Gústi Guðsmaður


Guðmundur Ágúst Gíslason kom í þennan heim 29. ágúst árið 1897. Foreldri hans voru bæði Dýrfirðingar, Sveinbjörg Kristjánsdóttir, 33 ára, ættuð úr Hvammi í Þingeyrarhreppi, skammt fyrir innan kauptúnið, og Gísli Björnsson, þá 36 ára, fæddur á Botni í Mýrahreppi. Þau höfðu gengið í hjónaband 14. október 1886, en þegar hér er komið eru þau tekin við búsforráðum á arfleifð hennar. Og þar fæðist drengurinn.

Dýrafjörður um aldamótin 1900.

 

Hann var níundi í röð 10 alsystkina. Hin voru Kristján, fæddur 11. nóvember 1887, dáinn 20. maí 1963, Sigurður, fæddur 29. mars 1889, dáinn 12. mars 1982, Bjarni Kristján, fæddur 20. nóvember 1890, dáinn 12. júlí 1891, Bjarnfríður Kristjana, fædd 30. október 1891, dáin 13. desember 1914, Sigríður, fædd 10. nóvember 1892, dáin 24. apríl 1893, Björn, fæddur 27. febrúar 1894, dáinn 24. apríl 1894, Sigríður fædd 13. júní 1895, dáin 17. október 1896, Ágústa fædd 7. ágúst 1896, dáin 19. október 1896, Sveinbjörg fædd 15. maí 1899, dáin 29. maí 1899.

Fyrir átti Gísli Björnsson eina dóttur, Guðrúnu, með Elísabetu Pálsdóttur frá Þernuvík. Hún var fædd 12. október 1883, dáin 3. janúar 1946.

Guðmundur Ágúst er skírður 13. september 1897. Guðfeðgin eru Kristján Jónsson, faðir móðurinnar, Kristjana Guðmundsdóttir, bóndakona í Hvammi, og síðan „heimafólk“.

Hinn 31. desember 1897 er Guðmundur Ágúst með lögheimili í Neðsta-Hvammi, á 1. ári, og 31. desember 1898 1 árs, á 2. býli, Neðsta-Hvammi. Árið 1899 er hann skráður undir burtviknum, og sagður farinn í Hnífsdal. Þá var móðir hans dáin, hafði látist af barnsförum 19. maí það ár, 35 ára að aldri og er hann kominn í fóstur til Jóns Pálssonar, skipherra frá Dynjanda í Arnarfirði, og konu hans, Símoníu Oddnýjar Kristjánsdóttur frá Hvammi í Dýrafirði en Sveinbjörg og hún voru systur. Þau Jón og Símonía voru náskyld, „bæði barnabörn Símonar Sigurðssonar á Dynjanda, hins harðgerða atorkumanns og sægarps í upphafi nýrrar sóknar Íslendinga í sjávarútvegi og siglingum“ eins og lesa má á einum stað. Þau höfðu flutt búferlum til Hnífsdals árið 1895, frá Álftamýri í Arnarfirði, og eru 31. desember 1899 skráð þar í sóknarmannatali, búandi í Hnífsdal neðri, en Guðmundur Ágúst er þar ekki fyrr en 31. desember 1900, sem „tökubarn, 3“, reyndar skrifaður þar „Ásgeir“ að millinafni. Árið 1901 eru þau öll í Heimabæ; Jón sagður húsbóndi, skipstjóri og útvegsbóndi, 42 ára. Guðmundur Ágúst Gíslason skráður „ættingi, 4 ára“. Í Húsvitjunarbók Eyrarprestakalls í Skutulsfirði er hann þá skráður „Guðmundur Gíslason, tökubarn“. Eins er með árin 1902 og 1903. En árið 1904 er hann „Ágúst Gíslason, tökubarn“ (allt til ársins 1909).

Hnífsdalur um 1890, litlu áður en Gústi flytur þangað.

 

Ekki er vitað hvers vegna fósturforeldrar Gústa ákváðu að setjast að þarna frekar en annars staðar. Kannski var ástæðan sú, að fýsilegt þótti að leita sér atvinnu þar sem útgerð var mikil, þegar sveitirnar gátu ekki tekið við ört vaxandi mannfjölda í landinu. Enda Jón sjómaður frá 12 ára aldri, og ekki miklu eldri orðinn stýrimaður við hákarlaveiðar. Og ekki verra, að plássið hafði gott orð á sér. Þorvaldur Thoroddsen hafði sumarið 1887 verið þar á ferð og ritað í kjölfarið: „Skammt fyrir utan Ísafjörð er dalverpið Hnífsdalur. Þar er útræði mikið og snoturt fiskiþorp, eitt hið laglegasta á Íslandi.“

Gústi 2-3 ára gamall. Með honum eru uppeldissystur hans; vinstra megin er Þorbjörg og hægra megin Sigríður.

