Sigurður Ægisson: Hinsta sjóferð Elliða


Það að vera togarasjómaður við Íslandsstrendur á fyrrihluta 20. aldar og upp úr henni miðri var ekkert sældarlíf, heldur óþrjótandi barátta við náttúruöflin, sem enga vægð eða miskunn sýndu, frekar en áður. Mætti nefna Halaveðrið sem dæmi, í febrúar árið 1925, þar sem fjöldi togara út af Vestfjörðum lenti í hörðum átökum við Ægi konung og dætur hans og hin myrku veðuröfl, og biðu sumir þar lægri hlut. Margar frásagnir eru til af hetjulegri baráttu sjómannanna okkar í álíka aðstæðum, þar sem allt ætlaði undan að láta, og vonin um að komast í land sýndist harla lítil og veik. En oftar en ekki tókst þeim með óbilandi dugnaði og æðruleysi að hafa sigur; þó ekki alltaf fullan. 

Siglufjörður fór ekki varhluta af þessari miklu sögu. Elliðaslysið, fyrir 49 árum, ber m.a. vitni um það. Og eins og Halaveðrið áðurnefnt, gerðist þetta í köldum febrúarmánuði.

Hér verður reynt að endursegja þá sögu eftir fréttum í dagblöðum þess tíma, sem og bókum, með þeim fyrirvara, að heimildum ber ekki saman í öllum atriðum. Einkum eru tímasetningar dálítið á reiki. Í þeim tilvikum læt ég frásagnir úr sjóprófunum ráða.

Forsagan

Forsaga málsins er sú, að eftir síðari heimsstyrjöld þótti mikil nauðsyn á endurnýjun atvinnuveganna á Íslandi. Ríkisstjórnin sem þá tók við fékk brátt heitið Nýsköpunarstjórnin, eftir helsta viðfangsefni sínu. Eitt af ráðum hennar til lausnar vandans fólst í því að kaupa nýja togara frá Bretlandi, og hljóðaði fyrsta pöntun upp á 30 skip; þetta var árið 1945. Ári síðar var tveimur bætt við, og auk þessa keyptu einstaklingar fjóra aðra, án milligöngu stjórnvalda. Fyrsti ?nýsköpunartogarinn?, Ingólfur Arnarson RE 201, kom til landsins 17. febrúar 1947, og síðan komu hinir einn af öðrum. Af þessum stóru og nútískulegu skipum fór það orð, að þau gætu ekki sokkið. Annað átti þó eftir að koma í ljós.

Elliði SI 1 var byggður í skipasmíðastöð Cochrane & Sons í borginni Selby í Yorkshire á Englandi, skammt frá Hull, árið 1947, og kom til eiganda síns, Bæjarútgerðar Siglufjarðar, 19. október það ár. Hann var gerður úr stáli, alls 645 brúttólestir og í hann sett 1.000 hestafla Triple Compression gufuvél.

     

Stormur, rok, fárviðri

Þessi glæsilegi botnvörpungur lagði í sína hinstu för miðvikudaginn 7. febrúar 1962, kl. 19.00, úr höfn í Siglufirði, og var ferðinni heitið vestur á bóginn, á miðin. Um borð voru 90 tonn af ís og 140 tonn af brennsluolíu. Áhöfnin 28 menn, flestir siglfirskir; ásamt hundinum Bob og dóttur hans, Elly, á fjórða ári.

Að morgni laugardagsins 10. febrúar var nánast enginn afli kominn í skipið, enda búið að vera leiðindaveður. Elliði er þá á sunnanverðu Látragrunni eða Breiðafjarðarfláka, á hægri ferð. Í bréfi til mín, 10. maí 2003, ritar Trausti Jónsson veðurfræðingur: ?Þennan umrædda dag var dæmigert útsynningsillviðri. Mjög hvasst var á sjó, sérstaklega undan suðvestanverðu landinu, en heldur skárra við Vestfirði. Í svona veðrum er oft mun hvassara til sjávarins en inni í landi. Gengur þá á með éljahryðjum til sjós og lands og oftast er mjög vont sjólag […] Trúlega hafa verið 9 til 11 vindstig […], haugasjór með brotum og skyggni takmarkað.?

Um kl. 10.00 var togaranum snúið upp í veðrið; hann var þá 15-25 sjómílur út af Öndverðarnesi. Þannig var lónað til 16.20, þá var ætlunin að snúa undan. En þegar Elliði var hálfnaður í snúningnum og lá flatur í vindinn, reið yfir mikill sjór bakborðsmegin og lagði hann djúpt á stjórnborðssíðuna. Þannig lá hann í um 10 mínútur. Þá tókst loks að snúa honum upp í veðrið aftur og rétti hann sig þá fljótlega. En Kristjáni Rögnvaldssyni skipstjóra fannst togarinn þó ekki haga sér eðlilega og bað mann um að fara niður og athuga hvort sjór hefði komist í fiskilest. Reyndist svo vera, og jókst hann óðfluga.

