir hún, aðspurð um hvers vegna þessi bær hafi orðið fyrir valinu og þetta húsnæði.

„Ég er Akureyringur en kom hingað upphaflega 1968, á Hægri daginn, og bjó hérna næstu 27 árin, fór í burtu í kringum 1995 og hef nú búið hér í þrjú ár. Ég hætti að vinna og mér hefur alltaf liðið vel hérna í Ólafsfirði, það er gott mannlíf hérna. Ég á tvo syni búandi í Ólafsfirði, þannig að þetta var ekki erfið ákvörðun, ég tala nú ekki um þegar ég fékk svo þetta hús til að leika mér í.“

Fékk útskurðarsög í afmælisgjöf

Kristín byrjaði á því að læra að skera út með járni og tálga, en svo þegar hún varð sextug gaf fjölskyldan henni í afmælisgjöf fyrstu tifsögina.

„Ég þurfti alltaf að fá aðstoð við að saga út ef ég var að fara að skera út í eitthvað svona, en þegar ég fékk sögina fannst mér það svo gaman að ég hef mest verið í því síðan. Og þetta er orðið á tólfta ár sem ég hef verið í því. Ég lærði útskurð hjá Jóni Hólmgeirssyni á Akureyri, fór svo á 2-3 námskeið hjá Sigríði Jónu Kristjánsdóttur, sem betur er þekkt undir nafninu Sigga á Grund, í Flóahreppi syðra, og svo hef ég lært að tálga hjá alla vega tveim Svíum.“

Hún kveðst tálga í það sem hendi sé næst og sýnir blaðamanni lítinn stól úr reyniviði. Það sé hægt að tálga í hvað sem er.

Getur sagað í hvað sem er

„Ég saga mikið í krossvið og einnig í lerki; ég fæ ákaflega þægilega platta, þ.e.a.s. mátulega þykka, úr Vaglaskógi, en get sagað í hvað sem er ef ég fæ gott efni í hendurnar. En ætli ég að mála eða sprauta, þá nota ég MDF, það er efni sem er notað í innréttingar og fleira. Það er mjög stabílt, flísast ekki út út því. En svo nota ég líka fleiri tegundir, s.s. linditré, til dæmis þegar ég er að búa til mótorhjól og ýmsar styttur. Og svo fæ ég oft mahóní sem hentar mér. Þannig að það má segja að maður noti það sem maður fær.“

Kristín hefur verk sín ekki í fastri sölu annars staðar en þarna.

„Nei, ég er bara með þetta hérna, en einhvern veginn hefur þetta kvisast út og fólk er að hringja í mig héðan og þaðan. Eins hef ég aðeins farið á markaði í kringum Akureyri, en er ekki dugleg við það, því ég kæri mig ekki um einhverja markaðssetningu, ég er bara að leika mér og njóta þess. Ég er orðin 71 árs og veit ekki hvað ég verð lengi svona heppin. Ég ætla ekki að binda mig í einhverju.“

Í góðum samböndum erlendis

„Fljótlega eftir að ég fór að saga út, sá ég að ég myndi ekki geta gert vinnuteikningar, þannig að ég hef komið mér upp samböndum erlendis og er í sambandi við afskaplega gott fólk, kaupi allflestar teikningar af þessum einstaklingum en fæ sumt gefið. Ég hef leyfi fyrir öllu sem ég er að gera.“

En hvað er nú skemmtilegast af þessu?

„Þetta er í rauninni allt uppáhalds, þótt ég sé mest í að saga núna,“ segir hún. „Ég er svo heppin að hafa heilsu í þetta. Ég gæti þess vegna ákveðið, þegar ég vakna einn morguninn, að gera dúkkuhús, og svo jóladót hinn daginn. Þetta er bara spurningin um hvað manni dettur í hug á því augnablikinu. Og mér finnst þetta í rauninni allt jafn skemmtilegt og meðan svo er þá held ég áfram.“

Orgelið hefur vakið mikla athygli, en er ekki til sölu. Það er úr krossviði og er með því fyrsta sem Kristín gerði.

Kristín sitjandi við tifsögina góðu með eitt listaverkið í höndum og annað í smíðun. „Þetta er þolinmæðisdútl, en rosalega skemmtilegt,“ segir hún.

Lítið brot efniviðarins.

Jólaskraut úr MDF.

Eitt listaverkið sagað út í grammónfónplötu. Það er ekki vandalaust að eiga við þær, því þær eiga það til að bráðna undan sagarblaðinu.

Lerki úr Vaglaskógi.

Engill úr MDF.

John Lennon sagaður út í krossvið.

Umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

 

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is