Skrautfuglinn heillar


Býsvelgurinn, sem fyrst virðist hafa sést hér í bænum á laugardaginn
var, úti í Bökkum, og sem fólk taldi helst vera páfagauk, sem hefði sloppið úr búri, og ekkert
skrýtið við það, hefur náð athygli margra fuglaáhugamanna hvaðanæva
að af landinu, sem óku hingað í gær, flestir af höfuðborgarsvæðinu. Ekki tókst þó öllum að koma auga á hinn suðræna gest, en reynt verður í fyrramálið að athuga hvort hann gefur ekki færi á sér, þótt ekki væri nema rétt augnablik.

Hann sást frá klukkan 11.00-14.00, á tiltölulega afmörkuðu svæði, en síðan ekkert fyrr en rétt um sexleytið, og þá einungis í 5 mínútur eða svo. Líklegt er að köld golan hafi hrakið hann í skjól, enda er hann ekki vanur slíkum gusti í náttúrulegum heimkynnum sínum, auk þess sem hunangsflugurnar – aðalfæða hans – halda sig til hlés einmitt þá líka.

Nú er bara að vona að smyrillinn, sem flaug þarna yfir í gær, nái honum ekki. Og að það viðri sæmilega.

Betri myndir náðust af fuglinum í gær en í fyrradag, enda var hann orðinn töluvert spakari þá en fyrst.

Ekki er þó vogandi að nálgast hann öðruvísi en á bíl, og það varlega, því annars er hann rokinn á braut um leið.

Á þessu svæði er hann oftast, en getur þó farið út um allt og er snöggur í förum.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is