Sigurður Ægisson: Sem lindin tær


Óhætt er að fullyrða að sumarplata ársins 2010 hafi verið Þú komst í hlaðið, með Helga Björnssyni og reiðmönnum vindanna. Mánuðum saman vermdi hún efsta sæti Tónlistans og setti víst Íslandsmet.

Alvinsælasta lag hennar var „Sem lindin tær“. Eins og margir vita er hinn góðkunni Bjarki Árnason (fæddur 3. maí 1924, dáinn 15. janúar 1984) höfundur íslenska textans og kom lagið fyrst út á 15 laga hljómplötu með Karlakórnum Vísi síðla árs 1969. Fálkinn gaf hana út. Einsöngvari í umræddu lagi var Guðmundur Ó. Þorláksson en um undirleik sáu Hljómsveit Vísis og félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það var geysivinsælt í þessum flutningi og er enn.

Um Bjarka segir á alfræðivefritinu Wikipedia:

Fæddur Þingeyingur, sjálfmenntaður harmonikkuleikari sem spilaði fyrir dansi í sinni heimasveit. Bjarki flutti til Siglufjarðar 1943 og bjó þar síðan. Hann starfaði fyrst að Hóli í Siglufirði, síðar sem byggingarmeistari og kaupmaður. Að Hóli samdi hann meðal annars „Dísir vorsins“ 1943 og „Hólasveinabrag“, sem urðu fljótt mjög vinsæl og fóru um allt land sem „húsgangar“ án þess þó að vera nokkurn tímann hljóðrituð. Bjarki var vinsæll dansspilari á síldarárunum á Siglufirði og spilaði mikið, oftast undir sínu eigin nafni, einn eða með öðrum, svo sem Þórði Kristinssyni, Sæmundi Jónssyni, Guðmundi og Þórhalli Þorlákssonum (Gautar) og fleirum. Hann var þekktur hagyrðingur og liggur eftir hann mikið magn af gamanvísum og lausavísum, margar landskunnar. Um 1963 fer Bjarki að gera texta við ýmis lög fyrir karlakórinn Vísi, til dæmis „Okkar glaða söngvamál“, „Siglufjörður“ (lag og texti) og fleiri. Guðmundur Ó. Þorláksson (Gauti) sló svo í gegn með texta Bjarka, „Sem lindin tær“, við erlent lag. Það er svo í kringum 1970 að þeir félagar Bjarki og Þórður Kristinsson leiða saman hesta sína að nýju, hefja ballspilamennsku og stofna upp úr því hljómsveitina Miðaldamenn ásamt Magnúsi Guðbrandssyni og Sturlaugi Kristjánssyni. Á þeim árum semur Bjarki marga dægurlagatexta við erlend lög, svo sem „Mónika“, „Ævisaga“, „Vilt’ ekki eiga mig?“, „Kysstu mig“, og svo framvegis.

Fleiri hafa raunar gert umræddu lagi skil. Guðrún Gunnarsdóttir söng það á geisladiskinum Minningar 3 árið 1994, Álftagerðisbræður á geisladiskinum Bræðralög 1999, og Karlakórinn Jökull í Austur-Skaftafellssýslu einnig það sama ár, á diskinum Í jöklanna skjóli, Hlöðver Sigurðsson á geisladiskinum Svona var á Sigló: skip og báta – bryggjur og plön, 2004, og svo Dúi Benediktsson á geisladiski Miðaldamanna 2007, sem hafði að geyma texta (og nokkur lög) Bjarka Árnasonar.

Þar á ofan var fyrsta upptakan endurútgefin á snældunni Hér við Íshaf árið 1988, en hún var gefin út í tilefni af 65 ára söngafmæli Karlakórsins Vísis, og svo aftur árið 2004, og þá á tveimur geisladiskum, í tilefni 80 ára afmælis hans; og svo enn árið 2008, en þá kom út safndiskurinn Svona var 1969: 16 vinsæl lög frá árinu 1969. Jafnframt lét Guðný, dóttir Guðmundar Ó. Þorlákssonar, taka saman 14 bestu lög hans og gefa út á diski 21. júní 2008 en þá hefði Guðmundur orðið 80 ára.

En hvaðan er lagið?

