Siglufjarðarpistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað og hefur undirritaður reynt að byrja hverju sinni þar sem frá var horfið.

Þann 4. janúar og 10. september 2011, 28. janúar, 21. júlí og 10. nóvember 2012, 6. apríl, 17. ágúst og 14. desember 2013 var komið að Siglufirði. Einnig 17. maí og 15. nóvember 2014, sem og 21. mars á þessu ári. Og svo í dag.

Þar segir:

 • Frá 1. janúar hafa 21.000 gestir sótt Síldarminjasafnið heim, sem er töluverð aukning frá því sem áður hefur verið, en frá árinu 2011 hafa gestir verið á bilinu 17.000–20.000 á ári. Hlutfall erlendra ferðamanna heldur áfram að hækka og stendur nú í 60%. Aldrei fyrr hefur verið saltað jafnt oft og í sumar, en fram fór 31 síldarsöltun, sem ræðst m.a. af tíðum heimsóknum skemmtiferðaskipa til Siglufjarðar í vor, sumar og haust, eða alls 19. En hluti af því sem þeim gestum er boðið upp á er einmitt að horfa á slíkt verklag fyrri tíma.
 • Síldarminjasafninu barst í marsmánuði síðastliðnum gjöf frá bræðrunum Oddi Guðmundi og Má Jóhannssonum, en það eru allar Siglufjarðarmyndir þeirra og gætu þær verið nálægt 2000 að tölu.
 • Miðvikudaginn 1. júlí voru eitt hundrað ár liðin síðan slökkvilið Siglufjarðar var stofnað.
 • Félag í eigu Þrastar Þórhallssonar, fasteignasala og stórmeistara í skák, festi í sumar kaup á Gagnfræðaskólanum, að Hlíðarvegi 18-20 á Siglufirði, sem ekki er lengur í notkun. Er verið að breyta húsnæðinu í íbúðarhús með 14 íbúðum.
 • Útsendari frá Lonely Planet, sem fer um landið og gistir án vitundar starfsfólks og eigenda á gististöðum í öllum flokkum, valdi í júlí The Herring Guesthouse og Siglunes Guesthouse (Hótel Siglunes) sem „Top Pick“. Einungis 23 gististaðir á landinu öllu fengu þessa einkunn og þar af bara einn á Akureyri.
 • Umferð um Héðinsfjarðargöng hefur aukist um 6% það sem af er ári, miðað við sama tímabil á síðasta ári. Meðalumferð um göngin (ÁDU) stefnir í 640 (ökutæki/dag) og heildarumferðin gæti farið í 235 þúsund ökutæki fyrir árið 2015. Umferð eykst alla vikudaga, mest mánudaga til fimmtudaga, eða um 6,9%, en 4,9% föstudaga til sunnudaga. Sumarumferð (SDU) jókst um 5,3% milli ára.
 • Í byrjun árs var hrundið af stað verkefninu Ræsing í Fjallabyggð. Markmið þess var að kalla eftir góðum viðskiptahugmyndum frá íbúum Fjallabyggðar sem auka við flóru atvinnulífs í sveitarfélaginu. Einstaklingar, hópar og fyrirtæki voru hvött til að senda inn viðskiptahugmyndir. Alls bárust 13 umsóknir og voru sex verkefni valin til áframhaldandi þátttöku.
 • Ofanflóðasjóður hefur samþykkt að greiða hluta af tjóni sem varð á mannvirkjum og vegum vegna vatnavaxtanna á Siglufirði í ágúst. Tjón vegna fasteigna og innbústjón fæst að mestu bætt af Viðlagatryggingum Íslands.
 • Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti nýverið fjárveitingu sem nota á til að byggja á við leikskólann á Siglufirði, sem fyrir löngu er orðinn allt of lítill. Í ár eru þar 75 börn en húsnæðið ekki gert fyrir nema 62. Á síðustu fjórum árum hefur fjölgað þar um 30 börn. Þessum umframfjölda hefur verið mætt með lausum kennslustofum sem komið hefur verið fyrir á lóð leikskólans.
 • Á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð sagði 18. þessa mánaðar: „Tekjur Fjallabyggðarhafna hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár og er það ekki síst að þakka markaðssetningu og þeirri þjónustu sem Fiskmarkaður Siglufjarðar hefur staðið fyrir enda landa nú fjölmörg skip útgerða utan Fjallabyggðar afla sínum reglulega í Fjallabyggð.“ Vísað er í fundargerð hafnarstjórnar frá 12. október þar sem fram kemur að á þessu ári hafi verið landað 17.072 tonnum á Siglufirði og 493 tonnum í Ólafsfirði (til 9. október).
 • Samkeppniseftirlitið heimilaði í byrjun júnímánuðar sameiningu AFLs sparisjóðs og Arion banka. Í bréfi frá svæðisstjóra Arion banka á Norðurlandi, dagsettu 20. október, til reikningseigenda í fyrrum SPS, kemur fram að nú hafi samruni AFLs sparisjóðs og Arion banka gengið formlega í gegn með samþykki Fjármálaeftirlitsins og stjórna bæði AFLs sparisjóðs og Arion banka.

Pistillinn í Morgunblaðinu í dag, Fyrsta vetrardag.

Forsíðumynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Úrklippa: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is