 

Áratug fyrr, 1877, höfðu 40 bátar verið gerðir út í Eyrarhreppi, meiri hluti þeirra úr Hnífsdal og Arnardal. Frá 9. áratug 19. aldar hafa engar tölur um þetta varðveist, en ein heimild getur þess, að um 1879 hafi að meðaltali gengið nær 40 skip úr Hnífsdal og Seljadal. Árið 1900 er bátaeign í hreppnum 44, og þar af eru 4 tveggjamannaför, 16 fjögramannaför og 14 sexæringar.

Árið 1905 er fjölskyldan komin inn í Ísafjarðarkaupstað, að Brunngötu 21, e.t.v. sökum framannefnds. Íbúatalan er þar komin í 1441 og stígur hratt.

Jón Pálsson og kona hans, Símonía Oddný Kristjánsdóttir, ásamt börnum sínum: Kristjáni, Sigríði og Þorbjörgu. Gústi er fyrir miðju, 5-6 ára gamall.

 

Árið 1910 er í kirkjubókum farið að skrifa piltinn Guðmund Gíslason, allt til ársins 1917, þá er hann „Guðmundur Ágúst Gíslason, fóstursonur“.

Ísafjarðarkaupstaður í kringum 1910, en Gústi flytur þangað úr Hnífsdal með fósturfjölskyldu sinni árið 1905.

 

Árið 1913 er farið að titla hann „v.m.“, sem líklega merkir vinnumaður (frekar en verkamaður), og er það svo til og með árinu 1919, en árið 1920 er hann orðinn „sjómaður“, 23 ára gamall. Breytingar á sjávarútvegi hafa þá orðið miklar á ekki nema 15 árum; 20% landsmanna eiga afkomu sína undir fiskveiðum, seglskip eru 39, vélbátar yfir 12 smálestir eru 120, togarar 28, önnur gufuskip 2, vélbátar smærri en 12 smálestir 355 og róðrarbátar 1002. Af þessu eru á Ísafirði (og í Hnífsdal) 8 skútur, 20 vélbátar og eitthvað af minni förum. Með þetta í huga, og ef litið er til uppruna Gústa, þótt ekki væri lengra en til langafa hans, Símonar á Dynjanda í Arnarfirði, sem “var sá atgervismaður, að þjóðsagan hefur leikið við minningu hans“, „fyrstur Íslendinga, er tóku fullkomið skipstjórapróf og fyrstur Íslendingur, er stýrði skipi á milli landa á seinni öldum, […] æfður sela- og hvalaskutlari, íþróttamaður og hraustmenni, sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna“ og einnig til fósturföðurins, er ekki að undra, að Gústi hafi valið umræddan starfa. Þetta var með öðrum orðum í blóði hans og að auki fyrir augum dagsdaglega.

Í september 1918 hafði Gústi raunar farið í sex vikna nám í „smábátaskólanum“ á Ísafirði. Varðveist hefur brot úr dagbók hans, þar sem hann ræðir í nokkrum orðum um ævi sína frá 1908 til 1924. Þar segir hann m.a. um næstu vikur og ár:

Þá á eftir prófið réðist ég háseti á M/K „Bifröst“ og var Egill Jóhannesson skipstjórinn; og var ég þar um borð til 30. mars, ekki fiskað fyrir fæði en þar eftir fór ég til fóstra míns á M/K „Hans“ er þá hafði fólksflutninga og vöruflutninga um Breiðafjörð og var þar um 1½ mánuð um borð. Fluttum salt til lands og tókum þaðan fisk, en eftir það réðist ég háseti á Gretti er ég hafði verið tvö undanfarin sumur á. Þénustan var góð, 1800 krónur, en það var sá stóri galli á mínu skaplyndi að þetta fannst mér ekkert. Var leiður og órólegur alla daga er ég var í landi, einhver óskiljanleg þrá heltók mig og ég skildi ekki þetta, hvað það var sem svona mig lék en vantaði að líta inn í sjálfan mig og sjá það óróans ólgandi haf sem sífellt var að éta mína stillingu og rósemi og gerði mig að aumum, vesælum manni er aldrei skildi sjálfan sig eða hvað ég vildi.

