Sjö ára veiðigarpur nældi í lax í Hólsá


Tinna Elísa Guðmundsdóttir, sjö ára gömul Siglufjarðarmær, búandi að Hvanneyrarbraut 52, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur hvað veiðimennsku áhrærir, heldur vindur sér beint í eðalfiskinn. Ekki þó í Haffjarðará eða Blöndu eða öðrum slíkum.

Nei, Hólsá var það. Fyrr í dag.

Óhætt er að segja að þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar laxarnir sem hafa veiðst þar, hafi það þá einhvern tíma gerst áður.

?Þetta byrjaði nú eiginlega þannig,″ segir Guðmundur Ólafur Einarsson, faðir stúlkunnar, ?að við fórum inn að Hólsá í gær og sáum krakka vera að veiða þar og þá segir hún að sig langi að fara að veiða. Ég sagði henni að það væri ekki til neinn maðkur og því ekki hægt að standa í neinu slíku brasi. Það væri alveg vonlaust.

En hún gaf sig ekki og um kvöldið var farið út í garð heima að leita. Um tíuleytið var enginn maðkur sýnilegur og þá fór sú stutta inn volandi. Ég ákvað að bíða fram að miðnætti og tókst þá að finna um 30 maðka.

Svo fórum við upp úr hádegi í dag inneftir. Við prófuðum fyrst við stífluna og ég fékk eina bleikju þar, og eitthvað svipað var eftir því sem neðar dró, einhverjir tittir. En þegar við komum niður að röri segi ég við hana: ?Jæja, nú sestu hérna og ferð að veiða.″ Og hún var meira en til í það.

Hún byrjaði með flugu og flotholt og það voru svona smáhögg á það. Þá spyr hún hvort það sé ekki betra að vera með maðk. Jú, jú, ég segi henni að það sé ekkert mál að skipta, og græja það. Svo hendi ég út fyrir hana og fer að huga að stönginni minni, að gera hana klára, og er ekkert að fylgjast með stelpunni. Þá sé ég allt í einu útundan mér að hún er farin að draga inn og segi henni að vera ekki að því, heldur bíða og fylgjast með, enda sá ég fram á að þurfa að vera síkastandi út í fyrir hana ef svo færi fram sem horfði.″

?Já, en það er fiskur á,″ segir hún þá.

Og viti menn, hún landaði þarna 3 punda laxi, nýgengnum og grálúsugum. Þetta er jafnframt fyrsti fiskurinn sem hún veiðir um ævina. Ekki amalegt það.

Geri aðrir betur.

Þegar feðginin komu heim hljóp dóttirin beinustu leið til Rögnu móður sinnar og hrópaði: ?Mamma, mamma, ég veiddi síld.″

?Ha?,″ svaraði Ragna, brosandi. ?Nei, það getur ekki verið.″

?Eh, nei, ég meina lax,″ sagði þá Tinna.

?Nei, það getur ekki heldur verið,″ svaraði móðirin, og átti engan veginn von á því sem fyrir augu bar. En það fór ekkert á milli mála.

Guðmundur kveðst munu flaka bráðina og gera klára á grillið, því þetta sé einmitt uppáhalds matfiskur dótturinnar.

Og þegar fréttamaður er búinn að hrósa aflaklónni í hástert og ljósmynda með aflann í fanginu spyr hann hvort hún sé búin að ákveða hvað hún ætli að verða þegar þú verði stór.

Og svarið lætur ekki á sér standa: ?Já, veiðikona.″

Veiðigarpurinn með bráðina, 3 punda nýgenginn lax.

Þetta er föngulegasti gripur.

Og svo önnur mynd af aflaklónni og Maríufiskinum hennar.

Nú mega hinir fara að vara sig.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is