Kristján skipstjóri lét dæla olíu á milli tanka, í von um að ná að rétta togarann með því við, og á næstu mínútum hallaðist skipið ýmist á bak- eða stjórnborða. Í ljós hafði komið í millitíðinni, að sjórinn flæddi inn um ?ganneringu? í afturlestinni, uppi undir dekki stjórnborðsmegin, og var talið útilokað að komast þangað til viðgerða. Hér mætti skjóta því inn, að síðasti túr Elliða, áður en umrædd frásögn gerist, hafði verið sigling til Englands. Á heimleiðinni frá Grimsby var stífur mótvindur, eða ?kolvitlaust veður beint í stefnið?, eins og Jón Rögnvaldsson, 1. matsveinn, orðar það. Er hald manna, að þá hafi eitthvað byrjað að láta undan um miðbik skipsins. Á nokkrum systurtogara Elliða var búið að setja þykkar járnplötur utan á síðuna, rétt framan við spilið, einmitt þar sem talið er, að Elliði hafi þarna rifnað.

En aftur að slysdeginum. Fengu menn nú skipun um að fara í björgunarbelti og hafa alla þrjá gúmbátana tilbúna á einum stað. Þetta voru einn 12-manna RDF-bátur í trefjahylki og tveir Eliotbátar í töskum og rimlakössum, annar 12-manna og hinn 20-manna. Að auki voru þarna tveir björgunarbátar út tré, en útilokað var að koma þeim við eins og málum var þá háttað. Kristján bað menn sína þó um að losa festingarnar á bátnum stjórnborðsmegin í þeirri von að hann myndi fljóta upp, ef Elliði sykki.

Og þegar ljóst varð, að ekki yrði mögulegt að gera við lekann, var ákveðið að senda út neyðarkall í talstöð og loftskeytatækjum skipsins. Þetta var kl. 17.30.

Um kl. 18.15 lagðist Elliði á bakborðssíðuna og rétti sig ekki eftir það.

Júpiter RE 161 kemur til bjargar

Laust fyrir klukkan 19.00 slitnaði annar gúmbáturinn, sem uppblásinn lá þá við skipið, og hvarf út í myrkrið. Um það og næstu atvik segir í bókinni Þrautgóðir á raunastund, 15. bindi:

?Mun þá fát hafa gripið einhverja skipverja og einn þeirra, Egill Steingrímsson háseti, stökk út í gúmmíbátinn sem enn var bundinn við skipið. Félagi hans, Hólmar Frímannsson hugðist fylgja honum eftir, en féll í sjóinn. Tókst honum þó strax að komast upp í gúmmíbátinn. Munu fleiri skipverjar hafa ætlað að fylgja þeim eftir, en áður en til þess kom slitnaði báturinn frá og hvarf á samri stundu. Nokkrum mínútum eftir að þetta gerðist fékk togarinn á sig nokkurn sjó og losnaði þá korkfleki sem skorðaður hafði verið undir björgunarbátnum. Var fleki þessi aðeins einn faðmur á lengd og um hálfur á breidd og var sporöskjulagaður. Þegar flekinn fór í sjóinn stökk einn skipverja, Guðmundur Ragnarsson, út á flekann og fylgdi Páll Jónsson honum eftir. Þegar þeir komu niður á flekann fór botninn úr honum. Tveir aðrir skipverjar, Sigurður Jónsson, sem var yngsti maðurinn um borð, aðeins 15 ára, og Ólafur Matthíasson, ætluðu að stökkva á flekann, en þeir sem komnir voru á hann kölluðu að hann væri botnlaus og hættu þeir þá við. Hvarf flekinn svo frá skipinu […].?

Hér má nefna, að skipstjórnarmenn fréttu ekki af mönnunum í gúmbátnum og á korkflekanum fyrr en eftir á.

Áfram segir í Þrautgóðir á raunastund: ?Var nú […] aðeins einn gúmbátur eftir um borð í Elliða og varla um annað að gera fyrir mennina en að reyna að þrauka sem lengst um borð í skipinu í þeirri von að hjálp bærist. Höfðu þá borist fréttir um að Júpiter hefði fengið vitneskju um neyðarástandið um borð í Elliða og væri á leiðinni og einnig var vitað að bátar frá Sandi, Ólafsvík og Grundarfirði væru lagðir af stað áleiðis á slysstaðinn. Þegar fréttist af því að gúmbátarnir hefðu slitnað frá og að korkfleki með tveimur mönnum væri einnig á reki var ákveðið að bátarnir hæfu skipulega leit að þeim, þar sem líklegt þótti að Júpiter kæmi langt á undan þeim á vettvang.?

