Skiptihelgi í Hlíðarfjalli, á Dalvík og í Siglufirði


Vikudagur.is sagði frá því í gær, að þeir sem ættu vetrarkort á
skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli eða á Dalvík og í Siglufirði gætu skíðað á
hverju þessara svæða sem er nú um helgina. Vetrarkortshafar framvísa kortum sínum í afgreiðslu hvers skíðasvæðis og fá þar helgarpassa.
Þetta er fyrsta skiptihelgin af þremur sem ákveðið hefur verið að hafa á umræddum skíðasvæðum.

Í dag voru 355 í Skarðdalnum, fólk á öllum aldri, sá yngsti 8 mánaða, hvort sem þetta hefur verið ástæðan eða
ekki. Og þar mátti sjá mikil tilþrif á stundum.

Veðurspáin fyrir Strandir og Norðurland vestra er sunnan og
suðvestan 5-10 og þurrt að kalla. Frost 4 til 12 stig. Vaxandi
suðvestanátt á morgun, 10-18 síðdegis en 18-23 annað kvöld með snjókomu
og síðan slyddu og hlýnar smám saman.

Í fyrramálið verður skíðasvæðið opnað kl. 10.00 og ýmislegt um að vera þar, byrjendakennsla (sem hófst í dag) kl. 13.00-15.00,
fjallakakó hjá Skíðafélaginu og æfing hjá hundabjörgunarsveitinni í Þvergilinu rétt fyrir ofan
T-lyftuna kl. 15.00. Sjá nánar hér.

En þá er að líta á nokkrar myndir, sem eru afrakstur ferðar með snjótroðaranum upp um allar hlíðar. Ekki amalegt að hafa fengið þann útsýnistúr.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is