Síldarstúlkurnar komnar heim


„Konur í síldarvinnu“, hið stóra og þekkta málverk Gunnlaugs Blöndal listmálara, var við formlega athöfn í Bátahúsinu í gærkvöldi afhent Síldarminjasafninu að gjöf. Gefandi er Íslandsbanki. Málverkið hefur verið eitt af kennileitum á Siglufirði í hátt í 70 ár, hefur prýtt húsakynni Útvegsbankans, síðar Íslandsbanka, og síðast Sparisjóðs Siglufjarðar. Það er nú í Síldarminjasafninu en til stendur að setja það upp í endurnýjuðu Salthúsi á Siglufirði á næsta ári.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, flutti stutt ávarp og því næst fóru Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs, og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, yfir sögu myndarinnar og þýðingu hennar fyrir heimamenn. Birna Einarsdóttir sagði m.a.: „Myndin af síldarstúlkum Gunnlaugs Blöndal er einstök mynd vegna þess að hún sýnir mikilvægi kvenna í samfélaginu á þeim tíma þegar mikið gekk á í bænum. Myndin hefur verið sýnd víða um heim og við getum verið stolt af því að síldarstúlkurnar hafi ferðast um heiminn og hlotið verðskuldaða athygli. Með þessari gjöf okkar til Síldarminjasafnsins erum við glöð að færa síldarstúlkurnar aftur til Siglufjarðar, það sem þær eiga heima.“ Og Illugi Gunnarsson sagði: „Mynd Gunnlaugs Blöndal skipar sess í huga fjölmargra Siglfirðinga. Það er einkar ánægjulegt að Íslandsbanki sýni þann stórhug og skilning sem birtist í þeirri ákvörðun að afhenda Síldarminjasafninu myndina til eignar. Þar með er myndin komin heim og mun gleðja alla þá sem gera sér ferð á safnið. Ég vil því þakka stjórnendum Íslandsbanka og þá einkum Birnu Einarsdóttur fyrir þessa ákvörðun og jafnframt óska Síldarminjasafninu til hamingju með myndina.“

Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins, tók á móti listaverkinu.

Fyrir þá lesendur sem ekki vita málaði Gunnlaugur Blöndal einnig altaristöflu Siglufjarðarkirkju.

Í grein sem birtist hér á vefnum 19. nóvember 2010, sagði Jónas Ragnarsson m.a.:

Hinn 1. júlí 1938 var opnað útibú Útvegsbanka Íslands í húsi Péturs Björnssonar kaupmanns á Siglufirði. Níu árum síðar, í júní 1947, var útibúið flutt í nýtt hús, Útvegsbankahúsið. Er hús þetta glæsilegasta bygging bæjarins, stendur við Aðalgötu í miðbænum, sagði í Degi. Málverkið „Konur í síldarvinnu“ eftir Gunnlaug Blöndal setti mikinn svip á afgreiðslusal bankans í marga áratugi. Það er 160×210 sentimetrar og talið málað 1935-1940. Síldarstúlkurnar eru fimm og töldu margir sig þekkja fyrirmyndirnar, en erfitt er að fullyrða nokkuð um það hverjar þær voru.

Hafliði Helgason starfaði við útibúið frá ársbyrjun 1939 til 1977, lengst af sem útibússtjóri. Í minningargrein um Hafliða kom fram að á fjórða áratugnum hafi hann verið daglegur gestur í húsi Ólafar frænku sinnar og Sophusar, bróður Gunnlaugs Blöndal. Hann hlýtur því að hafa hitt listmálarann oft.

Sigurður, sonur Hafliða, sem síðar var útibússtjóri, telur að málverkið hafa verið keypt um það leyti sem flutt var í nýja húsið og hefur heyrt að þurft hafi sérstakt leyfi til kaupanna frá Ásgeiri Ásgeirssyni bankastjóra, sem síðar varð forseti Íslands.

Síldarstúlkur voru oftar viðfangsefni Gunnlaugs. Ein slík mynd er frá árinu 1934, stúlka með tvær síldar á diski, „Síldarstúlka“, 85×75 sentimetrar. Þegar þessi mynd var á yfirlitssýningu nokkrum árum síðar var hún sögð hugþekk. „Yfir stúlkunni er sjarmi þar sem hún stendur í síldargallanum með sjávarseltu í hárinu og dreymin augu,“ sagði þá í Morgunblaðinu.

Á sýningu í Reykjavík haustið 1941 var málverk frá því ári af þremur stúlkum við síldarsöltun, með fjöllin austan Siglufjarðar í baksýn „Síldarstúlkur“, 125×150 sentimetrar. Sennilega hefur þetta sama verk verið í vinning um vorið í happdrætti stúdenta til ágóða fyrir Sumargjöf.

Björn Th. Björnsson listfræðingur var hrifinn af þessum myndum. „Síldarstúlkur Blöndals gætu … ofur hæglega leyst af sér svunturnar og gengið beint inn á Café Royal í París,“ sagði hann í ritinu Íslensk myndlist.

Sjá líka frétt á heimasíðu Síldarminjasafnsins í dag.

Myndir: Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Aðsendur / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]