Þegar klukkan var 20.20 tilkynnti Júpiter, að hann sæi Elliða í ratsjá, og giskaði á að hann ætti um 5 sjómílur ófarnar að honum. Skömmu áður björguðust mennirnir tveir á korkflekanum aftur um borð í Elliða, og þótti kraftaverki líkast, ef tekið er mið af veðurofsanum og öllum kringumstæðum þarna. Meðan björgunarskipið nálgaðist jafnt og þétt, skutu Elliðamenn upp neyðarblysum, alls um 20, til að leiðbeina því frekar á staðinn.

Um kl. 21.00 birtist Júpiter út úr sortanum, og varð mönnum þar ljóst, að björgun mátti ekki dragast, því Elliði hallaðist mjög og virtist að því kominn að sökkva. Eins og áður er nefnt höfðu tveir gúmbátanna slitnað frá, og þegar nú grípa átti til hins þriðja reyndist hann ónothæfur; önnur þrýstiflaskan af tveimur var ónýt og hann náði ekki að þenjast út nema til hálfs og varla það, og hefði ekki borið nema 2 eða 3 menn.

Mátti ekki tæpara standa

Um kl. 21.20 var Júpiter beðinn um að koma nær og senda gúmbjörgunarbát yfir í Elliða. Í því skyni var ákveðið að freista þess, að skjóta línu frá Elliða yfir í hinn togarann og draga bátinn síðan yfir. Aðstæður til þessa voru allt annað en góðar, 9-11 vindstig, stormur, rok eða ofsaveður, eins og áður er getið, og um 150 metra vegalengd, en Kristján skipstjóri hitti þó í mark í fyrstu atrennu. Var gúmbátur Júpiters nú blásinn upp í skyndi og festur við línuna. Og það var ekki fyrr en að hann var lagður af stað yfir í Elliða, að loftskeytamaðurinn þar um borð yfirgaf tæki sín og kvaddi, eftir dygga og óttalausa stöðu í hinum erfiðu aðstæðum.

Þegar menn áttuðu sig á, að þriðji gúmbáturinn myndi ekki blása sig út að fullu, hvarflaði að einhverjum þeirra að synda yfir í Júpiter, enda ljóst, að Elliði héldist ekki á floti nema örfáar mínútur í viðbót. Vel gekk hinsvegar að draga björgunarbátinn yfir að hinu sökkvandi fleyi og gaf Kristján mönnunum þá skipun um að fara í hann, sem þeir og gerðu. Upphaflega hafði verið ráðgert að skipta hópnum, enda gúmbáturinn einungis 20-manna, en vegna hinna tvísýnu aðstæðna var ákveðið að allir færu í hann samtímis. Þegar Kristján skipstjóri yfirgaf togarann síðastur manna, gekk hann á láréttri síðunni.

Gúmbátinn bar aftur með Elliða, og virtist um tíma að hann myndi lenda undir skrúfu togarans, en bátsmaður gat með naumindum forðað því. Og þegar draga átti svo bátinn yfir í Júpiter, vildi það óhapp til, að dráttarlínan flæktist í skrúfublaði Elliða, og náðist ekki að losa hana. Urðu skipverjar þá að skera á línuna og rak bátinn við það hægt frá skipsflakinu. Á sama tíma dældi Júpiter olíu í sjóinn til að lægja öldurnar, og virtist það bera nokkurn árangur.

Um 5 mínútum eftir að áhöfnin yfirgaf skipið, hvarf það í djúpið og áttuðu menn sig nú á því, að líklega hefði enginn af Elliðamönnum verið til frásagnar, ef línuskot Kristjáns yfir í Júpiter hefði geigað. Í Morgunblaðinu, 13. febrúar 1942, segir t.d. orðrétt um þetta atriði: ?Blaðið aflaði sér upplýsinga hjá kunnugum mönnum um meðferð línubyssa. Var okkur sagt að erfitt væri að miða þessum byssum nákvæmlega, enda geti veðurstaða breytt stefnunni. Oftast er fyrsta skotið notað til reynslu til þess að kanna hvernig vindurinn ber línuna.?

Um kl. 22.40 var gúmbáturinn lagstur upp að síðunni á Júpiter, og  kl. 23.08 voru skipverjarnir 26 komnir um borð þangað, flestir nokkuð vel á sig komnir, nema helst þeir tveir, sem lent höfðu á korkflekanum.

