Sinawikkonur gera bolluvendi


Konur í Sinawikklúbbnum á Siglufirði hittust í húsnæði Iðjunar á Siglufirði í vikunni, þar sem þær bjuggu til 60 bolluvendi í tilefni bolludagsins, sem er jú á mánudaginn kemur, 7. mars.

Þetta er árlegur viðburður hjá þeim og hafa þær staðið í þessu síðan 1975 en þá voru búnir til allt upp í 160 bolluvendir á ári.

Þær tóku við af Kvenfélagi Sjúkrahússins, sem hafði verið með bolluvandagerð á árum áður. Kristine Þorsteinsson, kona Ólafs Þorsteinssonar læknis á Siglufirði til fjölda ára, kenndi þeim handbragðið við gerð vandanna í byrjun.

Þær hafa hugsað sér að halda þessu áfram og vonandi aldrei að hætta þó að gróðinn sé enginn. En ánægjan við að hittast og halda í þessa hefð er þess virði.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is