Siglufjörður er tromp


„Nýja hótelið á Siglufirði er aðstandendum og yfirvöldum til sóma. Fellur alveg að mannvirkjum, sem fyrir eru í miðbænum. Lágreist eins og gömlu húsin, einfalt og látlaust eins og þau. Passar við skemmur og vinnslustöðvar. Allt önnur Ella en tilsvarandi hótel í Reykjavík, sem lýsa frati á umhverfi sitt. Siglufjörður er orðinn eitt mesta aðdráttarafl landsins, skemmtilegri en Akureyri, sem býður sundurtætt Hafnarstræti. Á Siglufirði er það allur pakkinn, söfn, kaffihús, matarhús og hótelið. Eftir dýrð Siglufjarðar er óneitanlega dapurlegt að keyra gegnum Ólafsfjörð og Dalvík á hæsta löglega hraða. Þar stoppar mann ekki neitt.“ Þetta ritaði Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, á bloggsíðu sinni í gær.

Og á Facebooksíðu Hallgríms Helgasonar rithöfundar mátti lesa eftirfarandi hugleiðingar 29. júlí síðastliðinn:

„Eyddum gærdeginum á Sigló þar sem sonurinn var bókaður í rótaravinnu fyrir Sirkus Ísland, en varð þó frá að hverfa þar sem Eimskip var tíu tímum of seint með gámana (svona fer stundum þegar „stórfyrirtæki“ þurfa að þjónusta listamenn…). Í staðinn tókum við löns á nýja stóra kaffihúsinu sem er svo stórborgarlega bissý að elstu konur finna fyrir síldaráragalsa í nára, versluðum heklunálar og tjörueyði í SR-búðinni (þar sem „ekki til“ er ekki til) og fengum svo kaffi og veitingar í boði Steinunnar María Sveinsdóttur og co á Síldarminjasafninu, sem við skoðuðum síðan í 14nda sinn (þetta safn er hægt að skoða 124um sinnum). Í vélasalnum er ný sýning um rafmagnsþáttinn, virkjunina í Fljótum og rafalana í verksmiðjunum. Þetta er alltaf allt jafn magnað. Örlygur sýndi okkur líka Salthúsið gamla nýja sem nú rís, nýjustu viðbót safnsins, ævafornt síberíubitahús sem upphaflega var reist af Rússakeisara við þarlent íshaf en rak síðan á fjörur Tálknfirðinga hvar það stóð fram á miðja tuttugustu öld, þegar það flutti sig yfir til Akureyrar, þar sem nútíminn tók það í sundur og lét liggja nokkra áratugi. Í fyrrasumar sigldi það síðan 8 tíma stím á gömlum innrásarpramma út Eyjafjörð og inn Siglufjörð, þar sem það rís nú óðum. Merkilegt hvað timburbitar endast. Handan götunnar er svo Hótel Sigló fullrisið og komið í notkun. Eftir tvöfaldan Chicago-borgara á Olís-stöðinni (sárabætur sonarins fyrir vinnumissi) röltum við inn á hótelið nýja og fengum að skoða barinn og veitingastaðinn, svítur og ekkisvítur, allt yfirmáta smekklegt og inviting, með svölum út á lygnan pollinn, maður var næstum búinn að panta sér herbergi fyrir næstu sjö páska. Og sem við stóðum þarna á tali við barfreyjuna opnaðist einhver alveg ný vídd í landsbyggðina, sem var einhver blanda af Balestrand og Brighton, en jafnframt í anda Siglufjarðar. Því eitt sinn var hér heimsborgarbragur, þegar skipin sigldu beint á Köben og Kiel og Aðalgatan var jafn mannþröng og Oxford Street, og sá bragur er soldið endurvakinn þarna, með keim af USA. Sigló hefur sett upp seglin á ný. Og þaulvanur skipper í brúnni: Nú eru víst allir vel sáttir og meira en það við nýja bæjarstjórann Gunnar Birgisson, og þeir sýnu mest sem voru mest á móti ráðningunni. „Það stoppar ekkert á borðinu hans,“ sagði maður á bryggjunni. „Nú þurfa allir allt í einu að vinna á bæjarskrifstofunni,“ sagði kona í Samkaup, „þau hafa víst ekki undan“. Og gamli Kópavogskóngurinn er þegar búinn að taka upp eina götuna í bænum, til að malbika almennilega. (Fjallabyggð verður kannski bara að passa að hann byggi ekki mislæg gatnamót í Héðinsfirði.) Heillaráð dagsins kom svo rétt fyrir brottför þegar Robbinn sjálfur, Róbert Guðfinnsson, birtist í lobbýi, svínkátur með nýja hótelið sitt, og útskýrði galdurinn yfir Kára og Margréti: „Munið það bara krakkar mínir, að maður á alltaf að gera hlutina hundrað prósent, vanda sig eins vel og maður getur, annars bara að sleppa því!“ – „Já? Ókei.““

Allt að gerast.

Mynd: Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Hallgrímur Helgason / Jónas Kristjánsson / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]