Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri: Aðventuhugleiðing


Ágæti söfnuður, góðir kirkjugestir.

Það er undarleg tilfinning fyrir mig að standa hér og ræða um málefni sem á að snerta sérhvert ykkar á einhvern hátt og á sama tíma leggja áherslu á mál sem geta bætt samverustundir mínar við t.d. mína nánustu. Að fá ykkur til að íhuga stað og stund og aðventuna sérstaklega – þennan mikilvæga tíma sem nú fer í hönd.

Mér yngra fólk spyr gjarnan fyrir hvað aðventan standi, þessi trúartími sem ber með sér annarskonar umgjörð og andblæ. Tími, sem gjörbreytir í raun venjubundnum erilsömum degi í andhverfu sína með kyrrð en birtist einnig í mikilli ljósaveislu í umhverfi okkar og hefur ávallt í för með sér ljúfara mannlíf.

Í raun snýst þessi tími ef til vill um meginkjarnann í tilveru okkar, sem við tökumst á við frá vöggu til grafar. Eflaust á sjálfskoðun að vega þungt í þroska sérhvers manns og er í raun það mikilvægasta og dýrmætasta sem við íbúar, feður og mæður, börn og unglingar ættum að keppa að. Við finnum svo vel á þessum árstíma að tilvera okkar byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum sem koma sterkt fram í trúarskoðunum okkar og birtast jafnan í trausti og umburðarlyndi en með þeim gildum eignumst við sálarró í þeim ólgusjó sem við göngum öll í gegnum á lífsleiðinni.

Það er trú mín að meðvitað og ómeðvitað séum við að undirbúa okkur fyrir erfiðari tíma með því að byggja og rækta okkar eigið öryggisnet. Við ræktum vinahópinn og eflum fjölskylduböndin sem síðan umvefja okkur hvert og eitt í kærleika og vinarþeli á erfiðum stundum.

Þannig kemur þessi tími, þ.e. aðventan, mér fyrir sjónir, við stöldrum við í vinahópi og hugleiðum okkar eigin tilgang, þá vegferð sem við erum á og þann veruleika sem við búum við.

En, góðir kirkjugestir, ég vil skoða betur með ykkur hvað orðið aðventa stendur fyrir í mínum huga og hvað verður að vera til staðar í umhverfinu til að ég nái þeirri slökun, þeirri ró og kyrrð sem fylgir þessum tíma friðar og vellíðunar.

Orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini, sem þýða ?koma Drottins? og hefst aðventan á 4. sunnudegi fyrir jóladag. Aðventukransinn byggir á evrópskri hefð. Hið sígræna greni táknar lífið sem er í Kristi og hringurinn táknar eilífðina. Fyrsta kertið nefnist Spádómakertið og minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins sem höfðu sagt fyrir um komu frelsarans. Annað kertið nefnist Betlehemskertið. Þar er athyglinni beint að þorpinu sem Jesús fæddist í. Þriðja kertið nefnist Hirðakertið en snauðum og ómenntuðum fjárhirðum voru sögð tíðindin á undan öllum öðrum. Fjórða kertið nefnist síðan Englakertið og minnir okkur á þá sem báru mannheimi fregnirnar. 


Aðventukransinn er talinn eiga uppruna í Þýskalandi og kom fyrst fram á fyrri hluta 19. aldar en varð algengur í Danmörku eftir 1940. Frá Danmörku barst þessi siður til Íslands. Í fyrstu var aðventukransinn aðallega notaður til skreytinga en á milli 1960 og 1970 fór hann að tíðkast á íslenskum heimilum og er nú orðinn ómissandi hluti þessarar árstíðar að mati okkar flestra.


Fyrir rúmlega 40 árum orti norski rithöfundurinn Sigurd Muri (1927-1999) ljóð um aðventukertin fjögur en Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fyrrverandi kennari og safnvörður í Reykjavík þýddi ljóðið sem á íslensku ber heitið ?Við kveikjum einu kerti á? og er einn þekktasti aðventusálmur Íslendinga fyrr og síðar. Hann byrjar þannig.

Við kveikjum einu kerti á.


Hans koma nálgast fer


sem fyrstu jól í jötu lá


og Jesúbarnið er.


En um aðventukertin er líka til þýsk saga, er ber heitið ?Fjögur kerti?. Höfundur hennar er ókunnur en þýðinguna á íslensku gerði Pétur Björgvin Þorsteinsson. Sagan er á þessa leið:

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kertin tala saman.


Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: ?Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!? Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.


Annað kertið flökti og sagði: ?Ég heiti Trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér.? Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til og ljósið slokknaði.


Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: ?Ég heiti Kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda.? Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.


Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: ?Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur.? Þá svaraði fjórða kertið: ?Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti Von.?

Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: ?Nú geta jólin komið í alvöru.?