Jú, það er ítalskt að uppruna, eftir þá Franco Cassano og Corrado Conti og heitir ?Melodia?; textinn er eftir Gianni Argenio. Það kom fyrst út á B-hlið smáskífunnar Ricorda ricorda með ítölsku söngkonunni Isabellu Iannetti árið 1968. Textinn var svona (bein íslensk þýðing er innan hornklofa):

Canta triste la cicala
[Söngtifurinn syngur leiður]
tra i cespugli laggiú.

[inni í runnanum þarna niðurfrá.]
Scende l´ombra della sera,
[Kvöldskugginn kemur niður,]

chissá dove sei tu?

[hver veit hvar þú ert?]

Chiudo gli occhi e ti sorrido,

[Ég loka augunum og brosi til þín,]

vedo il sole che si é acceso.

[ég sé sólina sem kveiknar á.]

Lo sogno un colle verde e un cielo blu
[Mig dreymir græna hæð og bláan himin]

e da quel colle stai scendendo tu,

[og niður af þessari hæð ert þú að koma,]

tra i fiori si é aperto un sentiero

[á milli blómanna hefur opnast leið]

e tu stai correndo,

[og þú ert hlaupandi,]

corri incontro a me.

[hleypur í áttina að mér.]

Nell´aria c´é tanta poesia
[Loftið er ljóðrænt]

e la melodia

[og melódískt]

e io canto a te.

[og ég syng til þín.]

Sul mio viso brilla il sole

[Á andlit mitt skín sólin]

e una lacrima d´amore.

[og ástartár.]

Á svipuðum tíma var lagið markaðssett á spænsku með umræddri söngkonu.

Í byrjun árs 1969 kom það út á tveggja laga plötu með enskum texta eftir Roger Greenaway og Roger Cook og hét það nú „The way it used to be“; það var á A-hlið, en „A Good Thing Going“ á B-hlið. Flytjandi var breski söngvarinn Engelbert Humperdinck. En nú hafði laglínunni verið breytt nokkuð. Textinn var á þessa leið:

Lonely table just for one
in a bright and crowded room,

while the music has begun

I drink to memories in the gloom;

though the music’s still the same,

it has a bittersweet refrain.

So play the song the way it used to be,
before she left and changed it all to sadness.

And maybe if she’s passing by the window

she will hear a love song and a melody.

And even if the words are not so tender

she will always remember

the way it used to be.

Friends stop by and say hello,
and I laugh and hide the pain.

It’s quite easy ’til they go,

then the song begins again.

Sama ár kom lagið aftur út á Ítalíu, en nú með öðrum texta eftir sama höfund og áður, Gianni Argenio; nauðsynlegt var að semja nýjan vegna tilfæringanna sem Bretar höfðu gert fyrst þessi leið var farin í stað þess að endurútgefa fyrri gerðina. Flytjandi núna var Jimmy Fontana (á A-hlið var „Melodia“, á B-hlið „Amore a primavera“):

Suona, suona, melodia,
[Spilaðu, spilaðu, melódía,]

eri bella, eri mia,

[þú varst falleg, þú varst mín,]

vedo un’ombra sembri tu,

[ég sé skugga, virðist vera þú,]

quant’eri bella, non so più.

[þú varst svo falleg, ég veit ekki lengur.]

Mare grande, mare blù,

[Stóra haf, hafið bláa]

sembri piangere anche tu.

[það er eins og þú grátir líka.]

Ma quando sento questa melodia
[En þegar ég heyri þessa melódíu]

rimpianto e la tristezza vanno via,

[hverfa grátur og sorg,]

le cose de passato le cancello,

[ég þurrka út hluti úr fortíðinni,]

il mio mondo adesso

[heimurinn minn núna]

è questa melodia,

[er tessi melódía,]

i sogni del passato non li voglio,

[ég vil ekki draumana úr fortíðinni,]

ma vorrei riaverti

[en ég vildi hafa þig]

ancora quì con me.

[aftur hér hjá mér.]

Per chi suoni, melodia?
[Fyrir hvern ertu að spila, melodía?]

Eri bella, eri mia,

[Þú varst falleg, þú varst mín,]

Mare grande, mare blù,

[Stóra haf, hafið bláa,]

sembri piangere anche tu.

[það er eins og þú grátir líka.]

