Siglunesviti


Árið 1908 var byggður viti á Siglunesi eftir sömu teikningu og Dalatangaviti …

Á hinn 6,5 m háa Siglunesvita var sett danskt ljóshús og 500 mm katadíoptrísk snúningslinsa úr gamla vitanum á Reykjanesi ásamt lóðatækjum til að snúa henni og steinolíulampi. Árið 1926 voru látin gasljóstæki í vitann og knúði gasþrýstingur linsuna í hringi. Vitinn var rafvæddur árið 1961 og fékk straum frá ljósavélum allt fram til ársins 1992 að sólarrafstöðvar voru settar á vitann og vindrafstöð ári síðar. Gamla snúningslinsan var fjarlægð við sólarrafvæðingu og í stað hennar sett snúningslinsa úr plasti en hún var tekin árið 1995 og föst 300 mm plastlinsa látin í hennar stað. Snúningslinsan er höfð til sýnis hjá Siglingastofnun Íslands í Kópavogi. Siglunesviti var í upphafi hvítur að lit, með rauðri rönd ofarlega á veggjum, en var síðar meir málaður gulur.

Íbúðarhús fyrir vitavörð var byggt við vitann árið 1911. Húsið, sem var steinsteyptur kjallari og bárujárnsklædd hæð með risþaki, hefur verið rifið. Fastri búsetu vitavarðar á Siglunesi var hætt árið 1992.

Fyrir áhugasöm er svo ítarefni hér, eftir Örlyg Kristfinnsson.

Siglunesviti

Landtökuviti í eigu og umsjón Siglingastofnunar Íslands.
Staðsetning: 66°11,6’ n.br., 18°49,3’ v.lgd.
Ljóseinkenni: Fl W 7,5 s.
Sjónarlengd: 12 sjómílur.
Ljóshæð yfir sjávarmáli: 51 m.
Vitahæð: 9,7 m.
Byggingarár: 1908.
Byggingarefni: Steinsteypa.
Hönnuður: Thorvald Krabbe verkfræðingur.

Vitaverðir

Þórður Þórðarson, fæddur 18.05. 1869, starfstími 1908-1923
Þórður Bjarnason, fæddur 29.10. 1879, starfstími 1923-1928
Grímur Hálfdanarson Snædal, fæddur 17.05. 1878, starfstími 1928-1942
Jón Þórðarson, fæddur 10.12. 1910, starfstími 1942-1958
Erlendur Magnússon, fæddur 21.10. 1930, starfstími 1958-1968
Einar Ásgrímsson, fæddur 29.05. 1904, starfstími 1968-1978
Stefán Einarsson, fæddur 14.01. 1948, starfstími 1978-?

[Orðréttur kafli úr bókinni Vitar á Íslandi. Höfundar eru Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, og útgefandi Siglingastofnun Íslands, Kópavogi, 2002. Endurbirt hér með leyfi.]

Nýrri mynd af Siglunesvita: Sigurður Ægisson | sae@sae.is
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is