Siglufjörður sögusvið nýrrar spennusögu


Aldraður maður lætur lífið með voveiflegum hætti að vetri til á Siglufirði. Þetta gerist í nýrri spennusögu eftir Ragnar Jónasson, sem kemur út í haust hjá bókaforlaginu Veröld. Lítið annað hefur verið upplýst um efni bókarinnar, en áhugasömum bókaunnendum gefst hins vegar kostur á að heyra lesið úr bókinni á Síldarævintýrinu. Verður þetta í fyrsta sinn sem lesið er upp úr bókinni opinberlega og fer upplesturinn fram á Þjóðlagasetrinu föstudaginn 30. júlí kl. 17.00.

Fyrir einu ári kom fyrsta bók Ragnars út, ?Fölsk nóta?, sem fékk meðal annars þær umsagnir að um væri að ræða ?magnað byrjendaverk? (Bjarni Harðarson, bóksali í ritdómi á vef sínum) og að bókin væri ?enn eitt dæmið um þá fjölbreyttu möguleika sem búa í glæpasögunni? (Úlfhildur Dagsdóttir í ritdómi á vefnum Bókmenntir.is). Ragnar hefur auk þess fengist við þýðingar og þýtt fjórtán skáldsögur Agöthu Christie yfir á íslensku.

Ragnar á ættir að rekja til Siglufjarðar og hefur dvalið þar reglulega frá unga aldri, en faðir hans er Siglfirðingurinn Jónas Ragnarsson ritstjóri, sonur Guðrúnar Reykdal og Þ. Ragnars Jónassonar fræðimanns og fyrrum bæjargjaldkera.

Ragnar Jónasson rithöfundur í kvöldbirtu við Þjóðlagasetrið á Siglufirði.

Mynd: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is