Sírópskakan sígilda


Ef eitthvert brauð má heita siglfirskt er það án nokkurs vafa sírópskakan góða. Hún er búin að vera lengi á boðstólum hér og er alltaf klassísk, hvort sem er með hvunndagskaffinu, í litlum eða stærri afmælisveislum eða þá erfidrykkjum.  

En hvaðan skyldi hún vera upprunnin?

Jú, að öllum líkindum frá Danmörku, því Óli Hertervig bakari, sem fæddur var á Akureyri og lærði bakariðn hjá Axel Schiöth þar í bæ, fór síðan til Kaupmannahafnar og var þar í framhaldsnámi veturinn 1920-1921.

Hertervigsfjölskyldan flutti til Siglufjarðar árið 1926, og því er líklegt að um það leyti hafi sírópskakan farið að gleðja bragðlauka þeirra sem hér voru. Axel Schiöth átti bakaríið þegar Hertervig kemur hingað, en hinn kaupir það árið eftir af honum.

Að sögn Önnu Láru Hertervig, sem nú er 87 ára og er dóttir Óla, man hún vel eftir sírópskökunni frá því hún var lítil, var hún afskaplega vinsæl, og hún kveðst hafa hitt fólk síðar á ævinni sem tjáði henni að sjómenn hefðu farið með heilu kassana heim af vertíðum, einn sem hún vissi af t.d. alla leið til Grundarfjarðar.

Ingimar Þorláksson, sem lengi var bakari í Kaupfélagsbakaríinu, segir að þetta brauð hafi verið komið á markaðinn þegar hann var í námi hjá Hertervig. Og var alla tíð mjög eftirsótt, ásamt KS-kökunum, sem líka voru mjúkar.

Jakob Kárason, sem nú rekur Aðalbakarí, lærði einmitt hjá Ingimari. Hann segist einungis hafa gefið vini sínum, þeim sem er með Bæjarbakaríið í Hafnarfirði, uppskriftina, en sá hafi gefist upp á að reyna að baka kökuna. Ástæðuna segir Jakob vera þá, að erfitt sé að eiga við deigið út af hinu mikla sírópi sem er í því, það vilji slitna mikið í sundur þegar verið sé að rúlla það út og það þurfti svolítið lag við þetta, en svo lærist það með tímanum.

Hún er alveg sér á parti, í raun engu lík, og oftar en ekki eru pantaðir af henni stórir farmar til burtfluttra Siglfirðinga, auk þess sem hér er neytt.

Hérna fæst hún …

þessi elska …

sem meistari Jakob einn bakar nú um stundir.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is