Skriðan í Móafellshyrnu í Fljótum


Á fimmtudag í síðustu viku, 20. september, féll gríðarmikil skriða úr Móafellshyrnu í Fljótum í Skagafirði. Í fréttum á RÚV kom fram, að þegar björgin hafi fallið hafi dunið í fjöllunum í kring. Enginn var á ferli eða í hættu þegar skriðan féll, sagði þar aukinheldur, en tíu dögum áður eða svo hafði svæðið verið smalað.

Gestur Hansson og eiginkona hans, Hulda Jakobína Friðgeirsdóttir, og tíkin Yrsa, fóru þangað inn eftir í fyrradag og mældu umfang skriðunnar, auk þess sem teknar voru ljósmyndir.

Þær koma nokkrar hér.

Í viðtali við Siglfirðing.is sagði Gestur, að skriðan hafi fallið að austanverðu í Móafellsdal, úr 760 m hæð ofan við litla skál eða hæðardrag í fjallinu. ?Þar uppi er allbreið klettasylla og ofan við hana virðist hafa verið grasivaxinn grjóthaugur sem hefur hrunið að hluta fram af klettunum og steypst niður hlíðina. Stór stykki sem hafa verið samanfrosin hafa splundrast og dreifst um hlíðina en önnur stöðvast á leiðinni. Eitt þeirra hafði stöðvast neðarlega í hlíðinni og ég mældi það svona nokkurn veginn úr fjarlægð, því ekki er vogandi að koma nálægt vegna stöðugs hruns úr því, og giskaði á að það væri 25-30 m á kant og u.þ.b. 12 m hátt, saman frosið grjót, þar sem sér í bláan jökulinn og smásteina, 20-30 cm háa og breiða.?

Bætti Gestur við að það hafi verið stöðug hreyfing á efni í hlíðinni, bæði grjóti, mold og vatni sem hafi hrunið niður brattann og verið stórkostlegt á að líta. ?Það virtist hrynja úr þessum svörtu klettum sem sjást ofan við klettasylluna í fjallinu og virðast vera grasigrónir að ofan. Ég hef heyrt að þetta sé kallaður grjótjökull, og sé eldgamall, jafnvel frá 1700 eða fyrr. Hugsanlega hefur jarðskjálftavirknin sem skekið hefur Norðurland síðustu vikur haft eitthvað að segja með að koma þessu af stað. Skriðan er 2 km á lengd og 500-600 m breið. Töluverð landspjöll hafa orðið í þessum hamförum. Jóhannnes á Brúnastöðum sagði mér að það hafi farið undir skriðuna stórt grasivaxið beitarsvæði sem náði lengst upp í fjallið.?

Myndir: Gestur Hansson.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is