Í þessari mynd hefur þessi perla lifað á Ítalíu og gerir enn, en upphaflega útgáfan, með Isabellu Iannetti, týndist og gleymdist.

Um þetta leyti er Karlakórinn Vísir á Siglufirði að viða að sér efni á nýja hljómplötu og Bjarki ákveður að þýða ekki enskuna heldur gera nýjan texta. Og afraksturinn er „Sem lindin tær“. Þá var sungið:

Ó, hve gott á lítil lind,
leika frjálst um hlíð og dal,

líða áfram létt sem hind,

líta alltaf nýja mynd,

lauma kossi’ á kaldan stein,

kastast áfram tær og hrein.

Ég vildi að ég væri eins og þú
og vakað gæti bæði dag og nætur.

Þá öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú

sem aldrei bregst en hugga lætur.

Já, ef ég mætti lifa eins og lindin silfurtær

sem lög á sína undrastrengi slær.

Hvísla ljóði’ að grænni grein,
glettast ögn við lítil blóm.

Lauma kossi’ á kaldan stein,

kastast áfram tær og hrein.

Ég vildi að ég væri eins og þú
og vakað gæti bæði dag og nætur.

Þá öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú

sem aldrei bregst en hugga lætur.

Já, ef ég mætti lifa eins og lindin silfurtær

sem lög á sína undrastrengi slær.

Þetta er skrifað upp eftir hljóðupptökunni 1969. Frumtexti Bjarka Árnasonar hefur samt varðveist til þessa dags. Hann er vélritaður 5. apríl 1969 og í hann settar pennalagfæringar litlu síðar. En það merkilega er, að hann fellur ekki að laginu, hvorki fyrri eða seinni útgáfunni. Eins og hér á undan má sjá eru fyrstu erindi ítölskunnar og enskunnar sex ljóðlínur og viðlagið einnig, en íslenski frumtextinn er einungis með fjórar línur og svo aftur jafn margar í öðru erindi; viðlagið er hins vegar með sex. Líklega hefur Bjarki ort þetta eftir snögga hlustun og ekki munað allt í þaula, en textinn hefur svo verið felldur að laginu eftir prófun, í samræmi við það sem Bretar höfðu gert.

Þegar lagið kemur út í annað sinn á Íslandi, í flutningi Guðrúnar Gunnarsdóttur, hefur það verið stokkað upp, búið er að kasta sex-línu forminu en taka upp fjórar línur tvisvar, og taka svo millikaflann óbreyttan. Ástæðan er sú, að Guðrún leitaði til dætra Bjarka og fékk upprunalega textann:

Ó, hve gott á lítil lind,
leika frjáls um hlíð og dal,

líða áfram létt sem hind,

líta alltaf nýja mynd.

Hvísla ljóði að grænni grein,

glettast ögn við lítil blóm,

lauma kossi á kaldan stein,

kastast áfram tær og hrein.


Ég vildi að ég væri eins og þú

og vakað gæti bæði daga og nætur.

Þá öllu skyldi kveða óð um unað, ást og trú

sem aldrei bregst en hugga lætur.

Já, ef ég mætti lifa eins og lindin silfurtær

sem lög á sína undrastrengi slær.

Um tvær mismunandi gerðir er því að ræða upp frá þessu hér á landi. Álftagerðisbræður fylgja Vísismönnum og eins gera Hlöðver Sigurðsson og Miðaldamenn, en Karlakórinn Jökull og Helgi Björnsson taka hina stefnuna.

Bjagaður texti

Ekkert þeirra sem tekið hafa lagið upp á sína arma á Íslandi – nema e.t.v.  Guðrún Gunnarsdóttir – hefur farið alveg rétt með textann, alltaf hefur einhverju skeikað. Guðmundur Ó. Þorláksson (1969) söng t.d. „frjálst“ í annarri línu í stað „frjáls“ og hafði „dag“ í stað „daga“, þótt vissulega sé erfitt að heyra muninn og álitamál hvernig eigi með það að fara. Og að beiðni kórstjórans, Gerhards Schmidt (Geirharðs Valtýssonar), setti hann áherslublástur á „undrastrengi“, til að fá í það meiri kraft, sagði í raun „hundrastrengi“, en það virkaði í eyrum margra og þar á meðal höfundarins, við litla hrifningu eins og „hundrað strengi“. En þar eð alla hljómplötuna varð að taka upp í einu rennsli í útvarpshúsinu gamla við Skúlagötu, á þremur klukkutímum, var ekkert hægt við þessu að gera.