Mannanna tveggja leitað

Eftir þetta hóf Júpiter leit að gúmbátnum með skipverjunum tveimur. Þá voru alls 16 bátar frá Snæfellsnesi á leið á vettvang, ásamt varðskipinu Óðni, strandferðaskipinu Esju og flutningaskipinu Jökulfelli.

Skömmu eftir kl. 02.00 um nóttina, sunnudaginn 11. febrúar, rakst Óðinn á einn gúmbátanna af Elliða, en hann var mannlaus. Þetta var um 8,5 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi. Var leitin nú hert á þeim slóðum, en ekkert meira fannst þar um nóttina.

Um morguninn var leitarskipunum raðað upp og haft það stutt á milli, að útilokað var að þau sigldu fram hjá gúmbátnum, ef hann væri á floti. Um kl. 08.30 lögðu TF Rán, flugvél Landhelgisgæslunnar, og björgunarflugvél frá Keflavíkurflugvelli, af Neptun-gerð, ásamt 10 manna áhöfn, af stað til leitar. Kl. 11.00 tilkynnti bandaríska vélin, að hún sæi eitthvert brak á sjónum. Óðinn var þar nærstaddur og fann brotinn trébát og korkfleka. Var talið líklegt að þarna væri um að ræða stjórnborðsbjörgunarbátinn af Elliða. Engin tök voru á því að ná honum um borð í varðskipið og því ákveðið að sigla hann niður, til þess að fyrirbyggja að hann yrði til skaða öðrum bátum. Á þessum slóðum fann Óðinn einnig gúmbjörgunarbát á reki, mannlausan, og kom í ljós að hann var sömuleiðis úr Elliða.

Um hádegisbilið fann bandaríska leitarvélin svo hinn þriðja, um 15 sjómílur vestnorðvestur af Öndverðarnesi, en þá voru 17 tímar liðnir frá því að hann slitnaði frá Elliða. Vélbátinn Skarðsvík frá Rifshöfn bar þar fyrstan að. Í ljós kom þá, að mennirnir voru báðir látnir. Gúmbáturinn var rifinn allur og tættur að ofan og fullur af sjó. Þetta var tilkynnt Óðni og í framhaldi af því ákveðið að varðskipið kæmi og tæki líkin um borð. Því var lokið um kl. 12.30.

Júpiter hélt til Reykjavíkur með skipbrotsmennina og tók þar höfn um kl. 23.00 mánudaginn 12. febrúar. Þótti björgunin ævintýri líkust, sem hún jú var. Og í raun enn eitt dæmið um sigur mannsins yfir óblíðum náttúruöflunum. En þó ekki fullkominn, því miður.

Þeir Egill Steingrímsson og Hólmar Frímannsson voru öllum harmdauði. Útför þeirra, sem gerð var frá Siglufjarðarkirkju 20. febrúar, mun hafa verið sú langfjölmennasta hér í bæ frá upphafi og þurftu margir að standa fyrir utan. Skipsfélagar þeirra af Elliða báru líkkisturnar í kirkju og stóðu um þær heiðursvörð í útfararathöfninni.

Í hnotskurn. Fengið úr Sjómannablaðinu Víkingi, 3. tbl. 2005.

Elliði SI 1 við Öldubrjótinn.

Veðurkort 10. febrúar 1962.

Málverk Sigurðar Konráðssonar af slysinu og björguninni.

Slysstaðurinn.

Forsíða Morgunblaðsins 11. febrúar 1962.

Hluti áhafnar. Siglfirðingarnir eru allir á myndinni nema Steingrímur Njálsson.

Egill Steingrímsson og Hólmar Frímannsson voru jarðsungnir frá Siglufjarðarkirkju 20. febrúar

og var jarðarförin sú langfjölmennasta sem þar hafði farið fram og þurftu margir að standa fyrir utan.

Skipsfélagar þeirra af Elliða báru líkkisturnar í kirkju og stóðu um þær heiðursvörð í útfararathöfninni.


Áhöfn Elliða umræddan dag 1962.

[Greinin hefur áður birst á prenti í
tvígang – í Hellunni og Sjómannablaðinu Víkingi – í fullri lengd. Hér er
ívið styttri útgáfa hennar, uppfærð.]

Mynd af Elliða við Öldubrjótinn: Hinrik Andrésson.

Mynd af málverki Sigurðar Konráðssonar: Sigurður Ægisson.

Mynd af áhöfn og frá útförinni: Hannes P. Baldvinsson.

Kort af slysstaðnum: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

Veðurkort: Trausti Jónsson veðurfræðingur útvegaði.

Áhöfn Elliða 1962: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is