Þessi frásögn birtist sem hugvekja í Morgunblaðinu sunnudaginn 30. nóvember 2003 undir heitinu ?Fjögur kerti?. Frásögnin kallar fram hjá börnum sterkan friðarvilja og trú og hjá þeim eldri kærleika og von sem við þurfum öll á að halda um þessar mundir. Slíkar frásagnir og boðskapur trúarinnar kallar okkur m.a. hingað í þetta fagra hús, kirkjuna á Siglufirði, á hátíðarstundum eða til að leita huggunar þegar erfiðleikar skekja okkur og við hugleiðum vanda líðandi stundar. Hingað komum við til að eiga okkar stund, förum með bænir og biðjum fyrir okkar nánustu. Við erum hér í dag til að njóta þess tíma sem aðventan minnir á og sem er umgjörð um allt hið góða í samskiptum manna.

Ég las um daginn bók sem fjallar um tólf reglur fyrir heilann og er ætlað til lestrar og umhugsunar í skólum og á heimilum. Bókin er samin af John Medina sem er sameindalíffræðingur og prófessor í líffræði við Háskólann í Wasington.

Hann er jafnframt forstöðumaður rannsóknarseturs um nám og huga. Við skulum forvitnast um hvað hann hefur að segja okkur um lífið – okkar möguleika til þróunar og þroska, m.a. fyrir heilastarfsemina.

Þó margt í þróunarsögu mannkyns sé óljóst, segir hann, þá eru mannfræðingar sammála um að forfeður okkar voru á stöðugri hreyfingu. Þegar regnskógar létu undan síga neyddust forfeður okkar til þess að fara út á gresjuna í leit að mat. Í stað þess að klífa tré, gengu þeir um gresjur Afríku. ?Karlar ættu að ganga 10 til 20 kílómetra á dag og konur helming þeirrar vegalengdar,? segir Richard Wrangham, annar kunnur mannfræðingur því að mannsheilinn þróaðist og þroskaðist þegar við vorum á göngu eða á mikilli hreyfingu.                                                          

Homo sapiens – hinn viti borni maður – gerði einmitt þetta þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið í Afríku fyrir um 100 þúsund árum.

Forfeður okkar unnu ótrúleg afrek. Þeir tókust á við óblíð náttúruöfl og öfluga óvini en maðurinn óx hinsvegar úr grasi í afar góðu líkamlegu ástandi.

Heili mannsins – öflugasta ?tæki? sem fram hefur komið á jörðinni – þróaðist og þroskaðist við hreyfingu. Mannkynið tók út sinn þroska á faraldsfæti. Er ekki rökrétt að álykta að hið fornkveðna eigi enn við: Að hreyfing sé allra meina bót, en þráseta leiði til hrörnunar?

Það er því skoðun Medina að hreyfing sé sælgæti fyrir heilafrumurnar. Þegar við horfum til íþróttakappa bendir hann á golfarinn Ben Hogan er hafði unnið bandaríska PGA mótið og verið útnefndur besti golfleikari ársins þegar hann ásamt konu sinni lenti í skelfilegu bílslysi. Þau lentu í hörðum árekstri við strætisvagn á köldu vetrarkvöldi í niðaþoku laust eftir áramótin.

Við áreksturinn brotnaði hvert einasta bein sem einhverju skiptir fyrir golfspilara: Viðbein, ökklabein, rifbein og mjaðmagrind. Ben Hogan fékk einnig lífshættulegan blóðtappa. Læknar óttuðust að hann gæti ekki gengið framar, hvað þá leikið golf. Ellefu mánuðum eftir slysið vann hann US Open golfmótið. Þremur árum síðar vann hann fimm af sex stórmótum sem hann tók þátt í – þar af þrjá stórtitla. Löngu síðar þegar hann ræddi um endurkomu sína sagði hann: ?Fólk einblíndi á veikleika mína fremur en styrkleika.?

Hugaraflið var til staðar þó að líkaminn væri ekki burðugur eftir slysið. Hreyfingin hafði styrkt andlega heilsu hans svo um munaði þegar hann tókst síðar á við sína líkamlegu erfiðleika.

Siðmenningin hefur fremur dapurlegar aukaverkanir þó hún hafi fært okkur margt gott. Hvort, sem við erum í námi eða vinnu, þá höfum við hætt að hreyfa okkur líkt og forfeður okkar gerðu um árþúsundir. Hreyfingin styrkir ónæmiskerfið og vinnur gegn niðurbrjótandi áhrifum streitu. Hreyfing og hollt mataræði er sem töfrasproti og við náum öll betri árangri með því að stunda líkamlega hreyfingu.

Þessi litla saga kemur heim og saman við þá lífssýn sem ég sagði ykkur frá hér áðan. Við byggjum upp öryggisnet til að takast á við erfiðari tíma síðar ef á þarf að halda.