Sennilega er Guðrún Gunnarsdóttir (1994) með þetta allt rétt, en ekki er það samt óyggjandi, því dálítið snúið er að greina hvort sungið er „lítið“ blóm eða „lítil“ og „dag“ eða „daga“. Álftagerðisbræður (1999) eru með „lítið“ blóm í staðinn fyrir „lítil“ en syngja greinilega „daga“. Karlakórinn Jökull (1999) söng „dag“ í stað „daga“ og eins gerði Hlöðver Sigurðsson (2004); hann var jafnframt með „huggast“ í stað „hugga“ sem gjörbreytir merkingu setningarinnar. Miðaldamenn (2007) fara rangt með tvennt, syngja annars vegar „dag“ í stað „daga“ og „ öllu skyldi kveða“ í stað „Þá öllu skyldi kveða“. Og Helgi Björnsson (2010) tekur þetta hvort tveggja upp og glettist jafnframt við „lítinn fót“ í staðinn fyrir „lítil blóm“. Og er með „hundrað“ strengi.

Hinn fallegi texti Bjarka Árnasonar um lindina komst snemma bjagaður á Netið og er þar enn í ýmsum furðulegum útgáfum, eins og reyndar mörg önnur ljóð. Þar er eins og menn fari oftar en ekki af stað meira af kappi en forsjá og vandvirkni. Hinar ýmsu söngtextasíður eru besta vitnið um þetta. Og þegar nú á tímum er algengast að leita einmitt þangað að slíkum gögnum, í stað þess að fara á bókasöfn eða í aðrar hirslur, sem kannski ekki er vitað hvar nákvæmlega finnast, er ekki nema eðlilegt að slysin verði.

Það fylgdi textablað hljómplötunni með Karlakórnum Vísi á sínum tíma. Og textinn var þar réttur. Engum hugkvæmdist samt að leita það uppi, að því er best verður séð.

Til að koma í veg fyrir að svona gerist er bráðnauðsynlegt að koma upp einhverri miðstöð þar sem hægt er að fá vottaða söngtexta, uppáskrif og stimpil um að þeir séu villulausir, eitthvað svipað og Íslensk tónverkamiðstöð, ITM, hefur verið að gera síðan 1968. Fyrir það mætti greiða einhverja tiltekna upphæð. Slíkt mætti líka gjarnan ná yfir sálma og annan kveðskap. Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Tónlist.is, málræktarsvið stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og fleiri aðilar gætu tekið höndum saman um þetta. Eða einhverjir aðrir riðið á vaðið.

Alla vega er ljóst að núverandi fyrirkomulag er vonlaust, býður upp á pytti sem auðvelt er að detta í en verra úr að komast, eins og dæmin sanna.

Fleiri þjóðir

Þetta lag hefur gripið fleiri en Ítali, Breta og Íslendinga, því eins og nefnt var hér að framan kom það einnig út á spænsku 1968. Og reyndar er ekki langt síðan að Jimmy Fontana söng lagið aftur á ítölsku og gaf út.

Og hér eru tvö sýnishorn úr Finnlandi, annars vegar með söngkonunni Tarja Lunnas og hins vegar söngvaranum Fredi. Og eitt að lokum úr Tyrklandi, með söngkonunni Tülay German.

Höfundur þakkar Brynhildi Bjarkadóttur, Hannesi P. Baldvinssyni, Jónasi Ragnarssyni, Kristínu Bjarkadóttur, Leone Tinganelli og Steinunni Magnúsdóttur fyrir veitta aðstoð.

 

Plötuumslag Isabellu Iannetti 1968, þegar lagið „Melodia“ kom fyrst út.

 

Þegar Engelbert Humperdinck söng lagið árið 1969 hafði því verið breytt allnokkuð.

Á ensku nefndist það „The way it used to be“.

Ítalski söngvarinn Jimmy Fontana tók upp ensku útgáfuna 1969 með nýjum texta.

Bjarki Árnason.

Og hér er svo frumtextinn.

 

 

Myndir: Fengnar héðan og þaðan.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is