Sigurður Ægisson: Heilagur Valentínus


Valentínusardagurinn, sem nú er runninn upp, 14. febrúar, er tekinn að festa rætur á Íslandi. Á bak við nafnið er kaþólskur dýrlingur, a.m.k. einn og e.t.v. fleiri.

Sagt er, að hin lengsta ferð byrji á einu litlu skrefi og það er eins núna. En enginn veit hvenær það var nákvæmlega stigið. Að líkindum þó á 3. öld e. Kr.

Hitt er öllu verra, að um einhvern þriggja einstaklinga kann að vera að ræða, sem allir hétu Valentínus. Sá fyrsti var prestur og læknir í Róm, annar biskup í Interamna á Ítalíu, sem nú heitir Terni, og hinn þriðji bjó í skattlandi Rómverja í Afríku. Allir eiga að hafa dáið fyrir trú sína, einhvern tíma á árunum 260?280. Þó eru fræðimenn nú að hallast að því, að líklega hafi maðurinn verið einn og hinn sami í öllum tilvika.

Ekkert er vitað um fæðingardag hans eða -ár. Og nafn hans kemur ekki fyrir í elsta dýrlingatali rómversk-kaþólsku kirkjunnar, frá 354. En árið 496 lýsti Gelasius I. páfi því yfir, að eftirleiðis skyldi heilags Valentínusar minnst 14. febrúar ár hvert, þ.e.a.s. daginn sem hann var líflátinn.

Sumir vilja meina, að þarna hafi kirkjan verið að reyna að útrýma ákveðinni frjósemishátíð úr heiðni, tengdri gyðjunni Juno Februata. Hafi svo verið, en nokkuð ljóst að ekki dugði að nota bitlaust vopn; eitthvað sérstakt hefur orðið til þess, að umræddur prestur eða biskup valdist til starfans.

Og víst er, að ýmsar helgisagnir taka á þessu. Ein er sú, að keisarinn hafi séð að einhleypir karlar væru betri dátar en giftir og því bannað hjónavígslur ungra manna. Valentínusi fannst þetta mikið óréttlæti og ákvað að gefa fólk saman á laun. Þegar upp komst fékk hann dauðadóm. Önnur saga hermir, að Valentínus hafi orðið ástfanginn af dóttur fangelsisstjórans Asteriusar á meðan hann beið aftökunnar og hafi skrifað henni ástarbréf rétt áður.

Og margar fleiri eru til.

Það er samt ekki fyrr en á miðöldum, að heimildir fara að verða skýrari hvað þetta allt varðar, einkum á Englandi og í Frakklandi. Er þá farið að tengja daginn við að fuglar byrja um það leyti að para sig. E.t.v. er það bara hrein og klár viðbót, til enn frekari styrkingar.

Fyrsta ritaða kveðja sem vitað er um á Valentínusardegi (ef litið er fram hjá áðurnefndri sögn úr dýflissunni) var skrifuð í öðru fangelsi, Tower of London, árið 1415. Það var svo um miðbik 17. aldar að siðurinn komst á í Evrópu meðal almennings. Um 100 árum síðar er það orðin venja að skiptast á gjöfum og fyrstu prentuðu Valentínusarkortin koma svo á markað í lok 18. aldar. Á okkar tímum eru send um 1 milljarður árlega um heim allan; til samanburðar er fjöldi jólakorta um 2,6 milljarðar ár hvert.

Valentínus á að hafa verið lagður til hvíldar meðfram Via Flaminia, skammt frá Róm, og tvær kirkjur byggðar þar síðar til minningar um hann, önnur á miðri 4. öld (Sancti Valentini extra Portam) en hin á 10. öld (Sancti Valentini de Balneo Miccine eða de Piscina).

Árið 1835 eða 1836 voru helgir dómar sem fundust í katakombum hjá Via Tiburtina greindar sem tilheyrandi Valentínusi, og fluttir til Dublin á Írlandi, með leyfi Gregoríusar páfa XVI. Ferðamenn sækja mikið þangað til guðsþjónustu á Valentínusardag, sem helguð er ungmennum og öllum þeim öðrum sem ástin hefur gripið. Einnig eru líkamsleifar téðs dýrlings sagðar vera í Roquemaure í Frakklandi, í Stephansdom í Vín í Austurríki, í Balzan á Möltu og í kirkju heilags og blessaðs John Duns Scotus í Glasgow í Skotlandi. Og víðar.

Við endurnýjun dagatals rómversku kirkjunnar árið 1969 var messudagur heilags Valentínusar lagður af, en er þó haldinn enn meðal þeirra sem fylgja hinu eldra.

Rétttrúnaðarkirkjan minnist hans 6. júlí.

Breskir landnemar munu hafa flutt þessa hefð yfir til Bandaríkjanna, þar sem dagurinn er sennilegast hvað vinsælastur um þessar mundir, en einnig þykir hann ómissandi á Bretlandseyjum, í Kanada og Ástralíu, sem og í Frakklandi og Mexíkó. Í upphafi 21. aldar eru hefðbundnar gjafir fólks í millum sælgæti og blóm, einkum dreyrrauðar rósir.

Einkennileg tilviljun er það að einungis um viku eða svo á undan Valentínusardegi árið 2007 skyldi finnast gröf á Ítalíu með tveimur einstaklingum – pilti og stúlku – í faðmlögum. Slíkt er víst einsdæmi, segja fornleifafræðingar. Talið er að svona hafi þau legið í 5.000 til 6.000 ár. Og ekki skemmir fyrir, að borgin Mantova, þar sem beinagrindurnar fundust, er aðeins um 40 kílómetra suður af Verona, þar sem frægustu elskendur allra tíma, Rómeó og Júlía, áttu upphaf sitt.

Svona getur prédikun lífsins verið stórkostleg.

Valentínusardagurinn er 14. febrúar.

Beinagrindurnar sem fundust árið 2007,

skömmu fyrir Valentínusardag.

[Áður birt í Morgunblaðinu 18. febrúar 2007.]

Myndir: Fengnar af Netinu.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is