Smásaga eftir höfund Snjóblindu í þýskri bók


Vefmiðillinn Pressan greinir frá því
að hinn siglfirsk ættaði höfundur glæpasögunnar Snjóblindu, Ragnar
Jónasson, verði á meðal þeirra sem eigi smásögu í smásagnasafni sem til
stendur að gefa út á þýsku í tengslum við bókamessuna í Frankfurt. Þar
kemur fram að smásagnasafnið kallist Kalkül und Leidenschaft og
að alls verði hátt í þrjátíu sögur í bókinni, meðal annars eftir Þráin
Bertelsson, Hrafn Gunnlaugsson og Ólaf Gunnarsson. Áður hefur verið sagt
frá því að Snjóblinda verður þýdd á þýsku og kemur út í haust.

Ragnar sagði í samtali við
Siglfirðing.is að smásagan gerðist reyndar ekki á Siglufirði, eins og
Snjóblinda
, heldur í miðborg Reykjavíkur – á og umhverfis Hótel Borg –
bæði í nútímanum og um miðja síðustu öld. Ragnar kveðst hins vegar vera
farinn að vinna að sjálfstæðu framhaldi Snjóblindu sem fjalli um
rannsókn á máli sem teygi anga sína meðal annars til Siglufjarðar.

Þess má geta að Snjóblinda komst aftur
inn á metsölulista Eymundsson nú í vikunni, nánar tiltekið inn á topp
tíu lista yfir innbundin skáldverk og ljóð, og því ljóst að þótt
jólabókaflóðið sé liðið hafa lesendur enn áhuga á að ferðast til
Siglufjarðar í huganum yfir háveturinn.

Ragnar Jónasson á góðri stund.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is