Þá að vetri komanda þetta ár fór ég að sjá að svona mátti eigi ganga en ég varð að verða eitthvað meira en vél, að draga fisk úr sjó, sofa og fara að færinu og hugsa um ekkert annað en þetta. Þá heppnaðist mér gegnum Daníelsen verslunarstjóra í Sameinuðu verslununum á Ísafirði að ná mér í seglasaumsatvinnu veturinn 1920, ráðgerðist um það við fóstra minn og hann sagði það vera gott fyrir mig að gjöra þetta. Svo byrjaði vinnan. Hlaut fæði fyrstu tvo mánuðina, komst svo til 60 aura pr. tíma og seinasta manuðinn á þeim vetri 90 aura pr. tíma. Yfir þessu var ég í hæsta himni, lagði mig allan eftir að læra þetta en þann næsta vetur lærði ég ekki annað en sauma gamla dúka og lítið eitt af nýju. Svo réðist ég um sumarið sem stýrimaður til Hjartar frænda á Hvessing er þeir höfðu keypt Páll og hann frá Færeyjum; við lögðum út í apríl. Slæm var tíð fyrst framan af en svo batnaði er frá leið og fiskuðum 175 þúsund pund. Þetta er með þeim bestu tekjuárum er ég hefi lifað hér til. Hættum 15. september. Um haustið var báturinn settur á land, og ég fékk atvinnu um veturinn við seglasaum og hafði 1,50 kr um tímann, mjög góð atvinna en samt var ég ekki ánægður með þetta.

Áfram var ég þennan vetur á verkstæðinu og vorum tveir, Sigbjörn Kristjánsson og ég. Þá um veturinn var ég beðinn að vera stýrimaður á „Hvessing“ er þá var seldur til Hnífsdals til Jónasar Þorvarðssonar og Friðriks heitins Tómassonar og hýran var frítt hálfdrætti og 2. kr. pr. skpd. í stýrmandspremíu. Þetta var svo gott sem verið gat þar sem ég undanfarin ár hafði þénað dável og var ég með Friðrik heitnum það sumar en varð í land að fara vegna veikleika það sumar í ágúst. Þénustan var nálægt 3000 krónur og var svo að sjá sem ég hefði mátt í sand og ösku falla fram fyrir skaparann, með heitri þakklátsbæn fyrir þessi miklu gæði er hann lét fram við mig koma. En óróleiki var í sál minni eigi að síður, veikleiki stór og sálarsljóleiki var í mér með að skilja nokkuð til peningaviðskipta lífsins.

Nú um veturinn er ég hjá Sameinuðu við seglasaum en nú skiptist brátt minn hagur til verra því á þeim vetri bíður Björn Guðmundsson mig að vera hjá sér stýrimaður en eftir á að hyggja var ég sumarið 1921 með M/B „Barðinn“ frá Bolungarvík; þá eign Péturs Oddssonar og vorum 10 á bátnum. Kristján bróðir minn hafði ég sem stýrimann og hann mér að litlu gagni, fiskaði aðeins 80 þúsund pund, mjög óhamingjusamur og leiður og ekki gjörði betra um er ég hafði ekki meira en 900 krónur í 8 mánuði því svo mátti telja tímann frá 1. janúar 1922. 1923 um veturinn var ég hjá Birni áður umtalaða. Gekk illa fiskiríið hjá honum og vísaði hann mér frá borði af engum sökum og ég réðist til Grindavíkur á árabát. Var þar til 14. maí fyrir 300 krónur. Þá er að geta um það að frá fyrra ári í águst 16. hafði fóstri minn verið veikur af gulu er síðast hann til dauða dró 8. maí 1923. Við fráfall hans leið mér því ver en áður og gat ekki verið heima lengur. Ég kom til Ísafjarðar 16. maí og sá hann sofna sinn síðasta svefn blessunina. Guð blessi hann fyrir allt gott mér til handa og frið í gröf sinni gefi honum, eilífa dýrðarkórónu fyrir göfugleik og mannkosti og fagran lífsferil er hann lifði. Ég gat þó verið við jarðarför hans, sem ég gladdist við, og um sumarið tók ég bát er nafn hafði „Norðurljósið“ og var á því til síðasta ágúst. Ekkert heppnaðist mér að vera happasæll með bátinn því 60 þúsund pund fiskaðist fyrir tímann og menn voru óánægðir. Hýrulausir gengu flestir frá og mér leið svo illa að skammt var til ég stytti mér stundir en þó varð nú ekki af því.

