Siglufjörður kominn á kortið


Kortið á ljósmyndinni hér fyrir ofan hangir uppi á töflu í Listasafni Íslands, á svæði þar sem ungum listamönnum gefst færi á að tjá sig með list. Listakonan unga heitir Lea og er frá Minnesota (þar sem margir norrænir Vesturfarar settust að, m.a. Íslendingar). Hún hefur teiknað kortið 19. ágúst síðastliðinn til að koma því til skila hvaða staði fjölskyldan hefði heimsótt fyrstu átta dagana í fríinu.

Þarna eru þekktir ferðamannastaðir eins og Þingvellir, Gullfoss og Snæfellsnes. Þegar komið var norður fyrir heiðar lá leiðin að Hvítserk við Húnaflóa (sem hún kallar tröll) og þaðan til Siglufjarðar. Þar hefur greinilega verið einhvers konar fjallganga á dagskrá því að einkunnin sem gefin er er „Best hike“. Síðan voru skoðaðir hvalir á Eyjafirði og Skjálfanda og komið við hjá Mývatni og gengið um Dimmuborgir (Rock Castles).

Það er því óhætt að segja að Siglufjörður sé kominn á kortið, að minnsta kosti hjá sumum ferðamönnum.

Mynd og texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]