Skíðað frá toppi og niður að sjó

„Fjallaskíðun hefur verið að ryðja sér til rúms sem spennandi kostur í fjallamennsku Íslendinga. Á Siglufirði hefur skíðaíþróttin ávallt verið fyrirferðarmikil, en þar eru afbragðs aðstæður fyrir fjallaskíðafólk. Í fyrra var haldið sérstakt fjallaskíðamót á vegum Skíðafélags Siglufjarðar, Skíðaborgar, og verður leikurinn endurtekinn í ár.“ Þetta má lesa í Fréttatímanum í dag, á bls. 36.

Ennfremur segir þar:

„Kveikjan að mótinu var sú að hér á Siglufirði hefur átt sér stað mikil vakning á fjallaskíðun og þyrluskíðun. Okkur fannst tilvalið að halda þetta mót til að fylgja eftir áhuganum og kynna um leið fjallaskíðin fyrir áhugasömum,“ segir Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir, formaður Skíðafélags Siglufjarðar.“

Súpertröll á Tröllaskaga

Mótið, sem nefnist Super Troll Ski Race, mun fara fram 2. maí og mun allur ágóði renna til barna- og unglingastarfs Skíðafélagsins á Siglufirði. Aðspurð um heiti mótsins segir Brynja að þau vilji vera hluti af alþjóðlegum mótum af svipuðum toga og því hafi enskt heiti orðið fyrir valinu. „Troll er svo vísun í Tröllaskaga, en þar fer mótið fram. Við ákváðum svo að skella „super“ fyrir framan einfaldlega vegna þess að mörg tilkomumikil örnefni er að finna á leiðinni.“ Mótið hefst í Fljótum og er gengið frá Heljartröð yfir Siglufjarðarskarð í átt að Illviðrishnjúki, og komið niður Skarðsdal að skíðaskálanum. „Leiðin er bæði krefjandi og skemmtileg. Í fyrra var elsti keppandinn 69 ára gamall og því er ljóst að allir geta tekið þátt á eigin forsendum,“ segir Brynja.

Skíðað niður að sjó

Keppt verður í tveimur flokkum, karla og kvenna, og verða vegleg verðlaun í boði fyrir þrjú efstu sætin. „Þegar við héldum keppnina í fyrsta skipti í fyrra settum við okkur í samband við Orra Vigfússon, sem er í forsvari fyrir ferðaskrifstofuna Eleven Experience, en hún býður meðal annars upp á þyrluskíðun. Honum leist vel á keppnina og í fyrstu verðlaun var þyrluskíðunarferð og verður sami háttur hafður á í ár,“ segir Brynja. Auk þess munu Fjallakofinn og Rauðka veita verðlaun. Á Siglufirði eru kjöraðstæður fyrir þyrluskíðun. Flogið er með skíðafólk upp á fjallstopp og svo er skíðað niður fjöllin sem liggja alveg niður að sjó. „Frelsistilfinningin sem þessu fylgir er nánast ólýsanleg,“ segir Brynja. Á Facebook síðu keppninnar, Super Troll Ski Race, má nálgast nánari upplýsingar um dagskrá, keppnisleiðina, gistingu, verðlaun og fleira þegar nær dregur keppnisdegi. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netföngin [email protected] og [email protected]