Nú eru áramótin að nálgast. Fjallabyggð er komin í sinn jólabúning. Eftirvæntingin vex með hverjum degi sem líður hjá börnum og unglingum.

Við hjónin erum að læra inn á nýjar hefðir í vestur- og austurbænum en kveikt var á jólatrjánum síðastliðinn laugardag í Fjallabyggð. Við erum hér á nýjum stað og tökum þátt í lífsbaráttu íbúa, jólahaldi og aðventu sem er ríkari af atburðum og margbreytilegum samkomum en við eigum að venjast. Börnin okkar eru hinsvegar að takast á við sína tilveru – sitt líf, fjarri okkur og því er ekki að leyna að aðventan hefur annan blæ í dag en áður í okkar huga.

Fjallabyggð nýtur þess að eiga frábæra listamenn á öllum sviðum og kórastarf er öflugt. Nú þegar hef ég fengið þá ánægju að sækja heim félög og félagasamtök en ég á margt ógert í þeim efnum.

Ég má til með að taka það fram að, af mínum stuttum kynnum, þá dáist ég að kennurum bæjarfélagsins. Þessi stétt hefur staðið vaktina með bæjarfélaginu sínu og hafa þeir og foreldrar tekið öllum breytingum í starfsemi og rekstri skólanna af mikilli þolinmæði. Hið sama gildir um börn og unglinga þeir eiga ekki síður hrós skilið.

Þegar Héðinsfjarðargöngin voru tekin í notkun styttist vegalengdin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar úr 62 km um Lágheiði og úr 232 km um Öxnadals-heiði að vetrarlagi í 17 kílómetra. Göngin opna leið á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar og auka þannig samgönguöryggi á Norðurlandi öllu.

Í mati á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganga voru færð fyrir því rök að göngin muni styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem vaxtarsvæði og þar með verða mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Með göngunum varð til samfellt atvinnusvæði frá Grenivík til Siglufjarðar með ríflega 20 þúsund íbúum.

Það er trú okkar að þessi breyting muni leiða til fjölbreyttari starfa, hærri launa, og lægra vöruverðs hér í Fjallabyggð. Hér mun væntanlega byggjast upp fjölbreyttari verslun og önnur þjónusta. Fyrirtæki munu ef til vill sameinast auk þess sem margvísleg ný tækifæri verða til í ferðaþjónustu á Norðurlandi öllu og eru umsvif Rauðku hér á Siglufirði talandi dæmi fyrir djörfung og faglega nálgun í þeim efnum.

Ólafsfjörður og Siglufjörður er sameinað sveitarfélag og ber með réttu hið fallega nafn Fjallabyggð. Héðinsfjarðargöng hafa nú þegar haft umtalsverð áhrif á samfélagið og til lengri tíma litið er gert ráð fyrir því að samgöngubæturnar muni hafa í för með sér margvíslegar breytingar á samfélagi okkar hvað varðar menningu og lífshætti.

Það er von mín að þær breytingar muni auka skilning á áhrifum stórframkvæmda í vegagerð og þar með rekstri byggðarkjarna sem geta sameinast til að gera gott umhverfi og gott mannlíf betra.

Ætlunin er að Fjallabyggð standi í fararbroddi með sinn sameiginlega rekstur og þar með undir þeim væntingum sem íbúarnir óskuðu eftir við sameiningu. Lífsgæði annarra svæða munu og án nokkurs efa taka mið af okkar reynslu í samrekstri sveitarfélaga á komandi árum.

Ágæti söfnuður og góðir kirkjugestir. Ég ræddi hér áðan um þýsku söguna um kertin fjögur á aðventukransinum en þau voru tákn friðar, trúar, kærleika og vonar. Það er von mín að þessi samverustund sé ykkur eins mikilvæg og hún er fyrir okkur hjónin, enda er umgjörðin öll hér í dag til mikillar fyrirmyndar.

Það er ekki á hverjum degi sem framkvæmdastjóri bæjarfélags fær að ræða málin án þess að styðjast við tölur eða taka til umfjöllunar rekstur eða vandamál hins daglega lífs. Hér hef ég leyft mér að láta hugann reika um allt og ekkert en þó með þá einlægu von að bæjarfélagið Fjallabyggð megi þroskast og takast á við verkefni sín fyrir bæjarbúa í skjóli hárra fjalla á Tröllaskaga.

Lifum í friði með trú að leiðarljósi og með kærleika í hjarta og þá einlægu von að jólin, áramótin og ekki síst, að nýtt ár verði íbúum Fjallabyggðar til blessunar.

Njótum aðventunnar – góðar stundir, ágæti söfnuður og gestir.

Sigurður Valur Ásbjarnarson.

Mynd: www.xd.is

Texti: Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri Fjallabyggðar | sigurdur@fjallabyggd.is 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is