Í blaðagrein 14. nóvember 1923 er Gústi sagður vera skipstjórnandi á Ísafirði, en 1. desember það ár er hann farinn eitthvert, hafði reyndar yfirgefið landið 15. september það ár, með skipinu Velaug sem þann dag sigldi með ísfirskan fisk til Spánar. Um þetta ritar hann eftirfarandi í áðurnefnda dagbók sína 4. desember 1924, þá staddur í Haugasundi í Noregi:

Í þessari ferð veiktist ég og lá lengi mjög veikur en þó var ég ekki hræddur við dauðann, ég lá í Genova en fékk enga bót, var mjög útlitsljótur, fór með skipinu til baka til Englands og var 4 vikur um borð; veikur. Það var meiri plágan, hrepptum norðan stórstorm en komumst þó til Ayr á Skotlandi og lagður var ég á land á þann hospítale. Lá þar 3 mánuði. Var skorinn upp og fleira. Eftir leguna náði ég í pláss á „D/S Modesta“ 2. febrúar [1924]. Var mjög óstyrkur en það kom brátt styrkur í mig. Þar var ég um borð 5½ mánuð, leið fremur illa; þá gekk ég á land í Drammen og varð mikið stapp með að komast þaðan burt. Ekki var ég þar lengi, fór til Kaupmannahafnar með rútubát frá Kristjaníu. Réðist í Kaupmannahöfn á M/K „Algo“ sem stýrimaður og fór á þeim bát um Noregs strönd og víðar. Til Íslands. Fór þaðan til útlanda með Mk „Premíer“. Náði í matrósstöðu út með honum. Fór af í Gautaborg. Var þar í 2 daga. Fór þaðan til Friðrikshavn. Dvaldi þar í 4 daga. Var ferðinni heitið til Kristjans S. […].

Næstu blaðsíður hafa verið rifnar úr.

Hinn 31. desember 1925 er Gústi aftur skráður á fyrrnefndu heimili á Ísafirði. Svo virðist hann fara aftur í burtu 1926, en er kominn vestur 1927. Hann er á Akureyri eða Ísafirði árið 1928, en er kominn til Siglufjarðar 1929, og er þar (að árinu 1941 undanskildu, þegar hann er enn skráður á Akureyri) a.m.k. til 1943. Þá fer hann eitthvert, er í Dýrafirði 1945 og 1946, en er aftur kominn til Siglufjarðar 1950, þar sem hann er með lögheimili til dauðadags.

Siglufjörður 1928, ári áður en Gústi flyst þangað.

 

Á Siglufirði býr hann víða; árið 1929 að Grundargötu 9, árið 1930 að Miðstræti 6, árið 1931 að Grundargötu 13, árið 1932 að Eyrargötu 5, árið 1933 að Suðurgötu 20, og eins 1934 (en þá er faðir hans, Gísli Björnsson, kominn til hans og býr með honum til 1940), árið 1935 að Túngötu 10, árið 1936 og 1937 að Norðurgötu 19, árin 1938-1940 að Norðurgötu 15 (árið 1941 er hann á Akureyri, eins og áður sagði) og 1942 að Eyrargötu 7, og árið 1943 að Norðurgötu 7, í svokölluðu Herhúsi. Ekki er hann á Siglufirði árið 1944, og óljóst um fastan íverustað hans þá, en einhverjar sögur fara af honum í Vestmannaeyjum, á sjó. En árin 1945 og 1946 er hann skráður í Lækjartungu í Dýrafirði.

Gústi um borð í Sigurvin.

 

Erfitt að ráða í árin 1947-1948, og ástæðan fyrir því er að Sóknarmannatal Hvanneyrarprestakalls 1946-1950 hefur glatast einhverra hluta vegna.

Árið 1949 er Gústi staddur í Dýrafirði (sennilega í Lækjartungu, þó ekki skráður og óvíst hvar lögheimilið er þá) og Ísafirði, en kemur aftur til fastrar búsetu í Siglufjörð 1950, eins og áður en getið. Það ár býr hann að Snorragötu 19, árið 1951 að Snorragötu 7, íbúð V, og árið 1952 aftur að Snorragötu 19 og er þar áfram allt til 1. desember 1960. Þá er hann skráður að Snorragötu 3 og á lögheimili þar til 1. desember 1984, er hann flytur á Öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar, að Hvanneyrarbraut 37; þar er hann til dauðadags, 12. mars 1985.

Myndirnar af Dýrafirði, Hnífsdal, Ísafirði og Siglufirði eru úr gömlum bókum.
Fjölskyldumyndirnar: Björn Pálsson/Ljósmyndasafnið Ísafirði.
Myndina af Gústa og Sigurvin tók Þórhallur Sigurðsson leikstjóri.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]