Skagfirskar skemmtisögur


Hjá Bókaútgáfunni Hólum er komin út bókin Skagfirskar skemmtisögur 4 – Miklu meira fjör! Eins og nafnið gefur til kynna er hér á ferðinni 4. bindið með gamansögum úr Skagafirði og sem fyrr var það blaðamaðurinn og Skagfirðingurinn Björn Jóhann Björnsson sem safnaði sögunum saman. Bókunum hefur verið vel tekið um land allt og samanlagt eru sögurnar orðnar hátt í eitt þúsund talsins.

Að þessu sinni eru enn fleiri sögur af Lýtingum, Fljótamönnum, Króksurum og Blöndhlíðingum, sem og Skagamönnum, Seylhreppingum, Hofsósingum og Hjaltdælingum. Skagfirskum valkyrjum eru gerð sérstök skil. Má þar nefna Gullu í Gröf, Helgu á Silfrastöðum, Helgu Bjarna frá Frostastöðum, Diddu í Litlu-Brekku, Ásu Öfjörð og margar fleiri. Hilmir Jóhannesson, lífskúnstner á Sauðárkróki, lætur gamminn geisa. Einnig koma við sögu söng- og spéfuglinn Óskar Pétursson frá Álftagerði, þýðandinn Helgi Hálfdanar, vörubílstjórarnir Maron Sig og Árni á Brúnastöðum, ostameistarinn Haukur Páls, kaupmaðurinn Bjarni Har, bankastjórinn Biggi Rafns, hrossaræktandinn Dúddi á Skörðugili, rektorinn Villi Egils og oddvitinn Agnar á Miklabæ.

Skopteikning á bókarkápu er líkt og áður eftir Andrés Andrésson. Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum og stórmörkuðum landsins og að sjálfsögðu í heimabyggð.

Hér fyrir neðan er örlítið sýnishorn:

Hjörtur Laxdal, rakari á Króknum forðum daga, hafði einhverju sinni verið á fylleríi og við bættust þeir Sigfús Sigurðsson, pabbi Sigga í Vík, og Arnór Sigurðsson sýslumannssonur. Svo fór að þeir urðu uppiskroppa með veigarnar og fengu bílfar til Akureyrar til að bæta þar úr. Gistu þeir á Hótel KEA og eftir dágóða skemmtun var Hjörtur orðinn þreyttur og lítt skemmtilegur að mati félaga hans, orðinn skítugur og órakaður þannig að þeir ákváðu að stinga hann af. Tóku þeir sér far með strandferðaskipinu Drangi, sem gekk þá á milli hafna norðanlands.

Síðan vaknaði Hjörtur á hótelinu og fór að spyrja um félaga sína. Var honum sagt að þeir hefðu farið með skipinu. Hjörtur leit á klukkuna og sá að hann næði kannski í skottið á þeim. Hljóp hann niður á bryggju en þá var Drangur nýlega farinn. Hjörtur gáði í kringum sig og sá sjóflugvél við höfnina að taka kost um borð. Kannaði hann málið og þá var þetta flugvél sem var við síldarleit úti fyrir Siglufirði og Fljótum. Hjörtur var alltaf ráðagóður og spurði áhöfnina hvort hann gæti fengið flugfar til Siglufjarðar. Reyndist það auðsótt mál.

Þegar vélin hafði lent við höfnina á Siglufirði fór Hjörtur í land og bankaði uppá hjá kunningjafólki sínu, frú Halldóru og Jóhannesi, yfirlögregluþjóni á Siglufirði, en Halldóra var dóttir Jóns Björnssonar og Finneyjar Reginbaldsdóttur á Sauðárkróki. Halldóra tók vel á móti Hirti; sendi hann í bað, lét hann hafa hrein föt og kom honum síðan upp í rúm. Áður en Hjörtur lagðist til svefns tók hann skýrt fram við Halldóru að hann yrði að vera kominn á ról áður en Drangur legðist að bryggju.

Eftir góðan lúr vaknaði Hjörtur endurnærður, nánast bláedrú, og klæddi sig upp. Halldóra lét hann hafa barðastóran hatt og glerfínn arkaði hann niður á bryggju. Stóð Laxdal við landganginn á Drangi, tók niður hattinn og hneigði sig þegar hann sá drykkjufélaga sína:

„Góðan daginn, drengir, velkomnir til Siglufjarðar!“

Litu Fúsi og Arnór undrandi hvor á annan, hugsuðu báðir það sama, að nú væri líklega rétt að hætta gleðskapnum fyrst þeir væru farnir að sjá ofsjónir!
Mynd og texti: Aðsent.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]